Starfsreglur Farsældarráðs Norðurlands eystra
1. gr.
Farsældarráð Norðurlands eystra
Í samræmi við ákvæði 5. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 og í samræmi við samstarfssamning sveitarfélaga um Farsældarráð Norðurlands eystra frá 30. október 2025 hafa sveitarfélögin á Norðurlandi eystra: Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur og Þingeyjarsveit komið á fót svæðisbundnu farsældarráði Norðurlands eystra.
Þjónustuveitendur ríkis o.fl. hafa gert frá 30. október 2025 samstarfsyfirlýsingu um þátttöku og samstarf í Farsældarráði Norðurlands eystra: Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sjúkrahúsið á Akureyri, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Framhaldsskólinn á Laugum, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Framhaldsskólinn á Húsavík og Svæðisstöð íþróttahéraða UMFÍ og ÍSÍ.
Svæðisbundið farsældarráð Norðurlands eystra er samstarfsvettvangur þjónustuveitenda ríkis og sveitarfélaga sem sinna málefnum barna í landshlutanum.
Heiti ráðsins er Farsældarráð Norðurlands eystra. Verkefnastjóri farsældarráðs, sem er starfandi hjá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), annast allt utanumhald með störfum ráðsins.
2. gr.
Skipan ráðsins
Í ráðinu skulu eiga sæti fulltrúar svæðisbundinna þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga sem sinna þjónustu við börn, þ.m.t. fulltrúar leik, grunn- og framhaldsskóla, félagsþjónustu og barnaverndar, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, skólaþjónustu, frístunda- og íþróttastarfs, sem og aðrir aðilar eftir þörfum svæðisins.
Sveitarfélögin skipa sína fulltrúa í ráðið samkvæmt tilnefningum, sbr. samstarfssamning sveitarfélaga um Farsældarráð Norðurlands eystra frá 30. október 2025. Hvert sveitarfélag tilnefnir einn fulltrúa sem starfar á velferðar- og/eða fræðslusviði. Tilnefna skal varamann fyrir alla fulltrúa.
Þjónustuveitendur ríkis o.fl. skipa sína fulltrúa í ráðið samkvæmt tilnefningum, sbr. samstarfsyfirlýsingu þjónustuveitenda ríkis o.fl. um þátttöku og samstarf í Farsældarráði Norðurlands eystra frá 30. október 2025. Tilnefna skal varamann fyrir alla fulltrúa.
Hver fulltrúi sem á sæti í ráðinu hefur sér til stuðnings baklandshóp sem hann vinnur náið með á milli funda farsældarráðs. Baklandshóparnir hafa ríku hlutverki að gegna við greiningu á þeim áskorunum sem þarft er að forgangsraða og bregðast við og einnig hafa þeir ríkt hlutverk við mótun aðgerða í aðgerðaáætlun.
Á fyrsta fundi farsældarráðs kýs ráðið sér formann og varaformann úr hópi fulltrúa í ráðinu. Nýr formaður og varaformaður skulu kosnir á tveggja ára fresti.
3. gr.
Hlutverk farsældarráðs
Farsældarráð Norðurlands eystra mótar aðgerðaáætlun til fjögurra ára sem byggir á stefnu stjórnvalda um farsæld barna, niðurstöðum farsældarþings og stöðumats á Norðurlandi eystra. Áætlunin skal endurspegla svæðisbundnar áskoranir og tækifæri og skilgreina skýr markmið, aðgerðir, tímaramma, mælikvarða um árangur og ábyrgðaraðila. Verkefnastjóri heldur utan um vinnu ráðsins við mótun áætlunarinnar.
Þegar farsældarráð hefur samþykkt aðgerðaáætlun skal hún lögð fyrir sveitarstjórnir aðildarsveitarfélaga og yfirstjórn þeirra opinberu stofnana sem eiga sæti í ráðinu. Aðgerðaáætlunin og innleiðing hennar skal endurskoðuð árlega, einkum í tengslum við árlega yfirferð á niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar og öðrum viðeigandi greiningum. Hún skal birt opinberlega á heimasíðum þjónustuveitenda sem eiga aðild að ráðinu.
4. gr.
Fundir farsældarráðs
Ráðið skal halda reglulega fundi. Á fyrsta starfsári ráðsins, þegar unnið er að mótun aðgerðaáætlunar, fundar ráðið að lágmarki átta sinnum. Eftir að aðgerðaáætlun er tilbúin kemur til álita að fækka fundum ráðsins, þó þannig að fundað verði að lágmarki fjórum sinnum á ári. Auk þess getur verið boðað til aukafunda eftir þörfum. Fundir skulu boðaðir með minnst tveggja vikna fyrirvara, nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Fundir skulu boðaðir með rafrænum hætti og skal dagskrá fundarins send út með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarboði skulu jafnframt fylgja þau gögn sem heyra undir hvern dagskrárlið og eru nauðsynleg svo fulltrúar ráðsins geti undirbúið sig fyrir fundinn. Fundir skulu boðaðir af verkefnastjóra í samráði við formann ráðsins.
Sjái meðlimur ráðsins sér ekki fært að mæta á fund farsældarráðs skal hann tilkynna formanni farsældarráðs, eða eftir atvikum varaformanni, og verkefnastjóra farsældarráðs um forföll sín og óska eftir boðun varamanns í sinn stað.
Formaður, eða varformaður í forföllum hans, stýrir fundi. Heimilt er, samkvæmt ákvörðun formanns, eða eftir atvikum varaformanns, hverju sinni, að halda fundi farsældarráðs með fjarfundabúnaði, enda séu aðstæður með þeim hætti að það sé nauðsynlegt.
Fundargerðir skulu ritaðar og bornar undir meðlimi ráðsins til samþykktar. Fundargerðir og önnur fundarskjöl skulu vistuð á sameiginlegu svæði sem allir meðlimir hafa aðgang að. Verkefnastjóri ber ábyrgð á eftirfylgni með samþykktum verkefnum og miðlun upplýsinga til hluteigandi aðila.
Sveitarfélögin skiptast á að hýsa staðarfundi farsældarráðs og fer eftir stafrófsröð. Ef áætlað er að fundir séu lengri en tvær klukkustundir býður viðeigandi sveitarfélag upp á léttar veitingar.
Meðlimir ráðsins samþykkja að fara eftir samskiptasáttmála Farsældarráðs Norðurlands eystra, í samskiptum sín á milli og í störfum sínum fyrir ráðið.
5. gr.
Samráð við notendur
Ráðið skal tryggja reglulegt og markvisst samráð við börn, foreldra og aðra notendur þjónustu. Þetta skal m.a. gert í gegnum samráð við ungmennaráð, notendaráð, foreldraráð og annan sambærilegan vettvang. Ráðið skal einnig leita eftir sjónarmiðum notenda við mótun stefnu og aðgerðaáætlunar. Verkefnastjóri annast skipulag samráðsins og eftirfylgni í samráði við formann ráðsins.
6. gr.
Verkefnastjóri farsældarráðs Norðurlands eystra
Með farsældarráði starfar sérstakur starfsmaður SSNE, verkefnastjóri farsældarráðs Norðurlands eystra.
Verkefnastjóri farsældarráðs Norðurlands eystra heldur utan um störf farsældarráðs og ber ábyrgð á samhæfingu, utanumhaldi og upplýsingaflæði milli ráðsins og samstarfsaðila. Hann undirbýr, í samráði við formann farsældarráðs, fundi ráðsins skv. 4 gr. og situr fundina með málfrelsi og tillögurétt. Þá ritar hann, eða eftir atvikum annar aðili sem fundarstjóri felur þann starfa, fundargerðir farsældarráðs, og tryggir eftirfylgni með samþykktum verkefnum og markmiðum og leiðir mótun og endurskoðun fjögurra ára aðgerðaáætlunar í samstarfi við ráðið. Verkefnastjóri er ekki meðlimur í farsældarráðinu og tekur ekki þátt í ákvarðanatöku þess.
Verkefnastjóri fylgist með því að baklandshópar fulltrúa farsældarráðs fundi og hefur annast samráð við notendur. Að öðru leyti annast verkefnastjóri farsældarráðs þau verkefni sem honum eru falin af SSNE eða farsældarráði.
7. gr.
Eftirfylgni með störfum ráðsins
Á tveggja ára fresti skulu meðlimir ráðsins, með aðstoð verkefnastjóra farsældarráðs, vinna skýrslu um framvindu aðgerðaáætlunar farsældarráðs, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Skýrslunni skal skilað inn til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og kynnt sveitarfélögunum á svæðinu. Tryggja skal að efni skýrslunnar sé aðgengilegt almenningi.
8. gr.
Breytingar á verklagsreglum
Starfsreglur þessar skulu endurskoðaðar reglulega, að lágmarki á fjögurra ára fresti eða við samþykkt nýrrar aðgerðaáætlunar. Skal formaður farsældarráðs hafa forgöngu þar um með það að markmiði að endurmeta fyrirkomulag og árangur af störfum ráðsins. Breytingar skulu bornar undir ráðið og staðfestar af sveitarfélögum og yfirstjórn stofnana sem eiga aðild að ráðinu.
9. gr.
Kostnaður við störf ráðsins o.fl.
Staðarfundir eru haldnir til skiptist í sveitarfélögunum og því ber hvert sveitarfélag ábyrgð á tíunda hverjum staðarfundi, fundarkostnaði þar með töldum.
Hver aðili ber kostnað vegna síns/sinna fulltrúa í ráðinu. Fundir fara fram innan hefðbundins vinnutíma en ekki er greitt sérstaklega fyrir setu í ráðinu.
10. gr.
Gildistaka
Starfsreglur þessar öðlast gildi við samþykkt farsældarráðs á þeirra fyrsta fundi, 3. desember 2025 að undangenginni staðfestingu allra hlutaðeigandi sveitarstjórna og þjónustuveitenda ríkis o.fl.