Fara í efni

Fréttasafn

Jan Feb Mar Apr Maí Jún Júl Ágú Sep Okt Nóv Des

46% af 30 miljónum var úthlutað á Norðurlandi eystra úr sjóði stefnumótandi byggðaáætlunar vegna verslunar í dreifbýli

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Að þessu sinni var 30 milljónum kr. úthlutað til verslunar í dreifbýli fyrir árin 2022 og 2023. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstu dögum. Markmiðið er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu. Framlögin eiga að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, til dæmis með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Alls bárust ellefu umsóknir og samtals var sótt um kr. 41.549.550. Verkefnin sem hljóta styrk eru:  Verslun í Árneshreppi hlýtur styrk að upphæð kr. 6.000.000.  Pöntunarþjónusta Hafnartanga, Bakkafirði. Tilraunaverkefni um pöntunarþjónustu, framhald fyrra verkefnis frá 2019 sem er lokið. Verkefnið er styrkt um kr. 1.644.000.  Verslunarfélag Drangsness. Smásöluverslun, póstþjónusta, bensín- og olíuafgreiðsla, samfélagshús. Verslunin er styrkt um kr. 7.800.000.  Hríseyjarbúðin ehf. Verslunin hlýtur styrk til kaupa á tækjum og búnaði og til rekstrar að upphæð kr. 4.730.000.  Verslun í Grímsey hlýtur rekstrarstyrk að upphæð kr. 2.000.000.  Lágvöruverslunin Skerjakolla á Kópaskeri. Verslunin hlýtur styrk vegna endurbóta á húsnæði kr. 2.826.000.  Gvendarkjör, Kirkjubæjarklaustri. Ljúka á endurbótum á húsnæði og kaupa tæki og búnað. Verslunin er styrkt um kr. 2.500.000.  Verslunin Urð ehf., Raufarhöfn. Verslunin hlýtur styrk til viðhalds á húsnæði, kr. 1.000.000 árið 2022 og kr. 1.500.00 árið 2023, alls 2.500.000 kr. Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefnd sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu, Sigurður Árnason, sérfræðingur á Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Með valnefnd starfaði Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun innviðaráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Frétt af vef Stjórnarráðsins.

Meirihluti vill stytta þjóðveginn sunnan Blönduóss

Meirihluti vill stytta þjóðveginn sunnan Blönduóss Samkvæmt nýrri netkönnun sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri framkvæmdi fyrir SSNE um innviði á Norðurlandi Eystra telja 43% þátttakenda þjóðvegina á svæðinu frekar eða mjög góða, hins vegar telja aðeins 9% stöðu sveitavega frekar eða mjög góða og 68% telja þá frekar eða mjög slæma. Telja mikilvægast að fækka einbreiðum brúm Þátttakendur voru beðnir um að velja þær þrjár endurbætur á innviðum sem þeir teldu mikilvægastar á næstu árum og völdu þá flestir að fækka einbreiðum brúm, næst flestir að laga hættulega staði í vegakerfinu og þar á eftir að leggja bundið slitlag á malarvegi. Athygli vekur hve mikill munur er milli svara eftir búsetu. Til dæmis sögðu 90% íbúa Fjallabyggðar það mikilvægt að gera jarðgöng, en einungis 12% íbúa Húsavíkur og Norður-Þingeyjarsýslu. Þátttakendur voru spurðir um mikilvægi breytinga á Hringvegi milli Akureyrar og Reykjavíkur, sú tillaga sem naut mests stuðnings var að stytta þjóðveginn, en 63% svarenda sögðu frekar eða mjög mikilvægt að stytta þjóðveginn um 15 km sunnan Blönduóss (Húnavallaleið). Spurt var einnig um jarðgöng undir Öxnadalsheiði, ný Tröllaskagagöng (löng jarðgöng norðar á Tröllaskaga, t.d. undir Hörgárdalsheiði, og um 6 km styttingu í Skagafirði (Vindheimaleið). 89% telja mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur sé á sama stað 92% svarenda sögðust mjög eða frekar sammála því að Reykjavíkurflugvöllur væri nauðsynlegur til að halda tengslum við höfuðborgina. Jafnframt sögðust 89% svarenda frekar eða mjög sammála þeirri staðhæfingu að mikilvægt væri að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er staðsettur nú. Athyglisvert er að 80% svarenda 65 ára og eldri sögðust mjög sammála þessu en einungis 57% svarenda á aldrinum 20-45 ára. Í takt við þetta sögðust 88% mjög eða frekar ósammála staðhæfingunni: mér hugnast vel að miðstöð innanlandsflugs flytjist til Keflavíkurflugvallar. Einnig sögðu 88% þátttakenda frekar eða mjög sammála því að mikilvægt væri að efla þjónustu í landshlutanum ef flugvöllurinn í Reykjavík leggst af. Þá sögðust 65% frekar eða mjög sammála því að samgöngur um landleiðina verði mikilvægari í framtíðinni. Segja búsetuskilyrði batna með millilandaflugi Um fjórðungur svarenda (26%) höfðu nýtt sér nýhafið millilandaflug frá Akureyrarflugvelli, en 77% höfðu áform um að nýta sér það á næstu 6 mánuðum. 86% svarenda sögðust frekar eða mjög sammála því að búsetuskilyrði sín batni við að fá reglulegt millilandaflug frá Akureyrarflugvelli. Svarendur búsettir á Akureyri og nágrenni Akureyrar voru einkum mjög sammála þessari staðhæfingu (70% á Akureyri og 72% á Akureyri og nágrenni, samanborið við 43% á Húsavík). Telja innviði fyrir rafbíla ábótavant Þátttakendur voru spurðir út í rafbílaeign og innviði. Einungis 7% áttu rafbíl en 37% sögðust stefna að því að kaupa slíkan innan þriggja ára. Tæpur helmingur (46%) sagðist ekki ætla að fá sér rafbíl. Þeir sem áttu rafbíl höfðu lang flestir (60%) átt hann í eitt ár. Einungis 6% svarenda voru frekar eða mjög sammála því að hraðhleðslustöðvar væru á nægilega mörgum stöðum við þjóðveginn. Enn færri, eða 3.9%, sögðust frekar eða mjög sammála því að hraðhleðslustöðvar væru nægilega margar á hverjum stað við þjóðveginn. 60% voru frekar eða mjög ósammála því að rafbílar hefðu nægilega drægni fyrir langferðir. Einungis 14% voru frekar eða mjög sammála að rafbílar henti til vetraraksturs. Ríflega helmingur þeirra í Eyjafjarðarsveitar og Hörgársveitar vinna á Akureyri Íbúar á Norðurlandi Eystra sækja margir hverjir atvinnu í öðru bæjarfélagi en því sem þeir búa í. Algengast virðist að íbúar í nærliggjandi byggðum við Akureyri sæki vinnu þangað. Til dæmis sækja 54% íbúa Eyjafjarðarsveitar sem tóku þátt í könnuninni atvinnu til Akureyrar sem og 63% íbúa Hörgársveitar, og 27% íbúa Svalbarðsstrandarhrepps. Þeim fækkar sem sækja atvinnu til Akureyrar eftir því sem lengra er að fara á milli, 8% íbúa Dalvíkur sækja vinnu til Akureyrar og enginn frá Húsavík né Siglufirði sótti atvinnu til Akureyrar í þessari könnun. Einnig sækja íbúar atvinnu til mismunandi bæja innan sama sveitarfélags, 23% íbúa Ólafsfjarðar sækja atvinnu til Siglufjarðar og 16% íbúa Siglufjarðar sækja atvinnu í Ólafsfirði. Könnunin var framkvæmd í september 2022 og bárust alls 969 svör, 51.39% svarenda voru konur en 48.61% karlar.

Opið fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Betri Bakkafjarðar

Auglýst er eftir umsóknum um styrki til verkefna í tengslum við verkefnið „Betri Bakkafjörður“ fyrir árið 2023.
Dagskrá aukaþings SSNE í desember 2022.

Aukaþing SSNE haldið í desember

Rafrænt aukaþing SSNE verður haldið 2. desember næstkomandi

Á þitt fyrirtæki heima á fjárfestahátíð Norðanáttar?

Norðanátt leitar eftir nýsköpunarverkefnum í leit að fjármögnun fyrir Fjárfestahátíðina á Siglufirði

Stýrihópur um byggðamál heimsótti Norðurland eystra

SSNE tók á móti stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál á Akureyri 1. nóvember. Í stýrihópnum, sem gjarnan gengur undir heitinu „sóknarnefndin“, sitja fulltrúar allra ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk áheyrnafulltrúa frá Byggðastofnun og landshlutasamtökum sveitarfélaga. Farið var yfir framvindu Sóknaráætlunar Norðurlands eystra og nokkur áhersluverkefni kynnt sérstaklega. Dæmi um verkefni sem unnið er að um þessar mundir er Fiðringur, hæfileikakeppni grunnskólanemenda, Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands og mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í landnýtingu, orkuskiptum og úrgangsmálum. Hvað síðastnefnda verkefnið varðar er verið að mynda fimm spretthópa á sviði landnýtingar, orkuskipta og úrgangsmála. Hver hópur er skipaður þremur sérfræðingum sem hafa tíu mánuði til að skila skýrum tillögum um framkvæmanleg verkefni sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk annars umhverfisávinnings fyrir landshlutann. Í almennum umræðum um sóknaráætlanir landshluta lýsti fulltrúi SSNE því mati sínu að sóknaráætlanir landshluta hafi stuðlað að valdeflingu heimamanna og stóreflt samstarf innan landshlutans, bæði milli sveitarfélaga og íbúanna sjálfra. Í lok fundarins var sérstaklega rætt um millilandaflug um Akureyrarflugvöll og fékk hópurinn kynningu frá Hjördísi Þórhallsdóttur flugvallarstjóra, Arnheiði Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands og Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni framkvæmdastjóra Niceair. Þess má geta að Niceair fékk styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem gerði þeim kleift að ráðast í rannsóknir áður en félagið hóf flug. Fundurinn var haldinn í Menningarhúsinu Hofi. Áður en fundurinn hófst sagði Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri frá starfsemi Menningarfélags Akureyrar. Þá kynnti Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistastjóri starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í glæsilegu hljóðveri hennar, en hljómsveitin er ein af þeim sem fengið hafa styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem gaf þeim byr undir báða vængi.

Góð ráð í umsóknarskrifum - Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra

Umsóknarfrestur er til kl. 13:00 þann 17. nóvember næstkomandi. Hér má finna góð ráð fyrir umsóknarskrifin.
Getum við bætt síðuna?