Fara í efni

Tímamótahlutverk Akureyrar í nýjum stjórnarsáttmála

Akureyri. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands
Akureyri. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Tímamótahlutverk Akureyrar í nýjum stjórnarsáttmála

Í október 2020 var skipaður starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samvinnu við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri með það hlutverk að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni.

Starfshópurinn var skipaður í framhaldi þess að verkefnið var samþykkt sem eitt af áhersluverkefnum SSNE á grundvelli Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024. Skýrslan var kynnt á fundi á Akureyri mánudaginn 6. september og jafnframt afhent Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

 Í skýrslu starfshóps  var meðal annars lagt til að Akureyri verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur:,,Mótuð verður stefna þar sem svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni er skilgreint og stuðlar að uppbyggingu sem geti boðið upp á fjölbreytileika í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum", segir í skýrslu.

Tímamót og ávinningur fyrir Norðurland eystra
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að mótuð verði stefna um að skilgreina frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. ,,Þetta eru mikil tímamót og ávinningur af því að skilgreina Akureyri sem svæðisborg. Að fela henni formlega hlutverk sem slíkri mun hríslast út til annarra sveitarfélaga á öllu Norðurlandi og jafnvel austur á land", segir Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE.  Þetta sé viðurkenning stjórnvalda á að byggja upp annað borgarsvæði á Íslandi.

Hilda Jana Gísladóttir, stjórnarformaður SSNE, segir ánægjulegt að sjá þetta sett fram með svo skýrum hætti í stjórnarsáttmálanum. „Mér finnst þetta töluverð tímamót. Og þetta er mikilvæg varða á þessari leið, að ekki bara sveitarfélagið Akureyrarbær, heldur sveitarfélögin á Norðurlandi eystra og síðan ríkisvaldið og í stjórnarsáttmálanum kemur fram að við erum öll komin á sömu blaðsíðu. Þannig að ég ætla að vera nokkuð bjartsýn um að það geti orðið heilmikill árangur í þessu.“

Stjórnarformaður SSNE telur sögulegt að svæðisbundið hlutverk sveitarfélags á Íslandi sé skrifað inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Verið sé að slá nýjan tón í umræðunni um byggðamál og skora á hólm þá stefnu að aðeins skuli vera ein borg eða borgarsvæði og svo landsbyggð með minni byggðakjörnum. „Og nú erum við kannski bara stödd þar að við erum sammála um að byggja upp aðra borg á Íslandi. Og einhvers staðar hefði það nú þótt fréttnæmt.“

Sjá einnig: 

Starfshópur afhendir skýrslu um svæðisbundið hlutverk Akureyrar
Rúv.is: ,,Svæðisborgin" Akureyri í nýjum stjórnarsáttmála

 

 

 

 

 

 

 

Getum við bætt síðuna?