Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - ágúst

Pistill framkvæmdastjóra - ágúst

Eins og svo oft áður fer haustið hjá SSNE af stað með krafti, en eins og þið flest vonandi erum við full af orku og góðum hugmyndum eftir frábært sumar.

Eins og sjá má á fréttabréfinu var fjölmargt í gangi hjá okkur í sumar. Þar stóð líklega upp úr þátttaka okkar í að kynna atvinnulíf á Akureyri fyrir forsetahjónunum, en þau komu í opinbera heimsókn til Akureyrar í lok mánaðarins í tengslum við afmæli Akureyrarbæjar, Akureyrarvöku. Þá var einnig gert opinbert að verkefnið RECET (Rural Europe for the Clean Energy Transition) hefur hlotið styrk sem nemur 225 m.kr. úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins. Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en SSNE og Vestfjarðastofa eru einnig þátttakendur. Verkefnið fer formlega af stað 1. október næstkomandi og væntum við mikils af verkefninu á næstu þremur árum.

Ágúst einkenndist annars af því hversu mörg verkefni voru sett af stað hjá okkur en þar má nefna til að mynda eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra sem snýr að því að auka fjárfestingar á Norðurlandi eystra í samstarfi við sveitarfélög landshlutans. Þá var opnað fyrir umsóknir í hraðalinn Startup Storm sem er sjö vikna hraðall fyrir græna sprota á Norðurlandi. Startup Stormur er hluti af Norðanáttinni sem er hreyfiafl nýsköpunar á Norðurlandi sem SSNE, SSNV og EIMUR standa að ásamt umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

Þá fengum við þær gleðifréttir í lok mánaðarins að stjórn Byggðastofnunar samþykkti eins árs framlengingu á verkefninu Betri Bakkafjörður sem er mikil viðurkenning á því mikilvæga starfi sem þar hefur verið unnið. Í því samhengi má minna á að íbúafundur vegna verkefnisins verður haldinn á Bakkafirði fimmtudaginn 7. september næstkomandi og eru íbúar hvattir til að mæta og taka þátt.

Það voru einnig tímamót í ágúst þegar stóru verkefni lauk, en nú hafa öll sveitarfélögin innan SSNE og SSNV samþykkt svæðisáætlun úrgangsmála og hefur hún því nú tekið gildi. Það er verkefni sem hefur verið í gangi hjá okkur frá því í byrjun 2022 og sannarlega ástæða til að þakka öllum þeim sem hafa unnið að því með okkur síðustu mánuði. Nú er bara að vinna eftir áætluninni og ná öllum metnaðarfullu markmiðunum sem þar eru sett.

Það er fjölmargt framundan hjá okkur í haust. Það er eitt af grunnverkefnum okkar að styðja við nýsköpun á allan þann hátt sem við getum. Það gerum við meðal annars með Uppbyggingarsjóði Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, en opnað verður fyrir umsóknir í sjóðinn 13. september næstkomandi og verður umsóknarfrestur til kl. 12:00 þann 18. október. Uppbyggingarsjóður styrkir fjölbreytt verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og menningu og því fjölbreytt verkefni sem hafa möguleika á að hljóta styrk.

Samstarf sveitarstjórna er svo alltaf í forgrunni hjá okkur og vil ég að lokum nýta tækifærið til að minna á að haustþing SSNE verður haldið 6. október næstkomandi, en boðað verður formlega til þingsins í næstu viku.

Fyrsti hauststormurinn er yfirvofandi í kvöld en hann er þó aðeins áminning um allan þann kraft og alla þá fegurð sem býr í haustinu. Ég vona að þið náið sem flest að fara út og njóta fallegu haustlitanna í september og við munum nýta krafta stormsins til að skapa enn betri framtíð fyrir okkar magnaða landshluta.

Getum við bætt síðuna?