Samskiptasáttmáli Farsældarráðs Norðurlands eystra
Tilgangur sáttmálans
Sáttmálinn er hluti af innra starfi ráðsins og byggir á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 og samþykktum starfsreglum ráðsins.
Farsældarráð Norðurlands eystra er vettvangur samstarfs á milli sveitarfélaga, þjónustustofnana ríkis og fleiri hagsmunaaðila sem vinna að velferð og farsæld barna.
Sáttmálinn markar sameiginlega sýn ráðsins um hvernig við viljum vinna saman – með virðingu, trausti og lausnamiðaðri hugsun – til að skapa sem bestar forsendur fyrir farsæld barna á Norðurlandi eystra.
Samskiptasáttmálinn styður við markmið ráðsins um að:
- Efla samþætta þjónustu og samvinnu milli ólíkra kerfa.
- Tryggja fagleg og árangursrík vinnubrögð.
- Byggja upp traust og sameiginlega ábyrgð á niðurstöðum.
Gildi og samskiptalögmál okkar
Við í Farsældarráði Norðurlands eystra samþykkjum að vinna saman samkvæmt eftirfarandi meginlögmálum:
1. Traust og virðing
Við sýnum hvert öðru traust og virðingu og hlustum af einlægni. Við leggjum okkur fram við að skapa öruggt andrúmsloft þar sem ólík sjónarmið fá að heyrast og bera ávöxt.
2. Ábyrgð og fagmennska
Við berum sameiginlega ábyrgð á því hvernig við vinnum og tölum saman. Við nýtum tímann vel, mætum undirbúin og leggjum okkur fram við að stuðla að árangri.
3. Hlustun og samvinna
Við hlustum af athygli og með einlægum áhuga, sýnum forvitni og spyrjum til að skilja. Við leitum sameiginlegra lausna og sjáum tækifæri í samvinnu.
4. Heiðarleiki og virðing
Við tölum hreinskilnislega, tökumst á við ágreining með virðingu og sjáum ólíkar skoðanir sem styrkleika. Við erum ekki dómhörð heldur lausnamiðuð.
5. Framtíðarsýn og jákvæðni
Við einblínum á framtíðina og sameiginlegar lausnir fremur en sögu og sök. Við leggjum áherslu á það sem þjónar markmiðinu – farsæld barna – og höfum trú á verkefninu og gleði af samvinnunni.
Ágreiningur eða brot á samskiptasáttmála
Ef upp koma erfið samskipti eða ágreiningur sem ógnar trausti eða vinnufriði innan ráðsins, skal ræða það með gagnkvæmri virðingu, með stuðningi frá verkefnastjóra Farsældarráðs Norðurlands eystra eftir þörfum.
Sameiginleg skuldbinding
Samskiptasáttmáli þessi var samþykktur einróma á fundi Farsældarráðs Norðurlands eystra þann 3. desember 2025. Með þeirri samþykkt lýsa fulltrúar ráðsins sig reiðubúna til að vinna samkvæmt þeim gildum og samskiptalögmálum sem sáttmálinn kveður á um.
Sáttmálinn er hluti af starfsreglum ráðsins og verður endurskoðaður reglulega til að tryggja að hann endurspegli áfram anda og vinnulag ráðsins.