Fara í efni

Samþykktir

SAMÞYKKTIR FYRIR SSNE

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra

Heiti, aðild og varnarþing
1. gr.

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammastafað SSNE, eru landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og er rekiná grundvelli ákvæða 97. gr. laga nr. 138/2011 um sveitarfélög.

Rétt til aðildar að SSNE eiga sveitarfélög á starfssvæði landshlutasamtakanna, þ.e. á Norðurlandi eystra- frá Fjallabyggð að vestan að Langanesbyggð að austan, að báðum sveitarfélögum meðtöldum. Sveitarfélögin eru:

 • Akureyrarbær
 • Dalvíkurbyggð
 • Eyjafjarðarsveit
 • Fjallabyggð
 • Grýtubakkahreppur
 • Hörgársveit
 • Langanesbyggð
 • Norðurþing
 • Svalbarðsstrandarhreppur
 • Tjörneshreppur
 • Þingeyjarsveit

Verði breyting á sveitarfélagamörkum með sameiningu sveitarfélaga, halda hin sameinuðu sveitarfélög aðild að SSNE án sérstaks uppgjörs eða meðhöndlunar svo sem um úrsögn væri að ræða.

Lögheimili og varnarþing SSNE er á Húsavík.

Markmið og hlutverk
2. gr.

Markmið með starfsemi SSNE er að efla Norðurland eystra sem eftirsótt til búsetu og atvinnu. Stofnun SSNE byggir á:

 • faglegum ávinningi,
 • auknum slagkrafti,
 • skilvirkari vinnu og
 • auknum sóknarfærum til að auka fagþekkingu innan stoðstofnana á starfssvæði SSNE

SSNE skal vera sterkur bakhjarl aðildarsveitarfélaga í sameiginlegum málum þeirra og stuðla að góðu mannlífi, lifandi menningarlífi og öflugri atvinnustarfsemi á starfssvæðinu.

Hlutverk SSNE er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæði landshlutasamtakanna til að ná framangreindum markmiðum – með eftirfarandi hætti:

 • Innleiða og fylgja eftir sóknaráætlun og byggðaáætlun, þ.á.m. með úthlutun fjármuna og styrkja til einstakra verkefna, svo sem fyrir er mælt í lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlun
 • Gæta hagsmuna aðildarsveitarfélaganna utan starfssvæðisins
 • Vinna að málum sem eru aðildarsveitarfélögunum sameiginleg innan starfssvæðisins
 • Stuðla að öflugu atvinnusvæði til framtíðar með stuðningi við nýsköpun og atvinnuþróun, mótun svæðisskipulags og hagsmunagæslu þar að lútandi
 • Annast greiningar, þekkingaröflun og þekkingarmiðlun sem nýtast hlutverki SSNE

Þing
3. gr.

Þing SSNE fara með æðsta vald landshlutasamtakanna, innan marka laga og samþykkta þessara.

Þing eru skipuð fulltrúum aðildarsveitarfélaganna í samræmi við ákvæði 5. gr. og er þeim ætlað að tryggja lýðræðislega aðkomu allra aðildarsveitarfélaga að málefnum SSNE, vera vettvangur ákvarðanatöku um mikilsháttar málefni þeim og stjórn til leiðbeiningar í veigamiklum málum.

Réttur til setu, málfrelsi og tillöguréttur
4. gr.

Rétt til setu á þingum SSNE eiga allir einstaklingar og lögaðilar sem eiga lögheimili á starfssvæði landshlutasamtakanna.

Málfrelsi og tillögurétt á þingum eiga eftirtaldir aðilar:

 • Fulltrúar í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra
 • Fulltrúar fagráða SSNE
 • Fulltrúar í undirnefndum SSNE
 • Fulltrúar formlegra samtaka atvinnulífs sem starfa á svæðinu
 • Fulltrúar formlegra stéttarfélaga sem starfa á svæðinu
 • Fulltrúar menningar- og listastofnana sem starfa á svæðinu
 • Fulltrúar fræðastofnana á svæðinu
 • Fulltrúar formlegra samtaka á sviði umhverfismála á svæðinu
 • Fulltrúar opinberra stofnana
 • Framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga
 • Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga og varamenn þeirra
 • Alþingismenn Norðausturkjördæmis og varamenn þeirra

Þingfulltrúar
5. gr.

Þingfulltrúar hafa málfrelsi, tillögurétt og rétt til greiðslu atkvæða um löglega fram komnar tillögur á þingum.

Sveitarstjórnir skipa þingfulltrúa sína á þing SSNE samkvæmt eftirfarandi:

 • 1 fulltrúi fyrir sveitarfélag með 300 íbúa eða færri
 • 2 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 301 - 800 íbúa
 • 3 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 801 - 1500 íbúa
 • 4 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 1501 - 2500 íbúa
 • 5 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 2501 - 3500 íbúa
 • 6 fulltrúar fyrir sveitarfélag með 3501 – 5000 íbúa
 • síðan 1 fulltrúi til viðbótar fyrir hverja byrjaða 4000 íbúa

Jafnframt skulu jafn margir varaþingfulltrúar skipaðir samkvæmt framangreindu. Miða skal við íbúatölu sveitarfélags þann 1. janúar fyrir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar.

Kjörgengir eru kjörnir sveitarstjórnarmenn aðildarsveitarfélaga, varamenn þeirra og framkvæmdastjórar þeirra. Sveitarstjórnum er skylt að gæta að jöfnum hlut kynja við skipanina.

Skipunartími þingfulltrúa
6. gr.

Þingfulltrúar skulu skipaðir til fjögurra ára, í upphafi nýs kjörtímabils sveitarstjórna. Sveitarstjórnir skulu við fyrsta hentugleika tilkynna framkvæmdastjóra SSNE um skipan aðal- og varaþingfulltrúa, en þó eigi síðar en 8 vikum eftir að sveitarstjórnarkosningar hafa farið fram og skal framkvæmdastjóri annast tilkynningu til sveitarstjórna um endanlega skipan þingfulltrúa.

Forfallist bæði aðal- og varaþingfulltrúar sveitarfélags er því heimilt að skipa þingfulltrúa til bráðabirgða.

Boðun þinga
7. gr.

Stjórn boðar þingfulltrúa til þinga með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara. Stjórn skal frá einum tíma til annars velja þingstaði sem breiðast á starfssvæði SSNE. Stjórn sendir framkvæmdastjórum sveitarfélaga og þingfulltrúum tilkynningu um þingstað, tíma, og drög að dagskrá. Endanlega dagskrá, tillögur og önnur þinggögn stjórnar skal senda til þingfulltrúa með minnst 10 daga fyrirvara. Tilkynningu skal senda með rafrænum hætti.

Stjórn skal enn fremur auglýsa þing með sannarlega opinberum hætti. Heimilt að boða sérstaklega fulltrúa með málfrelsis- og tillögurétt skv. 2. mgr. 4.gr. svo og aðra aðila sem tengjast málefnum og starfi SSNE með öðrum hætti.

Tillögur og ályktanir annarra en stjórnar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en 2 vikum fyrir þing.

Þing eru lögmæt ef löglega er til þeirra boðað og a.m.k. 2/3 kjörinna fulltrúa eru mættir.

Dagskrá ársþings
8. gr.

Ársþing skal haldið eigi síðar en 30. apríl ár hvert.

Á ársþingi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir til afgreiðslu:

 1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
 2. Ársreikningur og skýrsla endurskoðanda
 3. Tillaga stjórnar um stefnu og framtíðarmarkmið
  1. Endurmat og eftirfylgni sóknaráætlunar Norðurlands eystra
  2. Áherslumál og forgagnsröðun verkefna
  3. Áherslur fagráða
 4. Tillaga stjórnar um fjárhagsáætlun fyrir næsta ár
 5. Tillaga stjórnar um greiðslu þóknana til stjórnar, úthlutunarnefndar og fagráða
 6. Tillögur stjórnar um skipan í undirnefndir stjórnar - ef við á
 7. Kosning endurskoðanda
 8. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin

Aukaþing
9. gr.

Stjórn skal boða þingfulltrúa til haustsþings, eigi síðar en 30. október ár hvert. Starfsáætlun fyrir næsta ár skal lögð fram á haustþingi.

Haustþing skal vera vettvangur til að taka á dagskrá málefni sem þörf er talin á að fjalla um hverju sinni meðal þingfulltrúa SSNE, sveitarfélaga og annarra hagaðila.

Á haustþingi skal taka eftirtalin mál á dagskrá:

 1. Skýrslur um framvindu starfs- og fjárhagsáætlunar.
  1. Stjórn SSNE
  2. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs sóknaráætlunar Norðurlands eystra
  3. Fagráð SSNE
  4. Undirnefndir – ef við á
 2. Starfsáætlun næsta árs
 3. Tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun
 4. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin

Stjórn getur enn fremur boðað til frekari aukaþinga telji hún þess þörf. Þá skal stjórn boða aukaþing ef a.m.k. þriðjungur aðildarsveitarfélaga krefst þess, í síðasta lagi innan 2 vikna frá því að henni barst slík krafa.

Aukaþing skal halda með rafrænum hætti í gegnum fjarfundabúnað, enda sé tryggt að almenningur og aðilar með málfrelsis- og tillögurétt hafi viðeigandi aðgang að fundinum. Heimilt er að halda aukaþing í staðarfundi sé talin þörf á. Þess skal skýrt getið í fundarboði skv. 7. gr. hvort um rafrænt þing í gegnum fjarfundarbúnað eða staðarfund er að ræða.

Fundarstjórn
10. gr.

Formaður stjórnar eða kjörinn fundarstjóri stjórnar þingum SSNE og tilnefnir fundarritara, með samþykki þingfulltrúa. Í upphafi þings skal fundarstjóri athuga hvort löglega hafi verið til þingsins boðað og hvort þingið sé lögmætt að öðru leyti og lýsa því yfir hvort svo sé.

Umræður, atkvæðagreiðslur og önnur framkvæmd þingsins skal fara eftir því sem fundarstjóri ákveður.

Rita skal fundargerð og skal birta hana opinberlega innan fjögurra vikna frá þingi.

Kosningar
11. gr.

Á þingum ræður einn fulltrúi einu atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum allra mála, nema öðruvísi sé mælt fyrir í samþykktum þessum. Ef tillaga fær jafnmörg atkvæði, með og móti, telst hún fallin.

Eftirfarandi tillögur þurfa samþykki a.m.k. ¾ þingfulltrúa:

 • Umsókn nýs sveitarfélags um aðild að SSNE skv. 1. gr.
 • Tillaga um breytingu á markmiðum og hlutverki SSNE skv. 2. gr.
 • Breyting á skipan þingfulltrúa skv. 5. gr.
 • Breyting á skipan í stjórn skv. 12. gr.
 • Tillaga um stefnu og framtíðarmarkmið sem samþykkt skal á ársþingi skv. 8. gr.
 • Árgjöld sveitarfélaga skv. 2. mgr. 20. gr.

Stjórn
12. gr.

Hvert sveitarfélag skipar einn fulltrúa í stjórn SSNE, nema Akureyrarbær sem skipar tvo. Skipa skal sérstakan varafulltrúa fyrir hvern aðalmann í stjórn. Stjórn skal skipuð til fjögurra ára, í upphafi hvers nýs kjörtímabils sveitarstjórnar.

Kjörgengir eru kjörnir sveitarstjórnarmenn, varamenn og framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga. Sveitarstjórnum er skylt að vinna saman við skipan stjórnarmanna til að tryggja að gætt sé að sem jöfnustum hlut kynja í stjórn.

Sveitarstjórnir skulu tilkynna framkvæmdastjóra við fyrsta hentugleika um skipan aðal- og varafulltrúa í stjórn, en þó eigi síðar en 8 vikum eftir að sveitarstjórnarkosningar hafa farið fram og annast framkvæmdastjóri tilkynningu til sveitarstjórna um endanlega skipan stjórnar.

Ef breytingar verða á fjölda sveitarfélaga innan SSNE þannig að fjöldi stjórnarmanna verður jafn, skal atkvæði formanns hafa tvöfalt vægi.

Skipting starfa og starfshættir
13. gr.

Akureyrarbær skipar formann stjórnar en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórn fundar svo oft sem þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en 6 sinnum á hverju almanaksári. Formaður boðar fundi stjórnar og stjórnarmenn geta einnig krafist stjórnarfunda. Sama rétt á framkvæmdastjóri.

Stjórn er ályktunarbær ef meirihluti stjórnar mætir á fund en mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka nema allir stjórnarmenn hafi átt þess kost á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður úrslitum á fundum stjórnar, en falli atkvæði jafnt á stjórnarfundum ræður atkvæði formanns úrslitum. Haldin skal fundargerð.

Stjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir í fjarfundi.

Stjórn skal setja sér nánari verklagsreglur þar sem m.a. skal fjallað um hlutverk formanns, undirbúning, boðun og framkvæmd stjórnarfunda, dagskrá, ályktunarhæfi, vanhæfi, fundargerðir, upplýsingagjöf og samskipti við starfsmenn.

Hlutverk stjórnar
14. gr.

Hlutverk stjórnar SSNE er eftirfarandi:

 1. Stýrir málefnum SSNE á milli þinga
 2. Undirbýr, boðar og gerir tillögur til ársþings SSNE skv. ákvæðum 8. gr. og reglulegra aukaþinga skv. 1.-2. mgr. 9. gr.
 3. Ber ábyrgð á innleiðingu samþykktrar stefnu og framtíðarmarkmiða SSNE
 4. Ber ábyrgð á innleiðingu samþykktra starfs- og fjárhagsáætlana SSNE
 5. Framfylgir öðrum samþykktum þinga SSNE
 6. Vinnur að öðrum stefnumarkandi málum SSNE
 7. Ber ábyrgð á bókhaldi og fjármálum SSNE
 8. Ræður framkvæmdastjóra SSNE
 9. Hefur eftirlit með störfum framkvæmdastjóra
 10. Hefur eftirlit með störfum úthlutunarnefndar uppbyggingarsjóðs, fagráða og undirnefnda stjórnar SSNE
 11. Heldur utan um skrá yfir aðildarsveitarfélög, tengiliði þeirra, þingfulltrúa og rafræn netföng sem tilkynningar til sveitarfélaga skulu sendar á, s.s. boðun þingfunda skv. 1. mgr. 7. gr.

Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda SSNE.

Úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs
15. gr.

Stjórn SSNE skipar, eftir tillögum frá sveitarstjórnum, þrjá fulltrúa í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs til tveggja ára, þar af einn sem formann úthlutunarnefndar, og þrjá varamenn. Í úthlutunarnefnd sitja jafnframt fulltrúar þeirra fagráða sem skipuð eru skv. 1. mgr. 16. gr. Fagráðin skulu jafnframt skipa varafulltrúa í úthlutunarnefnd úr hverju ráði. Gæta skal að jöfnustum hlut kynja við skipan úthlutunarnefndar.

Hlutverk úthlutunarnefndar er yfirferð umsókna um styrki til Uppbyggingarsjóðs og val á verkefnum, á grundvelli faglegs mats, sem styrkt verða í samræmi við Sóknaráætlun Norðurlands eystra. Við úthlutun styrkja skal gæta jafnræðis, hlutlægni, gagnsæis og samkeppnissjónarmiða. Falli atkvæði jöfn skal atkvæði formanns ráða úrslitum.

Stjórn SSNE semur starfsreglur fyrir úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs, sem staðfestar skulu af þingfundi, þar sem m.a. skal nánar kveðið á um:

 1. Verkefni úthlutunarnefndar uppbyggingarsjóðs
 2. Hæfi og óhæði nefndarmanna
 3. Hámarks skipunartíma
 4. Hlutverk formanns
 5. Undirbúning, boðun, dagskrá og framkvæmd funda
 6. Ályktunarhæfi
 7. Vanhæfi
 8. Fundargerðir
 9. Upplýsingagjöf til stjórnar og/eða þinga SSNE
 10. Samskipti við starfsmenn og stjórnarmenn SSNE

Úthlutunarnefnd skal semja starfsáætlun sína fyrir komandi starfsár þar sem kveðið skal á um dag- og tímasetningar reglulegra funda og dagskrá þeirra. Starfsáætlun úthlutunarnefndar skal samþykkt af stjórn SSNE.

Fagráð
16. gr.

Eftirfarandi fagráð skulu starfa á grundvelli samnings um sóknaráætlun Norðurlands eystra:

 • Fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar
 • Fagráð menningar
 • Fagráð umhverfismála

Hlutverk fagráða eru m.a. eftirfarandi:

 1. Tillögugerð til stjórnar - og umsögn um tillögur stjórnar til ársfundar um:
  1. Stefnu og framtíðarmarkmið SSNE á sviði viðkomandi fagráðs
  2. Starfsáætlun SSNE
 2. Önnur verkefni samkvæmt tillögu stjórnar

Fulltrúar í fagráðum eru skipaðir af stjórn, til tveggja ára í senn. Við skipan fagráða skal tryggð sem breiðust aðkoma sveitarstjórna, stofnana, atvinnulífs, menningarlífs, fræðasamfélags og annarra haghafa í landshlutanum. Gæta skal lýðræðis-, búsetu-, aldurs- og kynjasjónarmiða.

Stjórn SSNE semur starfsreglur fyrir einstök fagráð sem staðfestar skulu af þingfundi, þar sem m.a. skal nánar kveðið á um:

 1. Tilgang og hlutverk viðkomandi fagráðs
 2. Hæfi og óhæði fulltrúa í fagráði
 3. Hámarks skipunartíma
 4. Hlutverk formanns
 5. Undirbúning, boðun, dagskrá og framkvæmd funda
 6. Ályktunarhæfi
 7. Vanhæfi
 8. Fundargerðir
 9. Upplýsingagjöf til stjórnar og/eða þinga SSNE
 10. Samskipti við starfsmenn og stjórnarmenn SSNE

Fagráð skulu semja starfsáætlanir sínar fyrir komandi starfsár þar sem kveðið skal á um dag- og tímasetningar reglulegra funda og dagskrá þeirra. Starfsáætlanir fagráða skulu samþykktar af stjórn SSNE.

Undirnefndir
17. gr.

Stjórn getur skipað sérstakar undirnefndir til að annast framkvæmd einstakra verkefna á sviði SSNE. Við skipan slíkra nefnda skal kveðið á um:

 1. Tilgang og hlutverk undirnefndar
 2. Skipan nefndar
 3. Hlutverk formanns
 4. Verklag við undirbúning, boðun og framkvæmd funda
 5. Ályktunarhæfi
 6. Vanhæfi
 7. Fundargerðir
 8. Upplýsingagjöf til stjórnar og/eða þinga SSNE
 9. Greiðslu kostnaðar vegna starfa nefndar
 10. Samskipti við starfsmenn og stjórnarmenn SSNE
 11. Starfstíma nefndar

Undirnefndir skulu semja starfsáætlanir fyrir starfstíma sinn þar sem kveðið skal á um framvindu nefndarstarfsins og áætlaða fundi. Starfsáætlanir undirnefnda skulu samþykktar af stjórn SSNE.

Einstökum stjórnarmönnum SSNE er heimilt að sitja fundi undirnefnda.

Skipan nefndar skal í heild sinni lögð fyrir ársþing eða aukaþing til samþykktar.

Framkvæmdastjóri
18. gr.

Stjórn ræður framkvæmdastjóra og gerir við hann ráðningarsamning og semur starfslýsingu. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn og heyrir undir hana.

Hlutverk framkvæmdastjóra SSNE er eftirfarandi:

 1. Ber ábyrgð á daglegum rekstri SSNE í samræmi við samþykkta stefnu og áætlanir SSNE
 2. Kemur fram fyrir hönd SSNE í málum sem varða daglegan rekstur
 3. Ber ábyrgð á fjármálum og reikningshaldi SSNE gagnvart stjórn
 4. Annast undirbúning stefnu og framtíðarmarkmiða fyrir stjórn
 5. Annast undirbúningrekstrar- og fjárhagsáætlunar fyrir stjórn
 6. Annast innleiðingu ákvarðana stjórnar og árs- og aukaþinga
 7. Ber óvenjulegar og mikilsháttar ákvarðanir undir stjórn
 8. Ber ábyrgð á ráðningu starfsfólks
 9. Ber að veita stjórnarmönnum, endurskoðendum og þingfulltrúum allar upplýsingar um rekstur SSNE, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum
 10. Situr stjórnarfundi, nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum
 11. Situr ársþing og aukaþing
 12. Hefur málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum, árs- og aukaþingum
 13. Er talsmaður SSNE útávið

Framkvæmdastjóri fer með prókúru SSNE í samræmi við hlutverk sitt.

Almennt hæfi
19. gr.

Þingfulltrúar, stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og fulltrúar í úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs, fagráðum og undirnefndum skulu vera lögráða og fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.

Árgjöld og fjárhagsáætlun
20. gr.

SSNE hefur sjálfstæðan fjárhag og ber eitt ábyrgð á skuldbindingum sínum, sbr. þó 23. grein komi til slita félagsins.

Árgjöld til SSNE eru ákveðin á ársþingi sbr. þó 23. grein sem framlag sveitarfélaganna í fjárhagsáætlun ár hvert. Framlag sveitarfélaga skal innt af hendi í formi árgjalds og skal skipt milli þeirra eftir íbúatölu miðað við 1. janúar ár hvert. Stjórnin ákveður fjölda gjalddaga og skulu dráttarvextir reiknast af vanskilum. Ársþing getur þó ákveðið að sá hluti árgjalda sem er vegna launakostnaðar stjórnar skiptist að hluta með öðrum hætti en eftir íbúatölu.

Stjórn er óheimilt að stofna til annarra útgjalda en ákveðin eru í fjárhagsáætlun sem samþykkt hefur verið á þingi. Stjórn er þó heimilt að stofna til útgjalda sem nema allt að 5% umfram samþykkta fjárhagsáætlun. Þá er stjórn heimilt í undantekningartilvikum að færa framlög milli einstakra liða í fjárhagsáætlun, sem nemur allt að 5% af heildarútgjöldum.

Ef stjórn telur fyrirséð er að útgjöld fari umfram 5% af samþykktum útgjöldum skv. fjárhagsáætlun ber henni að kalla saman aukaþing án tafar og leggja fram tillögu að endurskoðaðri starfs- og fjárhagsáætlun til samþykktar.

Ef hagnaður verður af rekstri SSNE skal færa hann yfir á næsta reikningsár. Ef tap verður af rekstri SSNE skal það greitt úr sjóðum SSNE eða fært á næsta reikningsár. Stjórn gerir tillögu hverju sinni til ársþings um ráðstöfun rekstrarniðurstöðu reikningsársins.

Ársreikningar og endurskoðun
21. gr.

Reikningsár SSNE er almanaksárið og reikningar SSNE skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda sem kosinn er á ársþingi til eins árs í senn sbr. ákvæði 8 gr. Endurskoðanda má ekki kjósa úr hópi þingfulltrúa, stjórnarmanna eða starfsmanna SSNE. Um hæfi endurskoðanda fer að lögum.

Endurskoðandi skal í samræmi við góðar endurskoðunarvenjur endurskoða ársreikninga SSNE og í því sambandi kanna bókhaldsgögn og aðra þætti, er varða rekstur SSNE og stöðu. Er honum jafnan heimill aðgangur að öllum bókum SSNE og skjölum. Að öðru leyti fer um störf hans að lögum.

Ársreikningur skal útbúinn í samræmi við lög um ársreikninga nr. 3/2006 og sýna skilmerkilega og rækilega tekjur og gjöld SSNE, eignir þess og skuldir. Með gjöldum skulu taldar hæfilegar afskriftir.

Heildarlaun framkvæmdastjóra og einstakra stjórnarmanna skulu sérgreind á hvern einstakling.

Úrsögn
22. gr.

Kjósi sveitarfélag að hætta þátttöku í SSNE skal sveitarstjórn tilkynna það stjórn SSNE skriflega eigi síðar en 30. júní. Verður úrsögnin þó ekki virk fyrr en 30. desember, sem teljast skal úrsagnardagur.

Við móttöku tilkynningar um úrsögn skal stjórn SSNE taka saman yfirlit yfir allar eignir og skuldir SSNE miðað við úrsagnardag. Ef nettó fjárhæð skulda er umfram eignir - skal skuldum jafnað á sveitarsjóði í samræmi við íbúatölu. Uppgjör á skuld úrgöngusveitarfélags skal fara fram innan 8 mánaða frá úrsagnardegi, á þann hátt er stjórn SSNE ákveður. Ef nettó fjárhæð eigna er umfram skuldir – kemur ekki til sérstaks uppgjörs við úrgöngusveitarfélag.

Slit
23. gr.

SSNE verður ekki lagt niður nema tvö löglega boðuð þing samþykki það með a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða, svo og a.m.k. 2/3 af sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga. Þingin skulu haldin með a.m.k. tveggja mánaða millibili. Tillaga að slitum SSNE skal fylgja fundarboði. Áður en seinna þingið er haldið skal afstaða sveitarstjórna til sambandsslita liggja fyrir.

Nú er ákveðið að hætta starfsemi SSNE og skal þá kjósa sérstaka skilanefnd, sem kemur í stað stjórnar. Skilanefnd gerir upp eignir og skuldir og slítur formlega rekstri SSNE. Heimilt er skilanefnd að auglýsa eftir kröfum á hendur SSNE með opinberri innköllun. Eftir að kröfur hafa verið greiddar skal afgangi eigna eða eftirstöðvum skulda jafnað á viðkomandi sveitarsjóði í hlutfalli við íbúatölu. Skilanefnd skal kjörinn á seinni sambandsslitafundi samkvæmt 1. mgr.

Breytingar á samþykktum
24. gr.

Samþykktum þessum má breyta á löglega boðuðu þingi SSNE með samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða, sbr. þó ákvæði 11. gr.

Þannig samþykkt á ársfundi EYÞINGS þann 15. nóvember 2019
Síðast breyting gerð á ársþingi SSNE, 14
. apríl 2023

PDF útgáfa samþykkt SSNE