Fara í efni

Starfshópur afhendir skýrslu um svæðisbundið hlutverk Akureyrar

Mynd: MN
Mynd: MN

Starfshópur afhendir skýrslu um svæðisbundið hlutverk Akureyrar

Í október 2020 var skipaður starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í samvinnu við Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri með það hlutverk að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni.

Starfshópurinn var skipaður í framhaldi þess að verkefnið var samþykkt sem eitt af áhersluverkefnum SSNE á grundvelli Sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2020-2024. Skýrslan var kynnt á fundi á Akureyri í gær, mánudaginn 6. september og jafnframt afhent Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Birgir Guðmundsson, dósent og formaður starfshópsins. Mynd: Stjórnarráðið

„Það má segja að heimafólk á Norðurlandi eystra hafi slegið nýjan tón í sóknaráætlun sinni árið 2020, þegar sett var fram það markmið að skilgreina Akureyri sem borgarsvæði. Nú hefur verið unnið áfram með þá hugmynd í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Byggðastofnun, SSNE, Akureyrarbæ og RHA. Við sem skipuðum starfshóp um svæðisbundið hlutverk Akureyrar höfum skilað okkar tillögum til ráðherra. Aðaltillagan er metnaðarfull og felst í því að Akureyri, með baklandi í nærliggjandi svæði, verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu. Ég bind miklar vonir við að tillagan hljóti hljómgrunn hjá ríkisvaldinu og markvisst verði farið í vinnu við þau áherslatriði sem við höfum nú sett fram", segir Hilda Jana Gísladóttir, formaður SSNE og fulltrúi Akureyrarbæjar í starfshópnum.

Aðaltillaga hópsins er eins og segir í skýrslunni að: ,,Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði í byggðastefnu stjórnvalda flokkuð sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.”

Í skýrslu sinni, hefur starfshópurinn skilgreint svæðisborg sem þéttbýliskjarna sem er það stór að þar þrífast sjálfbær atvinnutækifæri og þjónusta á flestum sviðum daglegs lífs og almenningur hefur tækifæri til að njóta fjölbreyttrar menntunar, menningar og mannlífs og býður upp á greiðar samgöngur milli landshluta og til útlanda. Akureyri verði þannig sérstakt byggðastig milli höfuðborgarinnar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum og fái því bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Þetta nýja byggðastig mun auk hefðbundinna hlutverka stærri þéttbýliskjarna bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar.

Níu áhersluatriði 

Dregin voru fram níu áhersluatriði til stuðnings við aðaltillögu á sviði heilbrigðismála, félagsþjónustu, menningar, menntunar, norðurslóða, raforku, samgöngumála, stjórnsýslu og öryggismála.

  • Samgöngumál: Reglulegt millilandaflug fari í fastan farveg sem fyrst, stjórnvöld tryggi áframhaldandi uppbyggingu og að framlög séu næg til að tryggja aðra flugtengingu inn í landið.
  • Raforka: Ágreiningur um flutningsleiðir sem tryggja afhendingaröryggi verði leystur.
  • Menning: Að formfest verði með lögum, að hlutur Akureyrar í heildarframlögum til menningarmála sé í einhverju samræmi við áhrifasvæði svæðisborgarinnar og mikilvægi hennar þannig virt í verki. Þetta gæti t.a.m. falist í tvöföldun á framlögum til MAk.
  • Norðurslóðir: Skilgreind verði þau verkefni og það fjármagn sem fylgja þeirri viðurkenningu stjórnvalda að Akureyri sé miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Háskólinn á Akureyri og stofnanir innan málaflokksins á háskólasvæðinu efli samvinnu og sýnileika.
  • Stjórnsýsla: Stjórnsýsla ríkisins verði efld á Akureyrarsvæðinu og skoðað verði að staðsetja nýja starfsemi á vegum ríkisins þar, samhliða því að haldið verði áfram á þeirri braut að skapa störf sem eru óháð staðsetningu.
  • Menntun: Háskólanum á Akureyri og framhaldsskólum á svæðinu sé tryggt nauðsynlegt fjármagn til rekstrar og aukins fjölbreytileika í námsframboði.
  • Heilbrigðismál: SAk verði gert að háskólasjúkrahúsi.
  • Félagsþjónusta: Aukið verði samstarf milli Akureyrar og annarra sveitarfélaga og unnið að víðtækari útfærslu á notkun velferðartækni á áhrifasvæði svæðisborgar.
  • Öryggismál: Að starfsemi lögreglu (sérsveitar) verði ef efld samhliða vaxandi borgarsamfélagi og hafinn undirbúningur að byggingu eða opnun fangelsis að nýju.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þakkaði starfshópnum fyrir góða og fræðilega úttekt og vel mótaðar tillögur. ,,Skýrslan er mikilvægt framlag í umræðu og aðgerðir til að efla byggðarlög og búsetu um allt land. Akureyri er höfuðból Norðurlands og gegnir þýðingarmiklu hlutverki á sínu svæði og fyrir landið allt, “ sagði Sigurður Ingi og bætti við að tillögur starfshóps yrðu teknar til gaumgæfilegrar skoðunar.

Nánar um starfshópinn

Starf hópsins fólst í að samþætta áhersluverkefni Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra um borgarhlutverk Akureyrar og áherslur í byggðaáætlun um sjálfbæra þróun, sameiginlega stefnumörkun fyrir landshluta og sérstöðu Akureyrar sem stærsta þéttbýlis utan höfuðborgarsvæðisins.

Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri var formaður starfshópsins og fulltrúi ráðherra. Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, sátu í starfshópnum sem fulltrúar SSNE. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, og Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi, voru fulltrúar Akureyrarbæjar í starfshópnum. Með hópnum störfuðu Hanna Dóra Hólm Másdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Reinhard Reynisson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, Baldvin Valdemarsson, sviðsstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE og Arnar Þór Jóhannesson og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingar hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Í skýrslunni er byggt á fræðilegum heimildum, sögulegum gögnum og könnunum og viðtölum sem voru sérstaklega tekin fyrir þetta verkefni.

Hér má lesa skýrsluna

 
Umfjöllun:
Stjórnarráðið: Starfshópur leggur til að Akureyri verði svæðisborg með skilgreinda ábyrgð
Rúv: Leggja til að Akureyri verði „svæðisborg“
Kaffid.is: Starfshópur leggur til að Akureyri verði svæðisborg
Akureyri.net: Hvað merkir að vera ,,svæðisborg"?
RHA: Skýrslu um svæðisbundið hlutverk Akureyrar skilað til ráðherra

 

 

Getum við bætt síðuna?