Fara í efni

Ársskýrsla 2023

ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA

Árið 2023 var um margt gott ár hjá SSNE og má segja að starfsemin hafi náð ákveðnum stöðuleika eftir nokkuð umrót á síðustu árum. Vel tókst til varðandi rekstur félagsins og var unnið að fjölmörgum spennandi verkefnum á árinu, eins og sjá má með lestri þessarar ársskýrslu.

Það urðu litlar breytingar á starfsmannahópnum á árinu. Árið hófst þó á því að Díana Jóhannsdóttir kom til starfa sem verkefnastjóri í stað Rebekku Kristínar Garðarsdóttur sem lét af störfum í ágúst 2022. Þá lét Gunnar Már Gunnarsson af störfum sem verkefnastjóri Betri Bakkafjarðar um áramót. Romi Schmitz var ráðin í hans stað en hún hóf störf á sama tíma. Það er viðeigandi að nýta þetta tækifæri og þakka Gunnari fyrir óeigingjarnt starf í þágu Bakkafjarðar síðustu tvö ár, en Gunnar fór þó ekki langt og tók við tímabundnu starfi hjá SSNE sem verkefnastjóri innviðauppbyggingar í Langanesbyggð í janúar 2024.

Í maí flutti SSNE á Akureyri starfsemi sína í Strandgötu 31 vegna myglu og vatnsskemmda í Hafnarstræti 91. Húsnæðið í Strandgötunni er hugsað sem tímabundin lausn og stendur yfir leit að langtímahúsnæði fyrir starfsemina. Eins og sjá má hér í ársskýrslunni var starfsemi SSNE á árinu afar fjölbreytt og mörg verkefni sem væri vert að draga sérstaklega fram. Áhersluverkefni Sóknaráætlunar voru óvenju áberandi á árinu og má þar nefna til að mynda Samgöngu- og innviðastefnu Norðurlands eystra, Upptakt og Fiðring, Græn skref SSNE og Líforkuver í Eyjafirði sem óx um áramót út úr SSNE.

 Umhverfismálin voru nokkuð áberandi á síðasta ári, en það helgast fyrst og fremst af öflugum stuðningi við málaflokkinn frá umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu, en einnig var aukinn kraftur settur í að fylgja eftir markmiðum málaflokksins í Sóknaráætlun Norðurlands eystra á árinu.

Samkvæmt samþykktum er það hlutverk SSNE að vera bakhjarl aðildarsveitarfélaga í sameiginlegum málum þeirra og stuðla að góðu mannlífi, lifandi menningarlífi og öflugri atvinnustarfsemi á starfssvæðinu og heilt yfir gekk það vel á árinu 2023. Unnið var að fjölmörgum verkefnum, sumum gömlum og öðrum nýjum – allt verkefni sem segja má að hvert á sinn hátt styðji við samfélagið hér á Norðurlandi eystra. Allt frá Fjárfestahátíð á Siglufirði, hádegisfyrirlestra fyrir frumkvöðla til móttöku Forseta Íslands, Uppbyggingarsjóður og stuðnings við brothættar byggðir.

Allt okkar starf grundvallast þó á starfsfólkinu okkar og því finnst mér það vera við hæfi að ljúka þessum pistli á að þakka starfsfólki SSNE fyrir vel unnin störf á árinu 2023. Hver stofnun, hvert fyrirtæki er ekkert án þeirra góðu verka sem starfsfólkið vinnur og þar erum við hjá SSNE sannarlega heppin.


Með kærri kveðju
Albertína Friðbjörg

 

UM SSNE

Starfsemi SSNE

Starfsemi SSNE er á fimm starfsstöðvum, Húsavík, Akureyri, Raufarhöfn, Ólafsfirði og Bakkafirði. Þá er starfsfólk einnig með viðveru á Þórshöfn og á Siglufirði.

Hjá SSNE voru starfandi tólf starfsmenn á árinu 2023, en í upphafi árs hóf Díana Jóhannsdóttir störf sem verkefnastjóri í stað Rebekku Kristínar Garðarsdóttur sem lét af störfum 2022. Þá var í lok árs var Romi Schmitz ráðin til starfa sem verkefnastjóri í brothættra byggða verkefnið Betri Bakkafjörður, í stað Gunnars Más Gunnarssonar sem hvarf til annarra verkefna um áramót.

Haldinn var starfsdagur SSNE þann 6. júní á Húsavík og var hann nýttur til að skilgreina betur teymi og teymisvinnu innan SSNE. (MYND). Sameiginlegur starfsdagur var haldinn í lok maí með starfsfólki SSNV og Markaðsstofu Norðurlands. Þá var haldinn sameiginlegur starfsdagur með stjórn og starfsfólki SSNE í byrjun desember í Hofi á Akureyri.

Stjórn SSNE

Á ársþingi SSNE í apríl 2023 var samþykkt að fjölga í stjórn SSNE þannig að öll sveitarfélög eigi fulltrúa í stjórn. Stjórn SSNE eftir ársfundinn skipa því:

Lára Halldóra Eiríksdóttir, formaður stjórnar, Sigurður Þór Guðmundsson, Þröstur Friðfinnsson, Helena Eydís Ingólfsdóttir, Hilda Jana Gísladóttir, Þórunn Sif Harðardóttir, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, Hermann Ingi Gunnarsson, Guðjón M. Ólafsson, Axel Grettisson og Katrín Sif Ingvarsdóttir.

Allar fundargerðir stjórnar SSNE, fagráða og úthlutunarnefndar eru aðgengilegar á hér á heimasíðu SSNE. Á árinu 2023 fór nokkur tími í að uppfæra heimasíðuna og gera hana aðgengilegri og gagnlegri fyrir notendur síðunnar. Sú vinna heldur áfram á árinu 2024.

Skýrslar stjónar 

Árið 2023 hjá SSNE var líkt og áður bæði fjölbreytt og gefandi. Í þetta skiptið snéri stóra breytingin á árinu að stjórninni sjálfri, en á ársþingi samtakanna sem haldið var í apríl á Siglufirði voru samþykktar nokkuð umfangsmiklar breytingar á samþykktum samtakanna. Breytingarnar fólu meðal annars í sér fjölgun fulltrúa í stjórn, úr 7 í 11 og áttu því öll sveitarfélögin innan SSNE sæti við stjórnarborðið eftir ársþingið. Þetta hefur reynst afar jákvæð ákvörðun og hefur haft góð áhrif á starf stjórnarinnar og starfsemi samtakanna, enda tryggir þetta að sveitarfélögin hafi öll beina aðkomu að stjórn samtakanna. Breytingarnar fólu einnig í sér að nú verða aðeins haldin tvö þing á ári, ársþing og haustþing – í stað ársþings og tveggja þinga að hausti eins og áður. Haustþingið var svo haldið á Teams í október en það þing fjallaði fyrst og fremst um Samgöngu- og innviðastefnu SSNE. Með samþykktinni sameinuðust sveitarfélögin um áherslur í uppbyggingu samgangna og annarra innviða í landshlutanum næsta áratuginn og hefur stefnan nú þegar sannað sig sem mikilvægt tól í hagsmunagæslu fyrir landshlutann, sem er eitt af megin verkefnum SSNE.

Á árinu náðist einnig sá mikilvægi áfangi að uppgjöri vegna almenningssamanga lauk loksins á árinu með niðurfellingu allra krafna Vegagerðarinnar, en nánar er fjallað um þá niðurstöðu hér í umfjöllun um ársreikning SSNE. Í stuttu máli sagt þá breytir þessi ákvörðun nokkuð miklu um fjárhagsstöðu samtakanna og ber að fagna því að þessum áfanga hafi loks verið náð.

Stjórn SSNE fundar alla jafna í fjarfundi, en á árinu voru haldnir tveir staðfundir. Þeir voru haldnir á Þórshöfn í byrjun júní og á Akureyri í byrjun desember. Báðir voru fundirnir afar góðir en fundurinn á Þórshöfn í júní var einnig nýttur til heimsókna, en fundurinn í desember var jafnframt nýttur til sameiginlegs starfsdags með starfsfólki SSNE. Á starfsdeginum var m.a. unnið með framtíðarmarkmið og unnin SVÓT greining sem mun nýtast í vinnu við nýja sóknaráætlun landshlutans á árinu 2024.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvæg verkfæri til byggðaþróunar og skiptir miklu máli að vel takist til við mótun nýrrar áætlunar. Sóknaráætluninni er í raun ætlað að svara því hvernig við viljum að Norðurland eystra mótist til framtíðar – hvernig viljum við að samfélag okkar hér þróist á næstu 5 árum? Verða hér 50 þúsund íbúar árið 2029? Hvernig nýtum við fjármuni hins opinbera til að tryggja að svo verði og skapa gott samfélag sem íbúum líður vel í? Þessum spurningum og fleirum til þarf að svara í nýrri sóknaráætlun og munu vonandi sem flestir íbúar, og þá ekki síst sveitarstjórnarfólk, taka þátt í vinnunni framundan.

Starfsemi SSNE hefur eflst á allan hátt á árinu 2023 og er það fyrst og síðast öflugum hópi starfsfólki samtakanna að þakka að svo sé. Stjórn vill því að lokum þakka þeim sérstaklega fyrir sitt óeigingjarna starf fyrir landshlutann á árinu.

Sýnileiki og miðlar SSNE

Heimasíða SSNE www.ssne.is er þungamiðja í miðlun upplýsinga og gegnir lykilhlutverki í öllu okkar kynningarstarfi. Á vefnum er til gott safn gagnlegra upplýsinga m.a. um starfsemina, stefnumál stjórnvalda, fundargerðir, reglur og samþykktir, styrkjaumhverfið og fréttum af innra starfi. Þar er einnig hægt að panta viðtal við atvinnuráðgjafa og skrá sig á póstlista fréttabréfs SSNE. Birtar voru 180 fréttir á árinu og fjöldi viðburða og umsóknarfresta voru kynntir. Farið var í breytingar á heimasíðunni á árinu til að gera hana notendavænni og til að auka sýnileika þeirra frétta sem birtar eru.

SSNE heldur úti Facebooksíðu, en á henni eru um 1700 fylgjendur. Síðan er notuð til að draga inn umferð á heimasíðu SSNE og er fréttum meðal annars deilt þangað inn í þeim tilgangi. Jafnframt er Facebook síðan notuð til að deila myndum og öðru efni af fundum og fyrirlestrum sem SSNE tekur þátt í. SSNE notast einnig töluvert við viðburðaeiningu Facebook til að kynna viðburði á sínum vegum enda fá slíkir viðburðir oft góða dreifingu.

Instagram síða SSNE er almennt notuð til að koma á framfæri auglýsingum og upplýsingum um viðburði og fundi sem SSNE heldur eða tekur þátt í. Þar eru rúmlega 700 fylgjendur sem fylgjast með uppfærslum síðunnar.

SSNE heldur úti Youtube rás en tilgangur hennar er einungis að vera vettvangur til að geyma upptökur og myndbönd svo hægt sé að deila þeim á öðrum miðlum.
Þá voru myndbönd sem tengjast áhersluverkefnunum Markaðs- og kynningarsókn framhaldsskólanna og Aukinn sýnileiki Norðurlands eystra vistuð inn á youtube rás samtakanna, en þau myndbönd fá finna hér.

Haldið hefur verið úti mánaðarlegu fréttabréfi þar sem dregnar eru saman helstu fréttir líðandi mánaðar, en einnig er birtur pistill frá framkvæmdastjóra í hverju fréttabréfi. Yfir 200 aðilar eru skráðir á fréttabréfalista SSNE, en á þessu ári var farið í að kaupa nýtt kerfi til að halda utan um fréttabréfið. Nýja kerfið einfaldar gerð fréttabréfsins til muna ásamt því að opna á þann möguleika að fylgjast með hversu margir opni og lesi fréttabréfið.

SÓKNARÁÆTLUN NORÐURLANDS EYSTRA 

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í sóknaráætlunum landshluta skal mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.

Samráðsvettvangur Sóknaráætlunar

Samkvæmt samningi um Sóknaráætlun ber SSNE að starfrækja samráðsvettvang. Þátttakendur í samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra hafa beina aðkomu að gerð Sóknaráætlunar fyrir landshlutann, en samráðsvettvangurinn var virkjaður í lok árs 2022. Með samráðsvettvanginum er stuðlað að því að ólíkar raddir frá ólíkum hópum og svæðum landshlutans hafi áhrif á Sóknaráætlunina og framgang hennar sem SSNE starfar eftir.

Það er mikilvægt fyrir landshlutann í heild að í samráðsvettvangnum sitji sem breiðastur hópur, fólk á öllum aldri og af ólíkum kynjum sem hafa reynslu af ólíkum sviðum mannlífsins. Samráðsvettvangurinn samanstendur af fólki úr atvinnulífinu, fræðasamfélaginu, fólki sem hefur tengsl við félagasamtök, starfsmönnum og fulltrúum opinberra stofnana, kjörnum fulltrúum og ungmennum. Öll geta óskað eftir sæti í samráðsvettvangnum og er einfalt að skrá sig hér.

Samráðsvettvangurinn fundaði tvisvar á árinu 2023, maí og desember, í fjarfundi. Á fundunum var farið yfir árangursmat sóknaráætlunar, úthlutun úr Uppbyggingarsjóði og áhersluverkefni Sóknaráætlunar.

Fagráð

SSNE starfrækir þrjú fagráð sem starfa á grundvelli samnings um Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Fulltrúar í fagráðum er skipaðir af ársþingi samkvæmt tillögum stjórnar til tveggja ára í senn. Tilgangur fagráðanna er að benda á sóknarfæri á sviði atvinnu-, nýsköpunar-, menningar- og umhverfismála sem efla munu landshlutann. Fagráðunum er jafnframt ætlað það hlutverk að koma með tillögur að verkefnum og sértækum eða tímabundnum áherslum Uppbyggingarsjóðs í samráði við úthlutunarnefnd. 

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar

Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar tók til starfa á árinu, en fagráðið skipa:

Thomas Helmig, formaður fagráðs, Norðurþing
Sigríður Róbertsdóttir, Eyjafjarðarsveit
Preben Jón Pétursson, Akureyrarbær
Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir, Fjallabyggð
Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, Þingeyjarsveit

Fundað var tvisvar á árinu hjá fagráðinu og má finna fundargerðir þess hér.

Fagráð menningar

Þetta var annað starfsár Fagráðs menningar, en fagráðið skipa:

Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður fagráðs, Akureyrarbær
Anita Elefsen, Fjallabyggð
Guðni Bragason, Norðurþing
Sigurður Guðni Böðvarsson, Þingeyjarsveit / Kristín Sóley Björnsdóttir, Akureyrarbær
Sigríður Örvarsdóttir, Eyjafjarðarsveit

Sigurður Guðni Böðvarsson vék úr fagráði menningar eftir tvö starfsár og þökkum við honum kærlega fyrir vel unnin störf. Í stað Sigurðar Guðna skipaði stjórn Kristínu Sóleyju Björndóttur í fagráð menningar. Fagráðið fundaði samkvæmt starfsáætlun tvisvar á árinu og má finna fundargerðir þess hér.

Fagráð umhverfismála

Fagráð umhverfismála hefur starfað í tvö ár og er skipað eftirfarandi aðilum:

Ottó Elíasson, formaður fagráðs, Akureyrarbær
Guðmundur Sigurðsson, Akureyrarbær
Rut Jónsdóttir, Akureyrarbær
Salbjörg Matthíasdóttir, Norðurþing
Áki Guðmundsson, Langanesbyggð/Arnar Stefánsson Fjallabyggð

Áki Guðmundsson vék úr fagráði umhverfismála eftir eitt starfsár og þökkum við honum kærlega fyrir vel unnin störf. Í stað Áka skipaði stjórn SSNE Arnar Stefánsson í fagráð umhverfismála. Fagráð umhverfismála hélt einn fund á árinu 2023. Fundargerðina er hægt að nálgast hér.

Uppbyggingarsjóður

Á árinu var ákveðið að gera töluverðar breytingar á umsýslu Uppbyggingarsjóðs. Meðal þess sem var ákveðið var að að flýta ferlinu og auglýsa eftir styrkjum í september til október og úthluta í desember 2023 vegna ársins 2024. Vegna þessa er fjallað um tvær úthlutanir í þessari árskýrslu. Í úthlutunarnefnd sitja 6 einstaklingar, fulltrúar allra fagráða og þrír skipaðir af stjórn SSNE.

Breyting varð á úthlutunarnefnd þegar Katrín Sigurjónsdóttir formaður gaf ekki kost á sér áfram og tók Hilda Jana Gísladóttir við sæti hennar, þá gáfu Eva Hlín Dereksdóttir og Guðni Bragason ekki kost á sér áfram og þakkar SSNE þeim öllum fyrir vel unnin störf. Í þeirra stað komu Preben Jón Pétursson og Sigurður Þór Guðmundsson.

Úthlutunarnefnd 2022 vegna úthlutunar 2023:
Hilda Jana Gísladóttir, formaður
Thomas Helming, fulltrúi Fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar
Hulda Sif Hermannsdóttir fulltrúi Fagráðs menningar
Ottó Elíasson, fulltrúi Fagráðs umhverfismála
Preben Jón Pétursson, skipaður af stjórn SSNE
Sigurður Þór Guðmundsson skipuð af stjórn SSNE

Úthlutunarnefnd 2023 vegna úthlutunar 2024:
Hilda Jana Gísladóttir, formaður
Thomas Helming, fulltrúi Fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar
Kristín Sóley Björnsdóttir fulltrúi Fagráðs menningar
Rut Jónsdóttir, fulltrúi Fagráðs umhverfismála
Preben Jón Pétursson, skipaður af stjórn SSNE
Halldóra J. Friðbergsdóttir, skipuð af stjórn SSNE.

Áður en opnað var fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð var haldið stutt námskeið fyrir alla starfsmenn SSNE þar sem áhersla hefur verið lögð á að allt starfsfólk geti veitt grunnráðgjöf til umsækjenda í sjóðinn. Þá var markvisst unnið í því að auka ráðgjöf til þess að auka gæði þeirra umsókna sem koma í Uppbyggingarsjóð.

Líkt og á fyrra ári var áhersla á umhverfismál við úthlutun ársins 2023, og fékk sú áhersla aukið vægi í mati umsókna.

Umsóknarfrestur til styrkja fyrir árið 2023 var 17. nóvember 2022.
Úthlutunarhátíð var rafræn, haldin fimmtudaginn 2. febrúar. Alls bárust 172 umsóknir, en 72 verkefni hlutu styrki, samtals að upphæð 73,3 m.kr. Þar af voru 26 á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar, 34 menningarverkefni og 12 stofn- og rekstrarstyrkir.

Listi yfir öll verkefnin sem hlutu styrk má finna hér.

Umsóknarfrestur til styrkja fyrir árið 2024 var líkt og komið hefur fram flýtt og var 13. september, og var opið fyrir umsóknir til 18. október.
Úthlutunarhátíðin var haldin rafrænt 13. desember. Þar var úthlutað 73,5 milljónum til 76 verkefna. Þar af voru 70 menningarverkefni, 43 atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 10 stofn- og rekstrarstyrkir.

Listi yfir öll verkefnin sem hlutu styrk má finna hér

Áhersluverkefni

Stjórn SSNE valdi 18 verkefni á árinu sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Heildar styrkur til verkefnanna var 72,8 milljónir króna sem skiptust á eftirfarandi verkefni.

Aukinn sýnileiki Norðurlands eystra - 6.515.000 kr. Markmið verkefnisins er að auka sýnileika Norðurlands eystra sem og verkefna og fyrirtækja á svæðinu. Með auknum sýnileika er hægt að vekja athygli á svæðinu sem hentugum kost til fjárfestinga sem og búsetu ásamt því að treysta ímynd svæðisins. Lögð verður sérstök áhersla á að draga fram verkefni fjármögnuð af Sóknaráætlun Norðurlands eystra í gegnum árangurssögur. Myndböndin sem hafa verið framleidd eru aðgengileg á Youtube og má sjá þau hér.

Upptakturinn - Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna – 850.000 kr. Markmið verkefnisins eru að stuðla að tónsköpun ungs fólks, hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist og aðstoða þau við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju með fagfólki, auk þess að gefa þeim tækifæri til að upplifa eigin tónlist í flutningi atvinnutónlistarfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Menningarhúsinu Hofi. Til verða ný tónverk sem flutt verða á tónleikum Upptaktsins í Hofi, auk þess sem þau verða varðveitt með upptöku.

Sjálfbær ferðaþjónusta – 1.500.000 kr. Markmið fyrsta áfanga verkefnisins var að kortleggja núverandi stöðu ferðaþjónustu á Norðurlandi þegar kemur að sjálfbærni og var það gert í samvinnu við svissnesku ferða- og ráðgjafastofuna Kontiki. Sú vinna skilaði m.a. fjórum forgangsatriðum sem hægt er að byggja aukna sjálfbærni ferðaþjónustunnar á. Í næstu skrefum verður unnið með tvö þeirra; aukinn hag heimamanna og auknar heilsárstekjur.

Samfélagsleg áhrif af millilandaflugi á Norðurlandi eystra – 1.200.000 kr. Verkefnið mun meta áhrif af millilandaflugi Niceair frá Akureyri á einstaklinga, fyrirtæki og samfélög á Norður- og Austurlandi. Niðurstöðurnar munu nýtast við uppbyggingu millilandaflugs og opinbera stefnumótun í flugsamgöngum, stuðla að upplýstri almennri umræðu og auka sérfræðiþekkingu á byggðaáhrifum flugsamgangna. Rannsóknina má lesa hér.

Veltek - heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands eystra – 5.000.000 kr. Markmið verkefnisins er að efla nýsköpun í velferðar- og heilbrigðisþjónustu, deila nýsköpunarþekkingu á milli svæða, stofnana og sveitarfélaga. Undirmarkmið er að efla norrænt nýsköpunarsamstarf um velferðartækni og draga norrænt fjármagn inn á svæðið. Sjá nánar hér.

Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra – 2.500.000 kr. Markmiðið er að til verði heildstæð samgöngu- og innviðastefna fyrir Norðurland eystra, þar sem gert er grein fyrir helstu áætlunum og forgangsröðun verkefna. Vinnunni lauk með samþykkt stefnunnar á haustþingi SSNE í október. Hér er hægt að nálgast samgöngu- og innviðastefnu Norðurlands eystra.

LOFTUM - fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál – 3.075.500 kr. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á umhverfis- og loftslagsmálum meðal starfsfólks sveitarfélaga, kjörinna fulltrúa og fulltrúa í fastanefndum á starfssvæði SSNE. Upplýsingar um námskeið má finna hér.

Ungmennaþing Norðurlands eystra – 1.600.000 kr. Markmiðið er að valdefla ungt fólk í landshlutanum, auka tenginu, skapa samheldni, efla tengslanet og samvinnu ungmenna í landshlutanum. Tilgangurinn er að sækja í auknum mæli skoðanir og reynslu ungmenna þvert á sveitarfélög, stuðla að því að þau kynnist innbyrðis og að það verði eftirsóknarvert og áhugavert að kynnast stjórnsýslunni og verkefnum SSNE. Það er einnig mikilvægt að fá skilaboð frá ungmennum inn á samráðsvettvang sóknaráætlunar. Áhersla ársins og viðfangsefni voru mótuð í samstarfi við fulltrúa ungmenna, Menning og aðrar skapandi greinar.
Niðurstöður Ungmennaþings 2023 má lesa hér.

Fjölmenningarráð SSNE – 1.500.000 kr. Markmiðið er að auka vægi fjölmenningar í landshlutanum, sækja í auknum mæli skoðanir fólks af erlendum uppruna og vinna staðfast að hagsmunum þessa ört stækkandi hóps á svæðinu.    

Uppspretta – 15.000.000 kr. Meginmarkmið verkefnisins er að styðja við sveitarfélög svæðisins í umhverfis- og loftslagsmálum og koma tillögum að aðgerðum úr fyrra áhersluverkefni í framkvæmd. Verkefnið byggir á fyrra áhersluverkefni, Spretthópar í umhverfis- og loftslagsmálum, þar sem verkefnastjóri fundaði með sérfræðingum og mótaði tillögur að aðgerðum fyrir svæðið. Spretthóparnir ná yfir svið hringrásarhagkerfis, landnýtingar, náttúruverndar í byggðaþróun og aðlögunar gegn loftslagsbreytingum. Þeir takast því á við allar helstu áskoranir sem blasa við landshlutanum í umhverfis- og loftslagsmálum.

Fiðringur, hæfileikakeppni unglinga á Norðurlandi eystra – 5.000.000 kr. Markmið verkefnisins er að stuðla að listsköpun ungmenna og hvetja þau til að semja, æfa og flytja sína eigin frumsköpun. Að leiðbeina ungmennum í samvinnu, lýðræðislegri hugsun og ákvarðanatöku þegar kemur að því að velja milli hugmynda og gera þær að veruleika. Að skapa vettvang fyrir ungmenni af öllu svæðinu til að halda uppskeruhátíð og flytja verk sín á stóru sviði með öllum leikhústöfrunum. Fyrirmyndir Fiðrings eru hinn árlegi Skrekkur í Reykjavík og hinn tveggja ára gamli Skjálfti á Suðurlandi.

Félagsmiðstöð í skýjunum – 4.000.000 kr. Markmið verkefnisins er að rjúfa félagslega einangrun barna og koma til móts við þarfir þeirra og áhugamál þvert á sveitarfélög í landinu öllu. Hrópandi þörf til þess að rjúfa einangrun barna í minnstu þorpum landsins og dreifbýli, auk þess stækkandi hóps barna um allt land sem eru félagslega einangruð heima hjá sér.

Útrýming malarvega – 2.500.000 kr. Markmið verkefnisins er að kostnaðarmeta framkvæmdir við að malbika malarvegi á Norðurlandi eystra, ræða við stjórnvöld og leita fjármagns til framkvæmdanna. Eitt af því sem fram kemur í samgöngustefna Norðurlands eystra er fjöldi km af malarvegum sem er afar mikill. Hér er komin fram aðgerðaráætlun hvernig megi flýta framkvæmd og tryggja öryggi vegfarenda vegum á Norðurlandi eystra. Verkefnið felur í sér skráningu og flokkun vega, þeir metnir eftir t.d. umferðaþunga, lengd og þörfum. Vinnan verður svo kynnt á íbúafundum og leitað samráðs heimafólks, t.d. á snjóþungum eða hættulegum stöðum.

Efling íslensku sem annars máls fyrir fullorna á starfssvæði SSNE – 965.000. kr. Markmið verkefnisins er að mynda samráðsvettvang þeirra opinberu aðila sem koma að kennslu íslensku sem annars máls fyrir ungmenni og fullorðna (16 ára og eldri) á starfssvæði SSNE. Bæta aðgengi að og skipulag á námi í íslensku sem öðru námi. Þar með talið aðgengi óháð staðsetningu.

Auka fjárfestingar á Norðurlandi eystra – 6.500.000 kr. Markmið verkefnisins er að laða að fjárfestingar í landshlutann og þar með fjölga atvinnuskapandi verkefnum í sem flestum sveitarfélögum. Vinna að mörkun og markaðssetningu landshlutans, sókn tækifæra, stuðningi við áhugasama fjárfesta, útfærslu hugmynda að verkefnum í samstarfi við sveitarfélögin. Stefnt verði að því að sveitarfélög innan SSNE sameinist um stefnu í markaðssetningu landshlutans, þar sem áhersla verður lögð á sérstöðu hvers sveitarfélags fyrir sig, þannig að fjárfestar geti gert sér sem besta grein fyrir hvar hagsmunir þeirra og sveitarfélaga fara saman, sem og að ekki verði um „óvægna samkeppni“ að ræða innan landshlutans.

Líforkuver í Eyjafirði – 7.500.000 kr. Markmið verkefnisins er að gera kostnaðar- og rekstraráætlun fyrir líforkuver á Dysnesi í Hörgársveit. Fyrir liggur frumhagkvæmnimat á líforkuveri í Eyjafirði sem unnið var af SSNE, Vistorku og ráðgjöfum fyrir hönd sveitarfélaganna innan SSNE. Helstu niðurstöður skýrslunnar hafa verið kynntar á fundi sem haldinn var í Hofi 1. nóvember 2022 og fyrir sveitarstjórnum á fundum í janúar 2023. Niðurstöður frumhagkvæmnimatsins gefa tilefni til þess að grundvöllur verkefnisins verður kannaður frekar, frumhagkvæmismat líforkuvers má finna hér.

Gull úr grasi – 5.000.000 kr. Meginmarkmið verkefnisins er að auka fæðuöryggi Íslands og sjálfbærni innlendrar matvælaframleiðslu með uppsetningu þurrkverksmiðju í Þingeyjarsýslu sem þurrkar m.a. grasköggla og korn. Til framleiðslunnar yrði nýttur glatvarmi og ræktarland í nágrenninu, en í dag er til reiðu töluvert af vannýttu ræktarlandi sem nýta má til framleiðslunnar.

Loftslagsstefna Norðurlands eystra – undirbúningur – 4.000.000. kr. Markmið verkefnisins er að greina samfélagslosun gróðurhúsalofttegunda á öllu starfssvæði SSNE eftir sveitarfélögum. Lokaafurðin verður skýrsla um losun gróðurhúsalofttegunda í landshlutanum, ásamt yfirliti yfir tækifæri til úrbóta.

Nánari upplýsingar um þessi og fyrri áhersluverkefni má finna hér.

SAMSTARF

Mikið af verkefnum SSNE byggjast upp á samstarfi og góðum tengslum. Eitt af markmiðum ársins var að efla tengsl við stofnanir á Norðurlandi, en einnig á landsvísu. Óhætt er að segja að það markmið hafi gengið eftir og verkefnið hér eftir verður að viðhalda þessum góðu tengslum í gegnum fjölbreytt verkefni.

Föstudagsfundir

SSNE leggur mikla áherslu á að auka samstarf við sveitarfélögin og efla samstarf þeirra á milli. Mikilvægur liður í því eru fundir SSNE með kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og framkvæmdastjórum þeirra, svokallaðir föstudagsfundir. Þessir fundir eru orðnir fastir í sessi mánaðarlega, með hléi yfir sumartímann og þegar þing SSNE eru haldin. Viðfangsefni fundanna eru mjög fjölbreytt og yfirleitt höfum við fengið aðila inn á fundinn til að fara yfir málefni sem efst eru á baugi eða teljast mjög brýn.

Haldnir voru 6 föstudagsfundir á síðasta ári og voru þeir vel sóttir af kjörnum fulltrúum og, eftir atvikum, starfsfólki sveitarfélaganna.

Um mitt ár var undirritaður formlegur samstarfssamningur við Íslandsstofu um kynningarmál, upplýsingamiðlun og framgang fjárfestingaverkefna. Þessir samningar Íslandsstofu við landshlutasamtök sveitarfélaga um land allt festu í sessi það dýrmæta samstarf sem landshlutasamtökin hafa átt við Íslandsstofu um árabil. Þessi samningur hefur nú þegar skilað þéttara samtali og samvinnu, ekki síst um verkefni sem snúa að fjárfestingum innan landshlutans og kynningu á þeim tækifærum sem búa innan landshlutans.

Gott samstarf hefur verið um langt skeið við Samtök iðnaðarins varðandi menntamál, en sú tenging er okkur mikilvæg á ýmsan hátt. Á árinu var haldin sameiginlegur fundur SI, Meistarafélag byggingamanna á Norðurlandi, Byggiðn og SSNE, þar sem fjallað var um öryggismál í mannvirkjagerð. Meistarafélag Byggingamanna á Norðurlandi fundar mánaðarlega hjá SSNE.

Þrír starfsmenn SSNE tóku þátt í náms- og kynnisferðferð Byggðastofnunar og sjö landshlutasamtaka til Noregs í maí. Einnig voru fulltrúar innviðaráðuneytisins og byggðamálaráðs með í ferðinni. Heimsóknir hópsins voru mjög fjölbreyttar en í grunninn eru Norðmenn að kljást við mikið af sömu áskorunum og Ísland. Nordic innovation var heimsótt í Osló, en svo var haldið til Þrándheims þar sem ráðstefna var haldin með fylkinu, auk þess sem NTNU háskólinn var heimsóttur. Meðal þess sem fram kom þar er að á vettvangi landbúnaðar og sjávarútvegs sjá Norðmenn fram á skort á starfsfólki sem býr yfir þeirri hæfni sem þessar atvinnugreinar þarfnast hve mest. Orkumál fengu einnig sitt rými í dagskránni. Þar var sérstaklega fjallað um vindorku sem ein af þeim framtíðarlausnum er Norðmenn horfa til á vettvangi grænnar orku, en mikið hefur verið rætt um vindorku síðustu misseri bæði á Íslandi og í Noregi. Ferðir sem þessar eru mjög gagnlegar fyrir landshlutasamtökin, enda dýrmætt að fá tækifæri til að sækja fróðleik til nágrannaþjóða okkar í byggðamálum, auk þess er gagnlegt fyrir starfsfólk Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna að kynnast innbyrðis, ræða samstarfið og verkefnin fram undan.

Starfsfólk SSNE sótti einnig haustfund atvinnuráðgjafa í Reykjanesbæ í nóvember, en landshlutasamtökin skiptast á að halda fundina þar sem ýmis fræðsla fer fram og upplýsingum deilt. Að þessu sinni var yfirskrift fundarins Gervigreind eða gerfigreind? Fjallað var um miðlun og hagnýtingu gervigreindar í þjónustu atvinnuráðgjafa og byggðaþróunar. Fundurinn var vel sóttur frá öllum landshlutum og Byggðastofnun og nýttist vel til að deila reynslu, efla tengslin og kynna verkefni milli landshluta. SSNE og SSNV kynntu sameiginlegt verkefni allra landshluta og Íslandsstofu; Invest in Iceland, sem gengur út að hafa sameiginlegan gangnagrunn fyrir fjárfestaverkefni um allt lands. SSS kynnti verkefnið Velkomin til Suðurnesja. Í lok dags var Byggðasafnið á Garðskaga heimsótt. Sérstaða safnsins er einstakt vélasafn, en einnig hefur það að geyma ýmsar sjóminjar og safnabúð sem byggð er á Verzlun Þorláks Benediktssonar sem rekin var í Garði í rúm 50 ár.

Samtal landshlutasamtakanna er alltaf að aukast og eru reglulegir samráðsfundir framkvæmdastjóra og Byggðastofnunnar mikilvægir. Þá funda formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna einnig reglulega þar sem rætt er um sameiginleg hagsmunamál.

EIMUR, samstarf um bætta nýtingu auðlinda á Norðurlandi eystra náði þeim mikilsverða árangri að fá 225 m.kr. styrk úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. SSNE var aðili að umsókninni sem snéri að verkefninu RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition). Nánar er fjallað um verkefnið hér að neðan.

Meðal samstarfsverkefna með Markaðsstofu Norðurlands (MN) er C1 verkefnið Straumhvörf sem var vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu sem nær yfir allt Norður- og Austurland. Tilgangurinn var að nýta þau tækifæri sem felast í auknu beinu millilandaflugi inn á landssvæðið og búa til nýjar vörur og vörupakka í ferðaþjónustu. Var þar sérstaklega horft til stuðnings við kaldari ferðaþjónustusvæði. Að verkefninu stóðu, ásamt SSNE, SSNV, Austurbrú, og Markaðsstofa Norðurlands.
Þann 31. maí var haldinn sameiginlegur vinnudagur SSNE, SSNV og Markaðsstofu Norðurlands. Voru þar rædd sameiginleg verkefni og hugsanlegar sóknarfæri.
Einnig hefur Markaðsstofan unnið að áhersluverkefni SSNE, Sjálfbær ferðaþjónusta sem hefur átt mikil samleiðaráhrif með Straumhvörfum.

 

 

Aðkoma að aðgerðaráætlun ferðaþjónustunnar

Í upphaf sumars skipaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra skipaði sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Díana Jóhannsdóttir verkefnastjóri hjá SSNE tók þátt í þeirri vinnu sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og starfaði í starfshóp er snéri að uppbyggingu áfangastaða. Áætlað er að niðurstaða þessarar vinnu verði tillaga til þingsályktun sem lögð verður fyrir á vorþingi 2024.

Í mars 2023 héldu SSNE, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð opinn samráðsfund með ferðaþjónustuaðilum á Tröllaskaga. Fundurinn var haldinn í Tjarnarborg í Ólafsfirði. Mjög góð mæting var á fundinn en um 40 manns mættu og tóku þátt í umræðum um ferðaþjónustu á svæðinu. Ljóst er að margir möguleikar leynast í ferðaþjónustu á Tröllaskaga. Lögð var fram sú hugmynd að skapa ferðaþjónustuaðilum sameiginlegan vettvang í gegnum Facebook hóp. Þar verði til vettvangur til samráðs um ýmis sameiginleg mál og til að auglýsa viðburði, opnunartíma, fundi og þjónustu sem í boði er. Það er ljóst að mikill kraftur er í ferðaþjónum á svæðinu og horft er til aukins samstarfs ferðaþjónustuaðila á Tröllaskaga.

 

Nokkuð gestkvæmt var á árinu eftir langt hlé vegna samkomutakmarkanna, góðir gestir komu frá sendiskrifstofu Færeyja og frá Rúnavik í Færeyjum, Sendiherrar Bandaríkjanna og Danmerkur komu í heimsóknir og fengu kynningar á helstu verkefnum á starfssvæði SSNE. Í slíkum heimsóknum eru það oftast umhverfismálin sem vekja mikla athygli.

Forseti Íslands, Herra Guðni Th. Jóhannesson kom í opinbera heimsókn til Akureyrar í ágúst en SSNE skipulagði sérstaka kynningu fyrir forsetann í húsnæði Slippsins þar sem fjölmörg verkefni og fyrirtæki kynntu starfsemi sína.

 

 

BYGGÐAÞRÓUN

Stuðla að jákvæðri byggðaþróun og standa vörð um hagsmuni jaðarbyggða

Með því að stuðla að jákvæðri byggðaþróun er sérstaklega verið að styðja við verkefni innan byggðaáætlunar, sóknaráætlunar og verkefni innan Brothættra byggða þar sem markvisst er unnið að því að stuðla að öflugu atvinnulífi og að gera landshlutann að samkeppnishæfum valkosti, bæði til atvinnu og búsetu.  

Betri Bakkafjörður

Í upphafi árs fór fram úthlutun styrkja úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar fyrir árið 2023. Alls bárust 24 umsóknir að heildarupphæð 49 m.kr. en sjóðurinn hafði til ráðstöfunar 8 m.kr. sem úthlutað var til 13 verkefna. Sjá nánar hér. Auk þeirra verkefna hafa Bakkfirðingar og sveitarfélagið Langanesbyggð sótt um styrki til ýmissa uppbyggingarverkefna í aðra sjóði. Þar má nefna Fiskvinnslufyrirtækið Bjargið ehf. sem hlaut, ásamt samstarfsaðilum sínum, styrk upp á tæpar 19 m.kr. úr Matvælasjóði fyrir verkefnið Hrognkelsafengur - Hnossgæti úr sjó. Verslun á Bakkafirði fékk styrk að upphæð 2 m.kr. á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar. Þá hlaut Langanesbyggð 6 m.kr. styrk úr Orkusjóði til innviðauppbyggingar fyrir vistvæn ökutæki, m.a. til að koma upp hleðslustöðvum á Bakkafirði. Að endingu hlutu tvö verkefni Bakkfirðinga styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra að þessu sinni.

Venju samkvæmt var haldinn íbúafundur í tengslum við verkefnið Betri Bakkafjörð þar sem íbúar og velunnarar samfélagsins við Bakkaflóa fjölmenntu. Þar fór verkefnisstjóri, Gunnar Már Gunnarsson, yfir það helsta í verkefnum sem unnið hefur verið að frá síðasta íbúafundi fyrir um ári síðan. Þar var jafnframt tilkynnt að stjórn Byggðastofnunar hefði samþykkt að framlengja verkefnið Betri Bakkafjörður um eitt ár, þ.e. til ársloka 2024.

Auk hefðbundinna starfa tók verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar þátt í ýmsum verkefnum til styrkingar byggðar í Bakkaflóa. Má þar nefna vinnu í tengslum við að koma á samstarfi um stofnun starfsstöðvar í náttúrurannsóknum á Bakkafirði. Framlag til verkefnisins kom úr stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036, aðgerð C.9 – Náttúruvernd til eflingar byggðaþróunar. Samstarfshópur var stofnaður til að móta sameiginlega sýn á markmið og framtíðarskipulag mögulegrar starfsstöðvar í náttúrurannsóknum við Bakkafjörð. Í hópnum voru fulltrúar Langanesbyggðar, Náttúrustofu Norðausturlands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Þá var haldið málþing um eflingu byggðar á Norðausturhorninu og tengdist það þessu verkefni, sjá nánar hér neðar. Í kjölfar málþingsins skipaði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, starfshóp sem var falið það hlutverk að vinna tillögur til ráðherra um framgang mála á Langanesi, sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins. Verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar studdi þá vinnu og var starfshópnum innan handar um þau málefni sem heyra undir hans ábyrgðarsvið. Þá tók verkefnisstjóri þátt í samstarfi nokkurra aðila sem tengjast sjávarútvegi og leiddi til fyrrnefndrar umsóknar í Matvælasjóð. Að endingu kom verkefnisstjóri að fundi með þingmönnum kjördæmisins, en tilefnið var staða strandveiða á Bakkafirði.

Í loks árs lét Gunnar Már af störfum sem verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar og var staðan því auglýst um veturinn. Gengið var frá ráðningu nýs verkefnisstjóra, Romi Schmitz sem búsett er á Þórshöfn. Starfsstöð Romi verður á Bakkafirði og í Kistunni, Þórshöfn, og mun hún taka til starfa í byrjun árs 2024.

Glæðum Grímsey

Lokafundur í byggðaþróunarverkefninu Glæðum Grímsey var haldinn 14. febrúar 2023 með íbúum eyjarinnar. Þar með var komið að þeim tímamótum að Byggðastofnun dró sig formlega í hlé úr verkefninu.

Á fundinum var farið yfir það sem hefur áunnist frá því verkefnið hófst árið 2015 og er lokaskýrsla um það í smíðum um þessar mundir. Fram kom að bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að María Helena Tryggvadóttir verkefnastjóri ferðamála hjá Akureyrarbæ verði tengiliður Grímseyinga við stjórnsýsluna vegna málefna sem þá varða og Anna Lind Björnsdóttir verður tengiliður frá Samtökum sveitarfélaga & atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Þær munu aðstoða íbúa við að fylgja framfaraverkefnum eftir.

Forsenda byggðar í eynni

Fólki var skipt upp í umræðuhópa á fundinum til að fjalla um viðhorf íbúa til verkefnisins; hvað hefði gengið vel, hvað hefði mátt betur fara og ekki síst hvernig íbúar sjá sjálfir fyrir sér að fylgja uppbyggingu í Grímsey eftir. Skýrt kom fram í niðurstöðum umræðuhópanna að brýnustu mál eyjarskeggja eru aðgangur að sértæku aflamarki og byggðakvóta og að innviðir verði treystir. Þar eru samgöngur og grunnatvinnuvegurinn sjávarútvegur brýnustu málefnin og jafnframt forsenda byggðar í eynni.

Undirbúningur verkefnisins Glæðum Grímsey hófst á árinu 2015 og var íbúaþing haldið í apríl 2016. Verkefnið hefur verið framlengt tvisvar sinnum. Með sanni má segja að Grímseyingar hafi tekið höndum saman á verkefnistímanum og unnið að mörgum framfaramálum í eynni. Í upphafi verkefnis, á íbúaþingi, var sett fram verkefnisáætlun, ásamt framtíðarsýn sem hefur verið leiðarljósið á framkvæmdatímanum.

55 milljónir til 48 verkefna

Mörg frumkvæðisverkefni hafa verið styrkt á tímabilinu úr Frumkvæðissjóði Glæðum Grímsey. Samtals var um 55 milljónum veitt til 48 verkefna. Auk þeirra verkefna hafa verkefnisstjórar aðstoðað eyjarskeggja við að sækja um styrki til ýmissa uppbyggingarverkefna í aðra sjóði.

Í júní 2023 fóru Anna Lind og Díana verkefnastjórar SSNE í heimsókn til Grímseyjar. Sólin skein og veðrið lék við eyjaskeggja og ferðamenn. Anna Lind og Díana fengu vinnuaðstöðu í Múla þar sem Kvenfélagið Baugur hefur sett upp glæsilega vinnuaðstöðu. Boðið var þar upp á viðtalstíma og áttu verkefnastjórar gott spjall við íbúa um verkefni og tækifæri í eynni.

 

Málþing um eflingu byggðar á Norðausturhorninu

SSNE stóð fyrir málþingi í Þórsveri (Þórshöfn) mánudaginn 3. apríl, í samstarfi við Austurbrú. Yfirskrift þess var Efling byggðar á Norðausturhorninu og var það þrískipt eftir málefnum: Norðausturhornið og hringrás ferðamanna um Austur- og Norðurland; Orkumál og atvinnuþróun; og Hagræn tengsl náttúruverndar og byggðaþróunar. Fundurinn var mjög vel sóttur og ríflega 60 manns mættu til að ræða þessi mikilvægu málefni, auk þeirra sem fylgdust með í streymi. Undir hverju málefni voru flutt 4-5 stutt erindi en í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður og spurningar úr sal bornar upp. Meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum voru fulltrúar atvinnulífsins, aðilar úr orkugeiranum, sérfræðingar á sviði náttúrurannsókna og náttúruverndar, ferðaþjónustuaðilar og þingmenn kjördæmisins.

Málþing Byggðastofnunar um Brothættar byggðir

Málþing um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir var haldið á Raufarhöfn fimmtudaginn 5. október. Verkefnið hófst á Raufarhöfn og því viðeigandi að málþingið skyldi haldið þar. Á málþinginu voru kynntar niðurstöður úr áhrifamati á verkefninu. Starfsmaður SSNE á Raufarhöfn, Nanna Steina Höskuldsdóttir, kom að skipulagningu og setti málþingið. Þá tók verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar þátt í dagskránni og sagði frá sinni reynslu. Fjölmenni var á málþinginu, um áttatíu manns, auk þess sem um 2700 horfðu á streymi frá þinginu á netinu. Á síðu Byggðastofnunar má nálgast erindi frá málþinginu svo og dagskrá og upplýsingarit um málþingið.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2022-2036

 Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra úthlutaði styrkjum í febrúar að upphæð 130 milljónum króna til 12 verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum (C.1). Alls bárust 32 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 857 m.kr. fyrir árið 2023.

Eftirfarandi verkefni fengu styrk á Norðurlandi eystra:

Kostir í hitaveituvæðingu Grímseyjar. Fyrirhugað er að staðsetja vinnsluholu og endurmeta fyrri gögn. Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) hljóta styrk að upphæð 4.300.000 kr.

Gígur – uppbygging á aðstöðu fyrir nýsköpun, menntun og rannsóknir í Þingeyjarsveit. Verkefnið hefur það markmið að styrkja annars vegar samfélag og byggð og hins vegar að veravettvangur fyrir aðila þekkingarsetursins til að efla starf sitt og starfsumhverfi. Það er jafnframt áframhald þeirrar vinnu sem hefur átt sérstað á svæðinu í tengslum við sameiningu Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, m.a. með verkefninu Nýsköpun í norðri (NÍN). Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra hljóta styrk að upphæð 2.250.000 kr.

Straumhvörf – ný hringrás gesta um Austur- og Norðurland. Um er að ræða samstarf SSA, SSNV, SSNE, áfangastofa Norður- og Austurlands, Austurbrúar og Markaðsstofu Norðurlands um framkvæmd hönnunar- og vörusmiðju nýrrar hringrásar ferðamanna um Austur- og Norðurland í tengslum við beint millilandaflug á Egilsstaði og Akureyri. Samband sveitarfélaga á Austurlandi hljóta styrk að upphæð 15.650.000 kr.

Verslun í dreifbýli (A.9.), verkefnastyrkir til verslana í dreifbýli voru veittir á grundvelli stefnumótandi byggaáætlunar. Þrír styrkir komu á Norðurland eystra:

  • Kríuveitingar, verslun í Grímsey 2,5 milljónir kr.
  • Verslunar- og pöntunarþjónustu á Bakkafirði 2 milljónir kr.
  • Hriseyjarbúðin 2 milljónir kr.

 

Bæta samgöngur innan landshlutans sem og til landshlutans

Unnið hefur verið markvisst að því að auka millilandaflug um Akureyrarflugvöll ásamt því að festa í sessi núverandi flug. Flugfélagið EasyJet tilkynnti í vor að þeir hygðust fljúga tvisvar í viku til Akureyrar frá enda október og út mars 2024, og hafa nú þegar staðfest að slíkt flug verður einnig í boði veturinn 2024ö2025. Þá bætist easyJet flugið við sumarflug frá Edelweiss sem flýgur frá Zurich, Voigt Travel sem flýgur frá Rotterdam og Amsterdam og Kontiki sem flýgur frá Zurich. Þá hóf Icelandair flug milli Akureyrar og Keflavíkur sem hægt er að nota ef flogið er áfram með Icelandair út í heim.

Samgöngu- og innviðastefna Norðurlands eystra var samþykkt á haustþingi SSNE 6. október en hún hefur verið í undirbúningi síðastliðin 2 ár. Starfshópur með fulltrúm allra sveitarfélaga hafa unnið af henni með stuðningi frá RHA sem sá um upplýsingaöflun og vinnslu. Stefnuna má nálgast hér. Stefnan markar mikilvæg tímamót þar sem landshlutinn hefur komið sér saman um forgangsröðun uppbyggingar í samgöngu- og innviðamálum í landshlutanum.

Tilraunaverkefnið samlegð farþega- og póstflutninga á Norðausturlandi hafði það að markmiði að skoða hvort mögulegt væri að samþætta almenningssamgöngur með póstflutningum eða pakkaflutningum. Átti að finna hagkvæmar lausnir sem íbúar og ferðamenn geti nýtt sér og til verði leiðarvísir fyrir önnur köld svæði. Niðurstöður verkefnisins leiddu því miður ekki í ljós neinar aðferðir sem hægt var að ráðast í án þess að fleiri komi að. Það þarf talsvert fjármagn til að prófa þær aðferðir sem eru nýttar á öðrum norðurlöndum. Í samtali við einkafyrirtæki kemur fram vilji en þau voru ekki til í að fara í tilraunaverkefni án þess að til kæmi einhverskonar stuðningur frá hinu opinbera.

Vinnu við Blöndulínu 3, milli Varmahlíðar og Rangárvalla miðar áfram. Staðan á verkefninu er að umhverfismatinu er lokið og álit Skipulagsstofnunar liggur fyrir. Landsnet hefur verið í samtölum við landeigendur og sveitarstjórnir á línuleiðinni varðandi skipulagsmálin. 

Svæðisborgin Akureyri

Á árinu starfaði starfshópur um mótun Borgarstefnu á grundvelli aðgerðar C.4 Borgarstefna í Byggðaáætlun 2022-2036 , en hópurinn var skipaður af innviðaráðherra í október 2022. Í hópnum situr Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri fyrir hönd SSNE.

Vinna hópsins er í samræmi við Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2020-2024 sem unnin var á árinu 2019, en þar er skilgreining Akureyrar sem borgarsvæðis ein af innviðaaðgerðum áætlunarinnar. Í framhaldinu skilgreindi stjórn SSNE það sem eitt af áhersluverkefnum ársins 2020 að móta borgarstefnu fyrir Akureyri og skilgreina svæðisbundið hlutverk hennar. Var Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri fengin til að vinna verkefnið en ákveðið var að sameina það vinnu starfshóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem skipaður var síðar sama ár. Starfshópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem skipaður var í október 2020, var falið það verkefni að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. Afrakstur vinnu starfshópsins birtist í skýrslunni Svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem hópurinn afhenti ráðherra í september 2021. Aðaltillaga starfshópsins var að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, yrði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.

Núverandi starfshópur um mótun Borgarstefnu fundaði reglulega á árinu, bæði á Teams og í Reykjavík og á Akureyri og mun skila af sér tillögu að borgarstefnu til ráðherra vorið 2024. 

Mennamál

SSNE hefur átt í góðu samstarfi við SAMNOR (samstarfsvettvangur framhaldsskólanna á Norðurlandi eystra). Fundað hefur verið reglulega og á árinu fór í birtingu verkefni sem unnið hafði verið að í langan tíma. Markaðs- og kynningarsókn framhaldsskólanna var verkefni sem SSNE og SAMNOR þróuðu saman og fólst í að kynna alla framhaldsskólana sameiginlega með það að markmiði að auka aðsókn þeirra allra með nemendum utan af svæðinu. Efnið er hægt að nálgast hér.

SSNE tók einnig þátt í að móta málþing með VMA um hlutverk VMA í breyttri heimsmynd og mikilvægi skólans í nærsamfélaginu í mars. Með málþinginu vildi VMA leggja sitt af mörkum við að efla umræðu um menntun til framtíðar í nærsamfélagi skólans. Málþingið heppnaðist mjög vel og var vel sótt.

SSNE tók þátt í að afla fjármuna ásamt fyrirtækjum og stofnunum á Akureyri til að koma á fót Tæknifræðinámi við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Einnig hlutu skólarnir styrk úr samstarfssjóði háskóla. Námið hóst í september 2023.

ATVINNURÁÐGJÖF OG NÝSKÖPUN

SSNE starfar samkvæmt samningi við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun. Markmið samningsins er m.a. að skapa grundvöll samstarfs um byggðaþróun í samræmi við stefnu Alþingis í byggðamálum, með áherslu á búsetuskilyrði og samkeppnishæfni, nýsköpun- og atvinnuþróunarsamstarf. SSNE gerir m.a. úttekt á möguleikum atvinnulífs á svæðinu og hvernig megi nýta þá sem best.

Samtökin leita samstarfs við stofnanir í stoðkerfi atvinnulífsins, fyrirtæki og aðra aðila sem vinna ráðgjafar- og leiðbeiningarstarf í atvinnumálum. Félagið miðlar fengnum upplýsingum um starfsemi þessara aðila og vinnur að bættum samskiptum þeirra við atvinnulíf á starfssvæðinu. Samtökin taka þátt í námskeiðahaldi varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja, fjármögnun viðskiptahugmynda o.þ.h. í samstarfi við Byggðastofnun og aðrar stofnanir í stoðkerfi atvinnulífs og byggðaþróunar.

Með því að stuðla að samstarfi aðildarsveitarfélaga er ekki aðeins verið að styrkja landshlutann og efla samstöðu, heldur einnig verið að skjóta styrkari stoðum undir atvinnu- og byggðaþróun. Markmiðið styður einnig hlutverk SSNE í að „vinna að málum sem eru aðildarsveitarfélögunum sameiginleg innan starfssvæðisins.“

Atvinnuráðgjöf er stór hluti af starfi samtakanna enda hluti af samningi við Byggðastofnun. Í september stóð Byggðastofnun fyrir vinnustofu á Sauðárkróki með fulltrúum atvinnuráðgjafa landshlutasamtakanna. Markmið vinnustofunnar var fyrst og fremst að efla tengsl milli atvinnuráðgjafa og lánasérfræðinga Byggðastofnunnar og þannig stuðla að bættri þjónustu og ráðgjöf.

Í byrjun árs funduðu starfsmenn SSNE með öllum sveitarstjórnum þar sem þjónusta atvinnuráðgjafa var meðal annars kynnt. Einnig hefur verið auglýst viðvera og íbúum boðið í kaffispjall víðsvegar um starfssvæðið á árinu. Slíkar viðverur hafa mælst vel fyrir og verður framhald á þeim. Þá fóru ráðgjafar meðal annars í Hrísey þar sem 2. október var heitt á könnunni í Hlein og voru ráðgjafar SSNE meðal annars að veita ráðgjöf um Uppbyggingarsjóð, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem og aðra sjóði. 

Atvinnuráðgjöf

Atvinnuráðgjöf er viðamikill hluti af starfsemi SSNE og nær samningur Byggðastofnunar yfir þann hluta. Ráðgjöfin nær til einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga og tengist oft verkefnum sem sækja um í Sóknaráætlun og aðra sjóði. Mætti þar sérstaklega nefna sjóði RANNÍS, Barnamenningar, Lóu og Matvælasjóð. Áherslan er á að veita almenna atvinnuráðgjöf og stuðla að nýsköpun og stofnun fyrirtækja og standa fyrir fræðslu.

SSNE hefur lagt áherslu á að kynna þessa þjónustu sína og vekja athygli á henni bæði í kynningum og á sínum miðlum. Þá var í ár tekið upp virkt samtal milli atvinnuráðgjafa landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar á reglulegum fundum sem Byggðastofnun heldur utan um. Fundirnir eru gott tækifæri til að deila upplýsingum og kynna verkefni sem gengið hafa vel og gætu nýst öðrum landshlutum. 

Ráðgjöf í tengslum við Vetraríþróttamiðstöð Íslands

SSNE tók að sér á árinu verkefnastjórnun um eflingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands fyrir tilstilli stjórnar VMÍ. Verkefnið fólst í að skilgreina hvernig áframhaldandi starf VMÍ gæti verið og var þar sérstaklega horft til þess að útvíkka verkefnið bæði með því að taka til fleiri vetraríþrótta sem og aðkomu fleiri sveitarfélaga.

Fyrirtækjaheimsóknir hafa alltaf verið fastur liður í starfsemi SSNE. Heimsóknirnar eru vel nýttar í kynningar á SSNE og starfsfólk SSNE kynnist starfsemi fyrirtækjanna. Þar gefst einnig kostur til að ræða hvar helstu hindranir liggja og hvar eru sóknartækifæri innan landshlutans og viðkomandi atvinnugreinar. 

Ráðgjöf varðandi viðburðarhald í Eyjafjarðarsveit

Eitt af verkefnum sem SSNE tók að sér á síðasta ári var að koma að endurskipulagningu á Handverkshátíðinni sem haldin hefur verið um langt skeið í Eyjafjarðarsveit. Þann 12. apríl var haldinn opinn íbúafundur um viðburðarhald þar sem þegar hafði verið tekin ákvörðun um að halda ekki Handverkhátíðina í óbreyttri mynd. Fyrir fundinn var aðildarfélögum boðið að taka þátt í netkönnun og voru niðurstöður hennar kynntar á íbúafundinum. Á fundinum var teiknaður upp grunnur að áframhaldandi viðburðarhaldi í Eyjafjarðarsveit með breiðari aðkomu hagsmunaaðila. 

 

Auka fjármagn inn á svæðið í gegnum styrktarsjóði

Unnið hefur verið markvisst að því á árinu að auka sýnileika sjóða, halda vinnustofur og veita ráðgjöf í þeim tilgangi að auka það fjármagn sem kemur inn á Norðurland eystra í gegnum styrktarsjóði á landsvísu, var þar horft jafnt til innlendra og erlendra sjóða.

Í þeim tilgangi að auka styrktarfjármagn inn á svæðið var farið í ákveðin verkefni, þar sem SSNE býður uppá sérhæfða ráðgjöf í gegnum sjóðinn Framþróun. Þar gefst einstaklingum kostur á að sækja sér ráðgjöf eða námskeið í umsóknarskrifum. Sótt er um á heimasíðu SSNE. Þá var unnið markvisst með Rannís að því að auka sýnileika þeirra á svæðinu og var meðal annars boðið upp á “Opna línu” til sérfræðinga Tækniþróunarsjóðs, var það gert í gegnum Teams og gátu frumkvöðlar á svæðinu komin inn og fengið ráðgjöf beint frá starfsfólki Rannís. Jafnframt var unnið að opnum fundi með Rannís þar sem kynntir verða sjóðir Rannís og er ráðgert að halda þann fund í janúar 2024.

SSNE reynir einnig að fylgjast með úthlutunum sjóða og dreifingu opinberra fjármuna í gegnum sjóði, þó eru misbrestir á því hvort styrkúthlutanir séu greindar niður á landshluta og þessar upplýsingar mjög mis aðgengilegar.

Þá hefur gengi umsókna frá landshlutanum verið mjög misjafnt milli sjóða og fékk Norðurland eystra þannig t.d. átta styrki úr Lóunni og komu 225 milljónir í orkuskiptaverkefni á Norðurlandi eystra úr LIFE styrkjaáætlun Evrópusambandsins, en það verkefni er leitt af Eimi. Almennt hafa fáir styrkir komið á landssvæðið úr Tækniþróunarsjóði og var því unnið sérstaklega að því á árinu, ásamt starfsfólki sjóðsins, að auka sýnileika og ráðgjöf í tengslum við hann.

Auka fjárfestingar á Norðurlandi eystra

Mikið hefur verið unnið í tengslum við auknar fjárfestingar á svæðin í gegnum ýmist samstarf, sem og samstarfsverkefni, og má þar meðal annars nefna aukið samstarf við Íslandsstofu, sem og með EIMI, SSNV og umhverfis- orku og loftslagsráðuneytinu í gegnum Norðanáttina og Fjárfestahátíð á Siglufirði.

Í samstarfi við Íslandsstofu hefur nú verið unninn grunnur að sameiginlegri fjárfestingarheimasíðu www.invest-in-iceland.is þar sem fyrirhugað er að safna saman upplýsingum um fjárfestingartækifæri.

Árið 2023 hófst sérstakt áhersluverkefni sem fjármagnað er úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem felst í að vinna með hverju sveitarfélagi fyrir sig og greina þau fjárfestingartækifæri sem eru innan sveitarfélagsins. Fjögur sveitarfélög hafa nú þegar hafið þátttöku í verkefninu og verður unnið áfram með þeim og öðrum sveitarfélögum sem eftir því óska á næsta ári. 

Efla og styðja við nýköpun og frumkvöðlastarf á svæðinu

Á árinu tók SSNE þátt í Evrópuverkefninu Tourbit ásamt Íslenska ferðaklasanum og hinum landshlutasamtökunum. Verkefnið snýst um stafræna vegferð lítilla og meðalstórra ferðaþjónustufyrirtækja og stuðning við það ferli. Ferðaþjónustufyrirtæki af öllu landinu tóku þátt í verkefninu sem var leitt af ferðaklasanum. 

Norðanátt

Norðanátt er samstarfsverkefni að verkefninu koma auk SSNE, EIMUR, og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu.

Fjárfestahátíð Norðanáttar Siglufirði

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin á Siglufirði 23.mars 2023. Annað árið í röð komu allir helstu fjárfestar landsins saman á Siglufirði til fundar við frumkvöðla í auðlinda- orku- og umhverfismálum.

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin í fyrsta skipti árið 2022 en þá var áherslan eingöngu á sprotaverkefni á Norðurlandi. Vegna þess hversu vel tókst til fyrir ári var ákveðið að stækka hátíðina verulega í ár og höfða til frumkvöðla hvaðan æva að landinu.

Ef til vill er það til marks um gróskuna í grænni nýsköpun um allt land að viðbrögð fjárfesta og frumkvöðla voru slík að mun færri komust að en vildu. Uppselt var á hátíðina en um 150 gestir sóttu hátíðina að þessu sinni.

Yfir 30 verkefni sóttu um að vera á hátíðinni og var sérstök valnefnd fengin til að velja þau verkefni sem fengu að kynna fyrir forsvarfólk fjárfestingasjóða og sjálfstæðum fjárfestum. Í framhaldi fjárfestakynninga fór fram stefnumót frumkvöðla og fjárfesta og annarra lykilaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Það var samdóma álit gesta og þátttakenda að svona vettvangur sé afar mikilvægur fyrir verkefni í leit að fjárfestingum þar sem þarna gefst gott tækifæri til þess að mynda tengingar og eiga fyrsta skrefið í átt að framtíðar samvinnu.

Teymin sem kynntu á hátíðinni voru Yggdrasill Carbon, Melta, Frostþurrkun, Skógarplöntur, GeoSilica, E1, Gull úr Grasi, Kaja Organic, Fiskeldið Haukamýri, Biopol, Gefn, IceWind og Vínland Vineyard voru þau verkefni sem komust að í ár, auk þess sem Bambahús voru með í stefnumóti við fjárfesta.

Viðskiptahraðallinn Startup Stormir

Viðskiptahraðallinn Startup Stormur var haldinn í þriðja sinn. Viðskiptahraðalinn er fyrir frumkvöðla sem vinna að grænum verkefnum á Norðurlandi. Startup Stormur hófst 4. október 2023 og stóð í sjö vikur. Þátttakendur fengu fræðslu, sátu vinnustofur og mynduðu tengingar við reynslumikla aðila úr atvinnulífinu, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á svokölluðum mentorafundum og sköpuðu sterkt tengslanet sín á milli. Startup Stormur er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi.

Startup Stormur fór að mestu leyti fram á netinu, en teymin hittust jafnframt þrisvar sinnum meðan á hraðlinum stóð á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi.

Lokaviðburður var haldinn með pompi og prakt fimmtudaginn 16. nóvember 2023 á Flugsafni Íslands. Nýsköpunarteymin stigu á stokk og kynntu verkefni sín fyrir fullum sal boðsgesta en um 80 manns sóttu viðburðinn og hlýddu á þeirra kraftmiklu kynningar.

Hádegisfræðsla

SSNE, SSNV og Eimur stóðu fyrir vikulegum fræðsluerindum fyrir frumkvöðla og öll þau sem eru forvitin um nýsköpunarheiminn eins og styrkþega Uppbyggingarsjóðs. Erindin voru haldin á Teams í hádeginu á þriðjudögum kl. 12 frá 24. janúar til 7. mars. Fræðslan var mjög vel sótt og góðar umræður sköpuðust í kjölfar erindanna. Erindin voru mjög fjölbreytt, sem dæmi um erindi má nefna; Hvernig eigi að rata í frumkvöðlaumhverfinu, Viðskiptaáætlun á mannamáli, Kraftur skapandi hugsunar, Stafræn markaðssetning og Erindi um framsögn og tjáningu.

Undirbúningur hefur farið fram á kortlagningu á þekkingasetrum, klasasetrum og öðru stuðningsumhverfi nýsköpunar á svæðinu. Í flestum sveitarfélögum er komin upp aðstaða fyrir einyrkja, stofnanir eða fyrirtæki til að leigja aðstöðu í samfélagi við aðra. Þessu hefur öllu verið komið á framfæri á heimasíðu SSNE.

MENNING

Á Norðurlandi eystra eru náttúruöflin sterk, landslag svipmikið og kröftugt fólk sem lætur norðanáttina veita sér byr í segl. Með samheldni og samhentu átaki kemur mannauðurinn hlutunum til leiðar. Menningarlegar hefðir eru margar og samfélagsleg þátttaka gjarnan mikil og óneitanlega mikilvægur og stór þáttur lýðheilsu samfélaga, líkt og niðurstöður íbúakannana benda til.

Nýsköpun og atvinnuþróun innan menningar hefur fengið stærra svið undanfarin tvö ár, enda ljóst að hagræn áhrif geta verið umtalsverð og því mikilvægt að hlúa að sprotum sköpunar og fóstra þá innan samfélagsins. Á árinu 2023 var tekið stórt skref í hagsmunagæslu og upprennandi lista- og tæknifólki veitt tækifæri til að spreyta sig og fá innsýn í starfsmöguleika innan menningar. Svo ekki sé talað um tækifæri þeirra fullorðnu á naflaskoðun og að hlýða á ávarp samtímans í beinni. Verkefnin Upptaktur og Fiðringur fengu styrkvilyrði sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra til þriggja ára, en fram að því hefur verkefnum verið úthlutað fjármunum aðeins til eins árs í einu. Þessi breyting gerir verkefnastjórum kleift að nýta betur fjármuni og skipuleggja fram í tímann, sem gerir samstarf við skóla- og frístundastarf eðlilegra og veitir markvissari farveg, nemendum í hag. Fókusinn fer allur í starf með börnunum, í stað þess að vinna stöðugt að fjármögnun. Kennarar geta þannig með öryggi gert ráð fyrir verkefnunum í starfsáætlunum sínum.

Fiðringur er hæfileikakeppni ungmenna á Norðurlandi eystra sem hefur það að markmiði að stuðla að listsköpun ungmenna og hvetja þau til að semja, æfa og flytja sína eigin frumsköpun. Verkin þeirra byggjast á þeim viðfangsefnum sem eru þeim hugleikinn. Með Fiðringi er skapaður vettvangur fyrir ungmenni af öllu svæðinu til að halda uppskeruhátíð, kynnast og mynda tengsl og síðast, en ekki síst að flytja verk sín á sviði með öllum leikhústöfrunum og starfa með fagmenntuðu lista- og tæknifólki.

Upptaktur, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna á Norðurlandi eystra veitir innsýn í störf tónlistarfólks frá A-Ö, stuðlar að tónsköpun ungs fólks og hvetur þau til frumsköpunar. Ungmennin fá aðstoð við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðjum með atvinnu tónlistarfólki og upplifa eigin tónlist í flutningi atvinnuhljóðfæraleikara. Þátttakendur eignast svo hágæða upptökur af eigin tónsmíðum í flutningi fagfólks. Þátttakendur og forráðamenn fá tækifæri til að hlusta á atvinnufólk flytja tónverkin og þurrka gleðitár af hvarmi.

 

Eyrarrósin

Þessir ungu menningarsprotar eiga sér svo sannarlega góðar fyrirmyndir á svæðinu. Listinn er langur, svo við nefnum einungis rósina í hnappagatinu, Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem hlaut viðurkenninguna Eyrarrósin 2023 sem framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Eyrarrósin beinir sjónum að og hvetur til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Hún var afhent í átjánda sinn miðvikudaginn 3. maí af frú Eliza Reid forsetafrú og verndara Eyrarrósarinnar, við hátíðlega athöfn á Hvammstanga. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.

,,Menningarstarfið í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sýnir svo ekki verður um villst, að með eldmóði, úthaldi og seiglu getur einstaklingar haft stórtæk áhrif á samfélag sitt. Í gegnum Alþýðuhúsið streymir ekki bara listafólk úr ýmsum áttum heldur flæða þar í gegn hugmyndir og ferskir vindar sem bæði hreyfa við og næra samfélagið. Gerist það ekki síst þegar heimafólk tekur virkan þátt í viðburðunum. Og allt gerist þetta vegna þess að atorkusöm listakona tók að sér hús."
- úr umsögn nefndar Eyrarrósarinnar

Auk sjálfrar Eyrarrósarinnar voru veitt þrenn hvatningarverðlaun og hlaut norðlenski hópurinn Hnoðri í Norðri ein þeirra fyrir sín störf. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar eru veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi. Mætti segja að tungubrjóturinn „Hnoðri úr norðri verður að veðri þó síðar verði.“ Eigi hér vel við. Eða hvað, veðursældina er nú þegar að finna hér Norðan heiða, því hópurinn skapaði blíðskapar veður í hugum og hjörtum 2000 barna síðustu aðventu þegar þau fóru um Norðurlandið og sýndu á 25 stöðum verkið sitt ,,Ævintýri á aðventunni“. Bæði þessi verkefni hafa hlotið styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra og gefur vísbendingar um það hversu mikilvægt stjórnvaldstæki Sóknaráætlun er hvað varðar uppbyggingu, hvatningu og framsækni til frumkvöðla landsbyggðanna.

Hagsmunagæsla og nýsköpun innan menningar og annarra skapandi greina

Samstarfsnet menningarfulltrúa landshlutasamtakanna tekur þátt í ýmsu sameiginlegu þróunarstarfi í landinu, t.d. í samstarfi við háskóla, ráðuneyti, Byggðastofnun, Íslandsstofu, Norræna félagið og öðrum stofnunum. Meðal markmiða samstarfsins er nýsköpun innan menningar, kortlagning á atvinnulífi menningar og skapandi greina, hagsmunagæsla og kynning á áhrifum menningar og skapandi greina á byggð og búsetu. Sem dæmi má hér nefna stuðning við stefnumótunarvinnu og stofnun Rannsóknarseturs í skapandi greinum og nýtt námskeið sem verður í boði á sumarönn 2024 við Háskólann á Bifröst í samstarfi við HA, HÍ, Hagstofu Íslands og Byggðastofnun og nefnist ,,Rannsóknir í menningu og skapandi greinum í landsbyggðum”. Jafnframt fylgdi hópurinn eftir samstarfi við nefndir og umsagnarhlutverk, t.d. hvað varðar eflingu barnamenningar, miðstöðvar barnamenningar og þróun barnamenningarsjóðs, nýja sviðslistastefnu og drög að aðgerðaráætlun um menningartengda ferðaþjónustu.

Menningartengd ferðaþjónusta

Eitt af markmiðum Sóknaráætlunar er að efla menningartengda ferðaþjónustu, sérstaklega utan háannatíma. Uppbyggingarsjóður er eitt af mikilvægum verkfærum SSNE til að örva atvinnugreinina og hvetja menningarfrumkvöðla. Því hljóta umsóknir aukastig sem leggja upp með að efla menningartengda ferðaþjónustu utan háanna tíma. Á árinu fór jafnframt af stað vöruþróunarverkefnið Straumhvörf sem snýr að ráðgjöf til ferðaþjónustuaðila hvað varðar vöruþróun.

Sem dæmi um nýtt menningarverkefni utan háanna tíma, sem hlaut framgang úr Uppbyggingarsjóði má nefna kvikmyndahátíðina Northern Lights - Fantastic Film Festival sem kallaði eftir ævintýralegum menningarsprotum á Norðurlandi eystra. Hátíðin var haldin á Akureyri dagana í kringum hrekkjavöku þar sem þemað voru sögur og sýn sem stendur utan ramma raunveruleikans. Álfar, tröll, draugar og aðrar furðuverur voru sérstalega boðnar velkomnar. Hátíðin sýndi um 48 stuttmyndir, en auk kvikmyndasýninga voru haldnir viðburðir fyrir kvikmyndagerðarfólk með það markmið að hvetja höfunda kvikmyndaverka til að sækja innblástur í íslenskan þjóðsagnaarf. Auk þess voru í boði ýmsir viðburðir fyrir unga sem aldna sem tengdust þema hátíðarinnar. Ævintýralegar myndlistasýningar, tónleikar, ljóðalestrar og vinnusmiðjur. Sem dæmi um annað slíkt menningarverkefni má nefna þróun viðburðar í Heimskautsgerðinu á Raufarhöfn þar sem fjölbreyttar greinar skapandi greina, eða tónlist, kvikmyndalist, sviðslistir, menningararfurinn og stærsta útilistaverk landsins, sem munu leggjast á eitt að vekja athygli á list og náttúru norðausturhornsins utan háanna tíma. 

Fjölmenningarráð SSNE

Fjölmenningarráð SSNE hefur ekki verið starfandi frá 2022 en í lok árs 2023 var tekin ákvörðun að setja það í forgang að endurskipa í ráðið og koma starfinu aftur í gang. 

Ungmennaþing SSNE

Ungmennaþing SSNE, dagana 21. - 22. nóvember stóð SSNE fyrir ungmennaþingi í félagsheimilinu á Raufarhöfn. Markmiðið þingsins er að búa til vettvang fyrir ungt fólk á aldrinum 13-18 ára þar sem það fær tækifæri til að ræða málefni sem brenna á þeim og koma skoðun sínum á framfæri í tengslum við þemað hverju sinni. Jafnframt er eitt af markmiðum þessa viðburðar að stuðla að tengslamyndun meðal unga fólksins þvert á sveitarfélögin og efla tengsl þeirra við SSNE. Hér má lesa um þingið og niðurstöður þess.

UMHVERFISMÁL

Umhverfismál eru ein af þremur stólpum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og voru fyrirferðarmikil í starfsemi SSNE árinu. Áhersla var lögð á að styðja við sveitarfélög við að uppfylla lögbundin hlutverk sín í loftslagsmálum, t.a.m. með fræðslu til starfsfólks sveitarfélaga um losunarbókhald og gerð loftslagsstefnu. Mikil áhersla var lögð á þekkingaruppbyggingu innan svæðisins og þess að auka á samstarf milli sveitarfélaga þegar kemur að því stóra, sameiginlega, verkefni sem umhverfis- og loftslagsmál eru.

Starfsfólk SSNE hefur sinnt ráðgefandi hlutverki í umhverfis- og loftslagsmálum á árinu, gagnvart sveitarfélögum svæðisins, frumkvöðlum og atvinnulífi og með setu í ýmsum nefndum og ráðum á vegum ríkisins. Kapp hefur verið lagt á að kynna landshlutann sem leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum, kynna möguleika til grænna innviðauppbyggingar og að efla samstarf við verkefni og stofnanir sem vinna að sömu markmiðum á landsvæðinu. Þannig styður starf SSNE við mörkum framtíðar- og heildarsýn svæðisins í umhverfismálum.

Hér á eftir má lesa um helstu verkefnin á sviði umhverfis- og loftslagsmála sem unnið hefur verið að á árinu.



 

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs

SSNE og SSNV leiddu vinnu við gerð svæðisáætlunar í úrgangsmálum á Norðurlandi og hófst sú vinna í upphafi árs 2022. Því verkefni lauk á árinu 2023 þegar öll sveitarfélög á Norðurlandi eystra- og vestra samþykktu áætlunina og hefur hún þar með tekið gildi.

SSNE og SSNV munu áfram leika hlutverk í svæðisáætlun úrgangsmála, enda er landshlutasamtökunum falið að annast vöktun og eftirfylgni með framkvæmd aðgerða.

Uppspretta - umhverfis- og loftslagsmál sveitarfélaga

Eitt af áhersluverkefnum SSNE 2022-2023 var spretthópavinna, þar sem leitað var til sérfræðinga á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þeir funduðu með starfsmanni SSNE til stuðnings stefnumótunar og aðgerða í málaflokknum innan sveitarfélaga svæðisins og upp úr því hafa sprottið verkefni og áherslur í málaflokknum á svæðinu. Meðal þeirra verkefna sem hefur verið hrint af stað í kjölfarið eru Græn skref SSNE, sem ramma inn beinar, viðráðanlegar, aðgerðir fyrir sveitarfélögin til innleiðingar og auknu samstarfi við LOFTUM fræðsluverkefni Þekkingarnets Þingeyinga og Símeyjar sem snýr að gerð fræðsluefnis um umhverfis- og loftslagsmál fyrir sveitarfélög svæðisins.

Grænu skrefin og LOFTUM hafa reynst góður rammi fyrir helstu þætti umhverfis- og loftslagsstarfs sveitarfélaganna, auk annarra samstarfsverkefna á borð við RECET. Um þessi verkefni er fjallað að neðan.

Græn skref SSNE

Öll aðildasveitarfélög SSNE eru skráðir þátttakendur í Græn skref SSNE og hafa þar með skuldbundið sig til að innleiða Græn skref í rekstur sveitarfélaganna. Verkefnið byggir á Grænum skrefum í ríkisrekstri, sem áralöng reynsla er komin á. Græn skref SSNE styðja við sveitarfélögin í innleiðingu lögbundinna skylda í loftslagsmálum, þar sem þau innifela gerð losunarbókhalds, gerð loftslagsstefnu en aðgerðir eru innleiddar samhliða stefnumótunarvinnunni. Þau sveitarfélög sem taka þátt fara þannig yfir innkaup sín með grænum gleraugum, draga úr úrgangsmagni, draga úr orkunotkun húsnæðis og hvetja til notkunar vistvænni samgöngumáta, svo dæmi séu tekin.

Starfsfólk SSNE heldur utan um verkefnið, fundar með tengiliðum verkefnis, stendur fyrir fræðslu, fer yfir gátlista og veitir viðurkenningar þegar skrefi er náð. Nokkur sveitarfélög hafa þegar fengið viðurkenningu fyrir að hafa lokið Grænu skrefi á árinu, en í heildina eru skrefin 5 og vinnan heldur því áfram á nýju ári.

Samhliða því að aðstoða sveitarfélög við innleiðingu Grænna skrefa í sínum rekstri hefur SSNE innleitt fyrsta græna skrefið innanhúss hjá sér á árinu, og tók auk þess upp samgöngusamninga við starfsfólk sitt til að hvetja til notkunar virkra ferðamáta til og frá vinnu.

LOFTUM

LOFTUM verkefnið snýr að gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk sveitarfélaga og kjörna fulltrúa, um umhverfis- og loftslagsmál. Búið er að gera greiningu á fræðsluþörf og út frá þeirri greiningu hefur verið unnin fræðsluáætlun sem byrjað er að vinna eftir. Haldin hafa verið námskeið á árinu, skipulögð af Þekkingarneti Þingeyinga og Símey með aðkomu starfsfólks SSNE, t.a.m. námskeið fyrir tengiliði sveitafélaganna við Grænu skrefin um breytingastjórnun, fræðslu fyrir kjörna fulltrúa um losunarbókhald Íslands og helstu sóknarfæri sveitarfélaga þar og fyrirlestrahald um skaðleg efni í umhverfi barna og hvernig draga megi úr þeim í leikskólum sveitafélaganna.

LOFTUM verkefnið er dæmi um verkefni þar sem SSNE styður við frábært starf sem unnið er á öðrum vettvangi og verður áfram unnið að á nýju ári.

RECET

Á árinu hófst vinna við verkefnið „Rural Europe for the Clean Energy Transition“ (RECET), Evrópuverkefni sem leitt er af Eimi og Íslenskri nýorku, í samstarfi við fjölda aðila - m.a. SSNE. Markmið verkefnisins er að efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í sátt við hagsmunaaðila og samstarfi við atvinnulíf.

RECET var hrundið af stað á árinu, SSNE er virkur samstarfsaðili í verkefninu og hafa starfsmenn tekið þátt í þeim ferðum og vinnu sem þegar er hafin.

Líforkuver á Dysnesi

Áfram var unnið að uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi í Eyjafirði, m.a. með kynnisferð fyrir hag- og fagaðila til Finnlands og Noregs þar sem sambærilegar vinnslur þeirri sem ráðgert er að rísi á Norðurlandi eystra voru skoðaðar. 14 manns fóru í ferðina sem skipulögð var af SSNE, m.a. fulltrúar ráðuneyta, eftirlitsstofnana, sveitarfélaga, bænda og landeigenda. Honkajoki/GMM í Finnlandi og Biosirk í Noregi tóku vel á móti hópnum, sem fékk að kynna sér króka og kima verksmiðjanna, umhverfi og ásýnd, söfnunarkerfi dýraleifa og hvernig kerfið blasir við bændum sem nýta sér það.

Í kjölfar ferðarinnar var haldinn kynningarfundur fyrir íbúa Hörgársveitar um líforkuver og þann lærdóm sem dreginn var í ferðinni, hann var vel sóttur. Ákveðið hefur verið að stofna einkahlutafélag um verkefnið, Líforkuver ehf. til að leiða verkefnið áfram. Auk stjórnarformanns sem er fulltrúi umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins eiga þar sæti fulltrúar Hörgársveitar, Akureyrarbæjar, afurðastöðva og SSNE. Þannig flutti verkefnið um líforkuver að heiman í lok ársins, og með því verkefnastjóri SSNE, Kristín Helga, sem mun fylgja því áfram á nýjum stað. 

 

Samstarf um umhverfismál

Á árinu var stofnaður samtalsvettvangur starfsfólks sveitarfélaga í umhverfismálum á starfssvæði SSNE. Hópurinn var settur saman til að hvetja til aukins samtal á milli sveitarfélaga og koma á fót vettvangi þar sem einstaklingar í sambærilegu verkefnum hefur tækifæri á að tala saman, miðla reynslu og sækja upplýsingar. Starfsfólk SSNE heldur utan um vettvanginn og stýrir fundum.

Starfsfólk SSNE á auk þess í virku samtali við fulltrúa umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins, fulltrúa Byggðastofnunar og starfsfólk annarra landshlutasamtaka, m.a. í gegnum samráðshóp sem Byggðastofnun heldur utan um. Verkefnastjóri SSNE hefur einnig setið í Loftlagsráði á árinu fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem og í stýrihóp um forverkefni á mati tveggja kosta um uppbyggingu hátæknibrennslu á Íslandi.

Stefna í umhverfismálum

Á árinu var hafin undirbúnings vinna við gerð heildstæðrar stefnu fyrir landshlutann í umhverfismálum. Hluti af þeirri vinnu er að meta losun samfélagsins á Norðurlandi eystra á gróðurhúsalofttegundum og hvar eru tæki færi til gera betur. Gert er ráð fyrir að niðurstöður munu liggja fyrir á öðrum ársfjórðungi 2024.

Sú vinna mun nýtast við loftlagsstefnugerð þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa sett sér töluleg markmið, hvort sem það verður gert sameiginlega eða í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

GREININGARVINNA

Öflun og greining grunnupplýsinga til bættrar ákvörðunartöku

Landshlutasamtök sveitarfélaga standa sameiginlega að íbúakönnun á Íslandi og hefur Vífill Karlsson, hagfræðingur hefur leitt þá vinnu í samstarfi við starfsmenn landshlutasamtaka. Könnunin tekur til þátta varðandi almenna velferð íbúa, ánægju þeirra og framtíðaráform, vinnumarkað og búsetuskilyrði. Könnunin er að jafnaði framkvæmd á þriggja ára fresti og var síðast framkvæmd 2020.

Undirbúningur hófst í ársbyrjun 2023 og fundað reglulega yfir árið. Farið var yfir spurningalista fyrri könnunar og tillögur að breytingum ræddar og reifaðar. Einnig var rætt um framkvæmdina, eftirfylgni og framsetningu á niðurstöðum könnunarinnar.

RHA sá um að safna netföngum í úrtak, en starfsmenn landshlutasamtakanna sáu um útsendingu tölvupósta. Könnunin fór af stað í lok október 2023 og var fylgt eftir með áminningarpóstum næstu vikur. Einnig var frétt birt á vefsíðu SSNE með opnu boði um þátttöku.

Í undirbúningsferlinu var nokkur áhersla á að ná betur til íbúa af erlendum uppruna og ýmsar leiðir reyndar til þess, en um áramót var raunin sú að svörun þessa hóps var lakari nú en árið 2020, og er því allra leiða leitað til að auka svörun þeirra.

Eftir að könnun lýkur tekur við úrvinnsla á niðurstöðum og ekki er fyrirséð um hvenær niðurstöður verða birtar. 

Lýðfræði landshlutans

Íbúar á starfsvæði SSNE voru 31.574 1. janúar 2024 og hafði fjölgað um 407 frá 1. janúar 2023, sem jafngildir 1,3% fjölgun. Til samanburðar var fjölgun á landsvísu 2,3%. Fjölgun var í öllum landshlutum, þó hlutfallslega mest á Suðurlandi og Suðurnesjum þar sem hún nam 4,1%.

Í landshlutanum varð hlutfallsleg fjölgun mest í Grýtubakkahreppi þar sem íbúum fjölgaði um 23 sem nemur 6,2% og í Þingeyjarsveit, þar sem íbúum fjölgaði um 65 sem nemur 4,8%. Þá fjölgaði íbúum í Svalbarðsstrandarhreppi um 16, eða 3,4% og í Hörgársveit um 25, eða 3,3%.

Í Akureyrarbæ fjölgaði íbúum um 253, eða 1,3%, og í Fjallabyggð um 25, einnig 1,3%. Í Norðurþingi fjölgaði íbúum um 18, eða 0,6%.

Í þremur sveitarfélögum fækkaði íbúum á milli ára. Í Tjörneshreppi fækkaði aðeins um 4 íbúa, en vegna fámennis er hlutfallsleg fækkun þar mest, eða -7,1%. Í Langanesbyggð fækkaði íbúum um 19, eða -3,4% og í Dalvíkurbyggð um 8, eða -0,4%.



 

FJÁRMÁL OG REKSTUR

Ársreikningur 2022

Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn á fundi þann 15. mars 2023 og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársþing samþykkti reikninginn á ársþingi SSNE 14.-15. apríl.

Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 2022 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur voru samtals tæplega 418 m.kr. en gjöld, að teknu tilliti til vaxta, námu rúmum 426 m.kr. Tap af rekstri samtakanna var því um 5 m.kr., en áætlun hafði gert ráð fyrir 2,5 m.kr. hagnaði.

Ársreikningur 2023

Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn á fundi þann 3. apríl 2024 og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársreikningurinn er síðan lagður fram á ársþingi 18. – 19. apríl til staðfestingar.

Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 2023 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur voru samtals 488,1 m.kr. en gjöld án fjármagnsliða námu 422,0 millj kr. Fjármunatekjur voru samtals 4,5 millj kr. og því var hagnaður á rekstri félagsins árið 2023 sem nam rúmum 70,5 milljónum króna sem er talsverð breyting frá fyrra ári þegar tapið nam réttum fimm milljónum króna. Ástæður þessa mikla hagnaðar eru að árin 2012 – 2019 hafði Eyþing umsjón með rekstri almenningssamgangns í landshlutanum fyrir hönd aðildarsveitarfélaganna. SSNE hefur átt í viðræðum við samgönguyfirvöld um fjárhagslegt uppgjör verkefnisins á undanförnum árlum. Á árinu 2023 fékk SSNE staðfestingu á því að Vegagerðin hefði fellt niður þær kröfur sem voru til staðar vegna verkefnissins og er tekjufærsla vegna þess 40,5 milljónir króna í uppgjörinu.

Lausafjárstaða SSNE var ágæt á árinu og var í árslok réttar 162,2 m.kr. (hækkun um 52 millj. kr. milli ára), en stærsti hluti lauss fjár eru úthlutaðir, ógreiddir styrkir fyrri ára. Eiginfjárstaða samtakanna var í árslok 2023 jákvæð um 52,2 m.kr. og hefur lagast um 70 m.kr. fyrst og fremst vegna niðurfellingar skuldar við Vegagerðina.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2023

Fyrstu drög að fjárhagsáætlun ársins 2023 voru lögð fram á ársþingi í apríl og er gert ráð fyrir óverulegum hagnaði af rekstri félagsins. Verkefnastjóri fjármála og rekstrar benti á að talsverð óvissa væri um þróun rekstrar á árinu 2023, einkum þar sem kjarasamningar yrðu lausir á árinu og verðbólga hefur aukist sem leiðir til kostnaðarhækkana á húsaleigu og öðrum föstum samningum sem bundnir eru breytingum á neysluvísitölu.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir 2023 var kynnt á aukaþingi SSNE í desember og var enn gert ráð fyrir óverulegum hagnaði, hins vegar var áætlunin ekki staðfest vegna áframhaldandi óvissu um kostnaðarþróun komandi árs. Stjórn og starfsfólki var falið að vinna áfram að fjárhagsáætluninni og leita allra leiða til að halda rekstri SSNE í jafnvægi.

Endanleg fjárhagsáætun fyrir árið 2023 og drög að áætlun ársins 2024 var kynnt og staðfest á fundi stjórnar SSNE þann 1. mars og kynnt á ársþingi samtakanna 14.-15. apríl.

Fjárhagsáætlun SSNE fyrir árin 2024 – 2027 er lögð fyrir ársþing í apríl 2024. Áætlunin gerir ráð fyrir afgangi á árinu 2023, en tap er áætlað árin 2025 – 2027. Ástæða fyrir ráðgerðu tapi er að fyrir árþingi 2024 er lagt til að framlög sveitarfélaganna til rekstrar SSNE lækki í ljósi þess að eftir niðurfellingu skuldar SSNE við Vegagerðina er laust fé samtakanna mjög gott og þykir stjórn rétt að sveitarfélögin njóti góðrar lausafárstöðu SSNE og er uppsöfnuð lækkun rekstrarframlaga áætluð um 30 milljónir fram til ársloka 2027.

Enn er þó nokkur óvissa um þróun verðbólgu næstu árin sem leiðir þess að nokkur þörf gæti verið til endurskoðunar fjárhagsáætlunar á seinni hluta árs 2024. Því munu fjármál samtakanna verða til umræðu á haustþingi.

ÁLYKTANIR, UMSAGNIR OG BÓKANIR STJÓRNAR

Eins og fram hefur komið hér að ofan voru gerðar nokkuð viðamiklar breytingar á samþykktum samtakanna á ársþingi SSNE í apríl. Helstu breytingarnar snéru að fjölda fulltrúa í stjórn, en auk þess árlegum þingum samtakanna fækkað úr þremur í tvö. Tillögurnar sem lagðar voru fyrir þingið má nálgast hér, en nýjasta útgáfa samþykkta SSNE er ávallt aðgengileg á heimasíðu samtakanna.

Mikilvægur þáttur í hagsmunagæslu SSNE felst í því að setja sjónarmið, viðbrögð og áskoranir fram með formlegum hætti. Á fundum stjórnar eru slík mál tekin til umræðu og stjórn bókar um málin. Framkvæmdastjóri kemur bókunum stjórnar á framfæri við viðeigandi aðila, stofnanir og ráðuneyti.

52. fundur, 3. maí 2023

Umsögn um frumvarp til laga um laga um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð, 941. mál var samþykkt á þessum fundi.

54. fundur, 6. september 2023

Á fundinum var eftirfarandi bókun staðfest vegna Húsavíkurflugs:

Eftirfarandi bókun var samþykkt í tölvupósti 26. ágúst síðastliðinn: Stjórn SSNE tekur undir bókun byggðaráðs Norðurþings frá 13. júlí síðastliðinn. Reglulegt áætlunarflug á Aðaldalsflugvöll er mikilvægt fyrir íbúa, atvinnulíf og frekari vöxt svæðisins. Flugið er jafnframt undirstaða þess að vel takist til í þeirri uppbyggingu sem framundan er til að mynda í landeldi, uppbyggingu Grænna iðngarða á Bakka og tvöföldun Þeistareykjavirkjunar. Stjórn SSNE hefur áður fjallað um mikilvægi þess að stutt verði við flug um Aðaldalsflugvöll og kom meðal annars inn á það í umsögn sinni um drög að Samgönguáætlun á Samráðsgátt stjórnvalda fyrr í sumar og ítrekar stjórnin þá afstöðu sína. Stjórn staðfestir bókunina.

55. fundur, 4. október 2023

Umsögn um frumvarp til laga um póstþjónustu (úrbætur á póstmarkaði), 181. mál.

Umsögn um frumvarp til laga um fjárlög 2024, 1. mál.

56. fundur, 1. nóvember 2023

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar á Akureyri, 327. mál.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, 315. mál.

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, 48. mál.

57. fundur, 29. nóvember 2023

Bókun vegna stöðu bænda:
Stjórn SSNE lýsir þungum áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar. Gríðarlegar kostnaðarhækkanir á aðföngum og íþyngjandi vaxtakostnaður hefur gert það að verkum að afkomubrestur er í flestum greinum landbúnaðar.

Landbúnaður er ein af undirstöðuatvinnugreinum landshlutans og skapa þarf landbúnaði öruggar rekstraraðstæður til framtíðar sem stuðlar að nýliðun í greininni til að matvælaframleiðsla eflist, þróist áfram og verði áfram ein af grunnstoðum fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Mikil sóknarfæri eru í íslenskri matvælaframleiðslu hvort sem litið er til garðyrkju, kornræktar eða hefðbundins búskapar. Þá skiptir innlend matvælaframleiðsla miklu máli þegar kemur að fæðuöryggi þjóðarinnar ásamt því að vera ein af grunnstoðum búsetu í dreifðum byggðum.

Stjórn SSNE hvetur stjórnvöld til að bregðast strax við þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í íslenskum landbúnaði og flýta vinnu starfshóps matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis vegna fjárhagsstöðu bænda og tryggja rekstarhæfi landbúnaðarins til lengri tíma.

Vegna þjónustu Póstsins:
Rætt um stöðu póstþjónustu í landshlutanum en bæði hefur dregið mjög úr þjónustu, auk þess sem nú á að hætta dreifingu fjölpósts. Stjórn SSNE vekur athygli á því að með þessari ákvörðun Póstsins, að hætta dreifingu fjölpósts, er Pósturinn í raun að bregðast lýðræðislegu hlutverki sínu. Með því að hætta dreifingu fjölpósts verður mun erfiðara að koma á framfæri mikilvægum upplýsingum um til að mynda kosningar, sem og öðrum upplýsingum frá sveitarfélagi og ríki til íbúa í dreifðari byggðum landsins.

Stjórn SSNE lýsir einnig áhyggjum af því að með áframhaldandi samdrætti í þjónustu muni íbúar landsins ekki sitja við sama borð þegar kemur að aðgengi að vörum og þjónustu í gegnum póstþjónustu. Stjórn SSNE hvetur því til heildarendurskoðunar á hlutverki Póstsins og framkvæmd póstþjónustu í landinu, með þarfir íbúa landsins alls í huga.

Umsögn um frumvarp til laga um Náttúrufræðistofnun, mál 479.

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl., 468. mál.