Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra úthlutaði styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til 12 verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum. Alls bárust 32 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 857 m.kr. fyrir árið 2023.
Eftirfarandi verkefni fengu styrk á Norðurlandi eystra:
Kostir í hitaveituvæðingu Grímseyjar. Fyrirhugað er að staðsetja vinnsluholu og endurmeta fyrri gögn. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) hljóta styrk að upphæð 4.300.000 kr.
Gígur – uppbygging á aðstöðu fyrir nýsköpun, menntun og rannsóknir í Þingeyjarsveit. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð 2.250.000 kr.
Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.
SSNE óskar þessum verkefnum innilega til hamingju með styrkinn.
Sjá nánar á heimasíðu Byggðastofnunar