Fara í efni

Mikill spenna og Fiðringur á Norðurlandi

Mikill spenna og Fiðringur á Norðurlandi

Nemendur á unglingastigi þátttökuskólanna hafa samið sitt eigið atriði og æft af kappi alla vorönnina undir handleiðslu leiðbeinanda og mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð, hugmyndin og útfærslan kemur frá nemendum sjálfum. Einnig sér hópurinn alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðhreyfingar, ljós og hljóð þannig að þátttaka í Fiðringi er heljarinnar skóli í sjálfu sér. Hápunkturinn er svo að hitta hin liðin og sýna afraksturinn á leiksviði með allri leikhústækninni og töfrunum.

Í fyrra tóku þátt átta grunnskólar á Akureyri og nærsveitum í þessari hæfileikakeppni sem er að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi. Í ár eru það tólf skólar frá Fjallabyggð til Húsavíkur sem etja kappi og því verða tvö undankvöld og svo úrslitakvöld. Fyrra undankvöldið fór fram í Tjarnarborg Ólafsfirði í gærkvöldi og ætlaði þakið að rifna af húsinu, stemningin var svo mikið. Í kvöld verður seinni undankeppnin haldin að Laugarborg Eyjafjarðarsveit og nokkrir miðar eftir. Aldeilis tilvalið að eiga gott kvöld með táningunum sínum. Úrslitakvöldið fer svo fram í HOFI 25. apríl, almenn miðasala hefst 24. apríl og mun fara fram hér https://www.mak.is/

Við ættum öll að vera með tilhlökkunar fiðring í maganum að heyra og sjá erindi táninganna okkar, með þeirra eigin nefi.

Það er Menningarfélag Akureyrar sem stendur á bak við Fiðring með dyggum stuðningi SSNE, Barnamenningarsjóðs, Samfélagsjóðs Landsbankans, SBA og þátttökuskólanna allra.

Frumkvöðullinn María Pálsdóttir sagði frá þessu spennandi verkefni í síðdegisútvarpinu í gær og hægt að hlýða hér á og njóta í amstri dagsins.  

Getum við bætt síðuna?