Fara í efni

Stýrihópur um byggðamál heimsótti Norðurland eystra

Stýrihópur um byggðamál heimsótti Norðurland eystra

SSNE tók á móti stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál á Akureyri 1. nóvember. Í stýrihópnum, sem gjarnan gengur undir heitinu „sóknarnefndin“, sitja fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk áheyrnafulltrúa frá Byggðastofnun og landshlutasamtökum sveitarfélaga.

Farið var yfir framvindu Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og nokkur áhersluverkefni kynnt sérstaklega. Dæmi um verkefni sem unnið er að um þessar mundir er Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskólanemenda, Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands og mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í landnýtingu, orkuskiptum og úrgangsmálum. Hvað síðastnefnda verkefnið varðar er verið að mynda fimm spretthópa á sviði landnýtingar, orkuskipta og úrgangsmála. Hver hópur er skipaður þremur sérfræðingum sem hafa tíu mánuði til að skila skýrum tillögum um framkvæmanleg verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk annars umhverfisávinnings fyrir landshlutann.

Í almennum umræðum um sóknaráætlanir landshluta lýsti fulltrúi SSNE því mati sínu að sóknaráætlanir landshluta hafi stuðlað að valdeflingu heimamanna og stóreflt samstarf innan landshlutans, bæði milli sveitarfélaga og íbúanna sjálfra.

Í lok fundarins var sérstaklega rætt um millilandaflug um Akureyrarflugvöll og fékk hópurinn kynningu frá Hjördísi Þórhallsdóttur flugvallarstjóra, Arnheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni framkvæmdastjóra Niceair. Þess má geta að Niceair fékk styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem gerði þeim kleift að ráðast í rannsóknir áður en félagið hóf flug.

Fundurinn var haldinn í Menningarhúsinu Hofi. Áður en fundurinn hófst sagði Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri frá starfsemi Menningarfélags Akureyrar. Þá kynnti Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistastjóri starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í glæsilegu hljóðveri hennar, en hljómsveitin er ein af þeim sem fengið hafa styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem gaf þeim byr undir báða vængi.

Getum við bætt síðuna?