Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - janúar

Pistill framkvæmdastjóra - janúar

Þá er janúarmánuður loks yfirstaðinn og við finnum kraftinn sem kemur með hverri birtustundinni sem bætist við. Birtunni fylgir aukinn kraftur og alveg ljóst að SSNE hóf árið af miklum krafti.

Töluverðar breytingar urðu á starfsmannahópnum um áramótin, en þá hóf Romi Schmitz störf sem hjá okkur sem verkefnastjóri Betri Bakkafjarðar í stað Gunnars Más Gunnarssonar sem sinnt hefur starfinu undanfarin tvö ár. Gunnar Már er þó ekki að fara langt, en hann mun starfa áfram hjá SSNE í sérverkefni fyrir Langanesbyggð, með stuðningi innviðaráðuneytisins. Þá hóf Sigurborg Ósk Haraldsdóttir einnig störf í janúar, en hún kemur inn í umhverfisteymi SSNE í stað Kristínar Helgu Schiöth sem hefur verið ráðin framkvæmdastjóri verkefnisins Líforkuver í Eyjafirði, sem nú hefur verið stofnað sérstakt félag um. Þó þau séu ekki að fara langt vil ég nýta tækifærið og þakka Gunnari Má og Kristínu Helgu fyrir vel unnin störf síðustu misseri.

Þessa dagana stendur yfir undirbúningur á málþingi sem SSNE heldur í febrúar, en það hefur yfirskriftina Út um borg og bý, en þar verður meðal annars fjallað um samstarf sveitarfélaga, drög að borgarstefnu Íslands, auk þess sem rætt verður um hvað það er sem gerir aðlaðandi bæi. Skráning og dagskrá á málþingið má finna hér en það verður haldið í Hofi á Akureyri þann 9. febrúar, en málþinginu verður jafnframt streymt.

Í janúar fór fram Ferðaþjónustuvikan sem er regnhlífaviðburður ferðaþjónustunnar sem haldinn er í Reykjavík. Þangað mættu galvaskir ferðaþjónar af Norðurlandi og tóku þátt í fjölbreyttum viðburðum og ber þar helst að nefna frábæran lokaviðburð Straumhvarfa sem er vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu, og auðvitað lokaviðburð ferðaþjónustuvikunnar, Mannamót Markaðsstofa landshlutanna sem áttu 10 ára afmæli. Rúmlega 60 ferðaþjónar af Norðurlandi voru þar mættir á Mannamót til að kynna allar þær frábæru vörur og þjónustu sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Í febrúar er fyrirhugað að framkvæmdastjóri SSNE fari á flakk um svæðið og hitti sveitarstjórnir allra sveitarfélaganna, en slíkir fundir hafa reynst mjög vel til að deila þekkingu og ræða áherslur ársins. Gefst þá einnig betra tækifæri til að ræða tækifæri og áskoranir hvers sveitarfélags fyrir sig. Reikna má með að framkvæmdastjóri hafi samband fljótlega til að koma slíkum fundum á dagskrá.

Gleðilegan febrúar!

Getum við bætt síðuna?