Fara í efni

Fréttasafn

Jan Feb Mar Apr Maí Jún Júl Ágú Sep Okt Nóv Des
Dagskrá aukaþings SSNE í desember 2022.

Aukaþing SSNE haldið í desember

Rafrænt aukaþing SSNE verður haldið 2. desember næstkomandi

Á þitt fyrirtæki heima á fjárfestahátíð Norðanáttar?

Norðanátt leitar eftir nýsköpunarverkefnum í leit að fjármögnun fyrir Fjárfestahátíðina á Siglufirði

Stýrihópur um byggðamál heimsótti Norðurland eystra

SSNE tók á móti stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál á Akureyri 1. nóvember. Í stýrihópnum, sem gjarnan gengur undir heitinu „sóknarnefndin“, sitja fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk áheyrnafulltrúa frá Byggðastofnun og landshlutasamtökum sveitarfélaga. Farið var yfir framvindu Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og nokkur áhersluverkefni kynnt sérstaklega. Dæmi um verkefni sem unnið er að um þessar mundir er Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskólanemenda, Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands og mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í landnýtingu, orkuskiptum og úrgangsmálum. Hvað síðastnefnda verkefnið varðar er verið að mynda fimm spretthópa á sviði landnýtingar, orkuskipta og úrgangsmála. Hver hópur er skipaður þremur sérfræðingum sem hafa tíu mánuði til að skila skýrum tillögum um framkvæmanleg verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk annars umhverfisávinnings fyrir landshlutann. Í almennum umræðum um sóknaráætlanir landshluta lýsti fulltrúi SSNE því mati sínu að sóknaráætlanir landshluta hafi stuðlað að valdeflingu heimamanna og stóreflt samstarf innan landshlutans, bæði milli sveitarfélaga og íbúanna sjálfra. Í lok fundarins var sérstaklega rætt um millilandaflug um Akureyrarflugvöll og fékk hópurinn kynningu frá Hjördísi Þórhallsdóttur flugvallarstjóra, Arnheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni framkvæmdastjóra Niceair. Þess má geta að Niceair fékk styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem gerði þeim kleift að ráðast í rannsóknir áður en félagið hóf flug. Fundurinn var haldinn í Menningarhúsinu Hofi. Áður en fundurinn hófst sagði Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri frá starfsemi Menningarfélags Akureyrar. Þá kynnti Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistastjóri starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í glæsilegu hljóðveri hennar, en hljómsveitin er ein af þeim sem fengið hafa styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem gaf þeim byr undir báða vængi.

Góð ráð í umsóknarskrifum - Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra

Umsóknarfrestur er til kl. 13:00 þann 17. nóvember næstkomandi. Hér má finna góð ráð fyrir umsóknarskrifin.
Upplýsandi fundur þar sem hægt er að spyrja spurninga og fá svör til að vísa leiðina.

Rannís heimsækir Húsavík - Tækifæri og styrkir á svæði menntunar og menningar

Mennta- og menningarsvið Rannís býður til hádegisfundar miðvikudaginn 2. nóvember kl. 12:00-13:15. Fundurinn fer fram á Fosshótel Húsavík og verður súpa i boði á meðan á kynningu stendur. Það verður því hægt að næra huga og maga á sama tíma. Við vonum að sem flestir nýti tækifærið til tækifæranna.

Ályktun um aukið aðgengi að fjarnámi

Aukaþing SSNE haldið í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit 23. september 2022 leggur þunga áherslu á aukið aðgengi að fjarnámi á háskólastigi, sem skiptir sköpum fyrir lífsgæði og atvinnulíf á svæðinu. Hvetur þingið háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til að beita sér af fullum þunga fyrir því að háskólar landsins bjóði upp á fjölbreytt fjarnám. Þar sem stærsti háskóli landsins, Háskóli Íslands, hefur ekki sýnt nægjanlegan vilja í verki til að sinna nemendum utan höfuðborgarsvæðisins, sér aukaþing SSNE ástæðu til þess að hvetja sérstaklega stjórnendur HÍ og kennara skólans til að gera almennt betur í þjónustu við íbúa landsbyggðanna, sem hvorki þarf að vera kostnaðarsamt né flókið.

Ráðgjafar Uppbyggingarsjóðs á ferð um landshlutann - Vilt þú aðstoð?

Dagana 25. -28. október ferðast ráðgjafar Uppbygginarsjóðs Norðurlands eystra um landshlutann og bjóða upp á viðtalstíma og persónulega ráðgjöf. Tímarnir eru opnir en okkur þætti gott að vita af þér og fá yfirsýn yfir hversu margir mæta, því biðjum við þig um að skrá þig með nafni og velja staðsetningu. Þá verður allt skipulag skilvirkara. Aftur á móti þá fá hugmyndasmiðir stundum skyndihugdettur, við vitum það og því eru allir velkomnir þó svo viðkomandi hafi ekki skráð sig.

Vel heppnað Ungmennaþing SSNE á Dalvík

Ungmennaþing SSNE fór fram á Dalvík dagana 13.-14 október síðastliðinn. Þingið var að þessu sinni haldið í menningarhúsinu Berg á Dalvík og var þar samankomin hópur ungmenna úr sveitarfélögum landshlutans, ásamt starfsmönnum sveitarfélaga. Þetta er í þriðja sinn sem Ungmennaþing er haldið í landshlutanum en verkefnið er eitt af áhersluverkefnum SSNE árið 2022.

Verkefnastjóri Spretthópa vinnu í umhverfismálum

Kristín Helga Schiöth hefur hafið störf sem verkefnastjóri hjá SSNE, þar sem hún mun verkefnastýra áhersluverkefni sem snýr að stefnumótun og aðgerðaráætlun í umhverfis- og loftslagsmálum á svæðinu. Tímarammi áhersluverkefnisins eru 10 mánuðir og felur í sér myndun spretthópa á sviði landnýtingar, orkuskipta og úrgangsmála sem eiga að skila skýrum tillögum um framkvæmanleg verkefni sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, auk annars umhverfisávinnings. Kristín Helga er menntaður alþjóðafræðingur frá Árósaháskóla, með víðtæka reynslu af verkefnastjórnun. Hún starfaði síðast sem sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, við verkefnið Græn skref í ríkisrekstri. Kristín Helga fluttist aftur til heimabæjarins Akureyrar ásamt fjölskyldu sinni vorið 2019 eftir náms- og starfsár í Reykjavík og Danmörku. Hún er mjög spennt fyrir verkefninu sem henni hefur verið falið að stýra, enda er málefnið brýnt og mikilvægt að hrinda af stað aðgerðum í umhverfis- og loftslagsmálum. Kristín Helga mun hafa aðsetur á starfsstöðinni á Akureyri, í bland við reglubundnar ferðir á starfsstöðina á Húsavík.

Ályktun um vetrarþjónustu á Dettifossvegi

Aukaþing SSNE haldið í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit 23. september 2022 skorar á innviðaráðherra að tryggja vetrarþjónustu á þeirri verðmætu fjárfestingu sem Dettifossvegur er. Fyrirsjáanleiki í þjónustu skiptir sérstaklega miklu í því samhengi til að tryggja bæði aðgengi fyrir flutningsaðila sem í auknum mæli nýta veginn til að koma dýrmætum útflutningsvörum til hafnar á Austfjörðum, auk þess að tryggja mikilvægt öryggi fyrir ferðamenn sem eru í síauknum mæli að ferðast um svæðið allt árið kring.
Getum við bætt síðuna?