22. maí
Samanburður á skilvirkni sveitarfélaga í úrgangsstjórnun á Íslandi
Opin málstofa í Viðskiptadeild!
🗣 Að þessu sinni mun Guðmundur Kristján Óskarsson dósent við Viðskiptadeild flytja erindið:
Samanburður á skilvirkni sveitarfélaga í úrgangsstjórnun á Íslandi: Áhrif samfélagslegra og landfræðilegra þátta - Niðurstöður úr DEA greiningu
📍 Málstofan fer fram í stofu M101 og verður einnig streymt frá henni hér: https://eu01web.zoom.us/j/68090798746
✨ Í erindinu fjallar Guðmundur um nýútkomna grein sem ber heitið "Evaluating municipal solid waste management efficiency in Iceland: A data envelopment analysis of socioeconomic and geographic influences" og birtist í tímaritinu Environmental and Sustainability Indicators í byrjun apríl. Þar er beitt gagnvirkni greiningu (Data Envelopment Analysis, DEA) til að bera saman skilvirkni sveitarfélaga á Íslandi með tilliti til úrgangsstjórnunnar. Notuð voru bæði inn- og úttaksmiðuð DEA líkön ásamt aðhvarfsgreiningu, þar sem kostnaður á íbúa, magn úrgangs á íbúa, endurvinnsluhlutföll og lýðfræðilegar og landfræðilegar breytur voru metnar. Niðurstöðurnar, sem byggðar eru á gögnum frá 48 sveitarfélögum á árunum 2019–2021, sýna verulegan breytileika í skilvirkni milli sveitarfélaga. Þær sýna tengsl skilvirkni við íbúafjölda, meðalaldur, ráðstöfunartekjur ásamt landfræðilegri stærð og hlutfalls íbúa utan þéttbýlis í sveitarfélögum. Greiningin leiðir í ljós að engin ein breyta skýrir skilvirkni að fullu, heldur er samspil efnahagslegra, félagslegra og staðbundinna þátta afgerandi. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að þróa sérsniðnar lausnir fyrir minni sveitarfélög fjarri höfuðborgarsvæðin. Slík nálgun er lykilatriði í að efla sjálfbærni, draga úr urðun og auka endurvinnslu í samræmi við stefnumörk Evrópusambandsins og íslenskra stjórnvalda.