Fara í efni

Græn skref SSNE

Verkefnið Græn skref er árangursrík leið fyrir stofnanir og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins að vinna markvisst að umhverfismálum í skrifstofustarfsemi sinni. Skrefin eru alls fimm og unnið er eftir skýrum gátlistum. Verkefnið er einfalt og aðgengilegt og ættu allar stofnanir að geta tekið þátt. Stofnanir sem skrá sig til leiks fylgja skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm skref. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem stofnanir þurfa að innleiða í sinn rekstur. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi. Veitt er viðurkenning fyrir hvert skref sem stofnanir ljúka við.

I byrjun þessa árs fengu sveitarfélög SSNE boð um að taka þátt í verkefninu Græn skref SSNE, sem byggir á Grænum skrefum í ríkisrekstri. Verkefnið miðar að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sveitarfélaganna, að draga úr losun og að innleiða þekkingu á loftslagsbókhaldi og aðgerðaáætlanagerð.

Verkefninu var sannarlega vel tekið af sveitarfélögum SSNE og ljóst að mikill vilji er hjá sveitarfélögum svæðisins að gera vel í umhverfis- og loftslagsmálum, enda skráðu öll 10 sveitarfélögin sig til leiks. Með þátttöku í Grænum skrefum SSNE fá sveitarfélögin verkfæri í formi gátlista; lista yfir aðgerðir sem hægt er að innleiða á vinnustöðunum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Aðgerðirnar eru bæði smáar og stærri í sniðum, dæmi um aðgerðir er að koma á skýru flokkunarkerfi fyrir úrgang, draga úr magni úrgangs með því að leita leiða til að kaupa notað frekar en nýtt og gera sitt besta til að koma því sem ekki nýtist lengur á vinnustaðnum aftur inn í hringrásarhagkerfið. Einnig er mikið lagt upp úr því að ýta undir virka ferðamáta starfsfólks, t.d. með gerð samgöngusáttmála og að séð til þess að góð aðstaða sé til staðar fyrir hjólandi. Þetta eru eingöngu fá dæmi um þær aðgerðir sem Grænu skrefin fela í sér – en fyrir áhugasöm má nálgast listana hér og skoða þá.

Græn skref SSNE er ákveðin tilraun þar sem byrjað er á skrifstofustarfsemi sveitarfélaganna, en lagt er upp með að fleiri vinnustaðir sveitarfélaganna geti tekið þátt þegar fram líða stundir. Með því að byrja á skrifstofustarfsemi sveitarfélaganna byggist upp þekking innanhúss og lykilstarfsfólk skrifstofanna getur í framhaldinu komið þekkingunni á framfæri við vinnustaði sveitarfélaganna.

Sveitarfélögin innleiða skrefin á sínum hraða, en þau sveitarfélög sem eru þátttakendur munu fá aðstoð frá starfsfólki SSNE við að uppfylla lögbundnar skyldur sveitarfélaga í loftslagsmálum. Samkvæmt loftslagslögum skulu sveitarfélög setja sér loftslagsstefnu með samdráttarmarkmiðum ásamt aðgerðaáætlun svo þeim markmiðum verði náð. Til þess að hægt sé að gera það þarf að halda utan um grænt bókhald sveitarfélaga, og stefnt er á að öllum sveitarfélögum SSNE bjóðist fræðsla við skráningu græns bókhalds eftir sumarið.