Fara í efni

Ársskýrsla SSNE 2021

 

ÁVARP FRAMKVÆMDASTJÓRA

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á starfsemi SSNE á árinu 2021 og hafði ráðandi áhrif á möguleika okkar til að vera í því virka sambandi við sveitarfélög og aðra hagaðila sem við hefðum viljað. Segja má að SSNE hafi starfað í skugga Covid-19 nánast frá stofnun. Fjarfundir eru okkar aðal samskiptaleið en við fögnum því að hafa getað heimsótt aðila og einstaklinga á svæðinu þegar rofað hefur til í faraldrinum og við höfum líka tekið á móti fjölda gesta sem heimsóttu okkur til að fræðast um starfsemi SSNE, tækifæri og áskoranir í landshlutanum, skiptast á upplýsingum og skoðunum. Atvinnuþróun og nýsköpun hefur blómstrað sem og skapandi greinar í verkefnum sem SSNE kemur að svo ekki sé minnst á umhverfismálin sem sannarlega tóku rými á árinu.

Mikil áhersla var á innri uppbyggingu árið 2021 en það fól m.a. í sér vinnu við stefnuskjöl og innleiðingu á stefnum og ferlum, sérstaklega í tengslum við mannauðstengd mál. Einnig var gert átak í skjalamálum og ekki vanþörf á. Skjöl frá félögunum þremur sem sameinuðust í SSNE voru fyrirferðarmikil og mest af þeim á pappír.  Nú hefur þeim verið komið í viðeigandi vörslu og þeim skjölum eytt sem mátti eyða. 

SSNE opnaði starfsstöð í Ólafsfirði í ágúst. Það var stór áfangi í okkar huga og mjög ánægjulegt að vera kominn með viðveru á Tröllaskaga. Þar með má segja að SSNE hafi tekist að teygja anga sína um allt starfssvæðið og skapað þannig nálægð við öll sveitarfélögin og aðra hagaðila. Einnig var unnið að endurskoðun húsnæðismála á Húsavík og stefnt er að því að SSNE flytji starfsemi sína í skrifstofuaðstöðu hjá Þekkingarneti Þingeyinga sem er að byggja upp nýsköpunar- og þekkingarmiðstöð en þar munu aðilar í nýsköpun og frumkvöðlastarfi koma saman ásamt aðilum í þekkingargeiranum. Fjölmörg tækifæri felast í því að flétta starfsemi SSNE á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og skapandi greina inn í það umhverfi. Það er þekkt að þar sem ólíkir aðilar, sem vinna að sambærilegum eða skyldum verkefnum koma saman og leggja saman krafta sína, þar skapast umhverfi sem margfaldar sköpunarkraft og hugmyndauðgi, eykur slagkraft og býr til vettvang þar sem verkefni þróast, vaxa og dafna.

Stefnumótun landshlutans í „stóru málunum“ er hluti þeirra mikilvægu verkefna sem ýtt var úr vör á árinu. Við rekum okkur ítrekað á það hversu mikilvægt það er að landshlutinn móti sér skýra sýn og sæki fram á grundvelli sameiginlegrar stefnu sem byggir áhelstu áherslumlandshlutans þegar kemur að stóru málunum? Það er gríðarlega mikilvægt fyrir SSNE að hafa skýra stefnu til að byggja á þegar við rækjum það hlutverk okkar að gæta hagsmuna heildarinnar m.a. gagnvart ríkisvaldinu. Ég sé það sem eitt af forgangsverkefnum næstu missera og ára að vinna stefnumótun fyrir landshlutann í helstu málaflokkum eins og samgöngustefnu, innviðastefnu, endurskoða stefnu um meðhöndlun úrgangs, umhverfisstefnu og þannig mætti lengi telja.

Það var mikið um að vera á vettvangi starfsmannamála. Fimm einstaklingar hættu störfum hjá SSNE á árinu 2021 en þau eru:

Vigdís Rún Jónsdóttir, verkefnastjóri menningarmála, hún tók við starfi verkefnastjóra sýninga hjá Listasafni Íslands, Ólafur Áki Ragnarsson, verkefnastjóri „Betri Bakkafjörður“ lét af störfum vegna aldurs, Baldvin Valdemarsson, sviðsstjóri tók við starfi forstöðumanns RHA, Helga María Pétursdóttir, verkefnastjóri fjármála og reksturs fór til Háskólans á Akureyri í starf verkefnastjóra gagnagreiningar og fjárhags og Silja Jóhannesar Ástudóttir, verkefnastjóri umhverfismála lét af störfum í lok árs og snéri sér að þróun og uppbyggingu á eigin nýsköpunarverkefni. Ég vil þakka þessu ágæta fólki fyrir ánægjulegt samstarf og mjög gott starf í þágu SSNE á starfstíma þeirra og óska þeim velfarnaðar í því sem þau taka sér fyrir hendur. 

Sjö nýjir starfsmenn voru ráðnir til SSNE á liðnu ári. Þau eru:

Anna Lind Björnsdóttir, verkefnastjóri atvinnuþróunar og nýsköpunar, Arna Björg Bjarnadóttir, verkefnastjóri „Glæðum Grímsey“, Gunnar Már Gunnarsson, verkefnastjóri „Betri Bakkafjörður“, Hildur Halldórsdóttir, verkefnastjóri menningarmála, atvinnuþróunar og nýsköpunar, Rögnvaldur Guðmundsson, verkefnastjóri fjármála og reksturs, Kolfinna María Níelsdóttir, sem sér um kynningar- og markaðsmál, var ráðin tímabundið og Smári Jónas Lúðvíksson var ráðinn í lok árs í starf verkefnastjóra umhverfismála. Að auki starfaði Gerður Sigtryggsdóttir hjá SSNE í nokkra mánuði í átaksverkefni í skjalamálum. 

Starfsmenn SSNE í ársbyrjun 2022.

Það fylgja því áskoranir að takast á við svo mikla starfsmannaveltu en við höfum verið ákaflega lánsöm með nýtt starfsfólk sem komið hefur til okkar og tekið við keflinu af þeim sem hættu. Við búum að því að hjá starfar öflugur kjarni reynslubolta sem tryggja yfirfærslu þekkingar og reynslu til hópsins. Það er mikill kraftur, hugmyndaauðgi og frumkvæði í samheldnum hópi starfsfólks SSNE og fram undan eru spennandi tímar með nýjum verkefnum og verðugum áskorunum.

Ég þakka starfsfólki SSNE fyrir þeirra frábæra starf á árinu 2021. Saman hefur okkur tekist að byggja upp öflugan vinnustað sem m.a. byggir á dugnaði, þrautsegju og útsjónarsemi starfsfólksins. Starfsandinn er frábær og einkennist af samheldni, opinskáum og heiðarlegum samskiptum og gleði.


Með kærri kveðju
Eyþór Björnsson

 


STARFSMENN OG STARFSSTÖÐVAR
            

Starfsstöðvar SSNE:
Húsavík:Ari Páll Pálsson, Hildur Halldórsdóttir, Smári Jónas Lúðvíksson
Raufarhöfn: Nanna Steina Höskuldsdóttir
Ólafsfjörður: Anna Lind Björnsdóttir
Akureyri:  Arna Björg Bjarnadóttir, Elva Gunnlaugsdóttir, Kolfinna María Níelsdóttir, Rebekka Kristín Garðarsdóttir, Rögnvaldur Guðmundsson

Viðvera SSNE
Bakkafjörður: Gunnar Már Gunnarsson
Dalvík og Siglufjörður: Anna Lind Björnsdóttir
Grímsey: Arna Björg Bjarnadóttir

Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri er með starfsstöð á Akureyri en með reglulega viðveru á öðrum stöðum.

 STJÓRN SSNE


Frá vinstri: Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar, Sigurður Þór Guðmundsson, Eva Hrund Einarsdóttir, Jón Stefánsson, Aldey Unnar Traustadóttir, varamaður Kristjáns Þórs Magnússonar,
Þröstur Friðfinnsson og Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri. Á myndina vantar Helgu Helgadóttur.

SKÝRSLA STJÓRNAR

Liðið starfsár var farsælt hjá SSNE, samvinna kjörinna fulltrúa hefur verið öflug og framúrskarandi starfsfólk samtakanna hefur unnið markvisst að framgangi þeirra áherslna sem ársþing og stjórn samtakanna hafa sett fram.

Sóknaráætlun og meðfylgjandi aðgerðaráætlun er sannarlega leiðarljós samtakanna sem markvisst er unnið eftir. Við endurskoðun sóknaráætlunar hafa verið settir fram mælikvarðar og fer nú stöðumat fram tvisvar sinnum á gildistímanum. Áhersluverkefni Sóknaráætlunar hafa mörg hver tekið á flug og verkefni Uppbyggingarsjóðs tekist vel til og skipt máli, ekki síst á tímum heimsfaraldurs, sem skiljanlega hefur verið mikil áskorun. Sem dæmi um áhersluverkefni má nefna Veltek - velferðartækniklasa, Niceair nýtt flugfélag, samgöngustefnu og innviðagreiningu, listnám á háskólastigi, Ásgarð – skóli í skýjunum, Upptaktinn – tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna á Norðurlandi eystra, Norðurslóðamiðstöð Íslands, nýsköpun í norðri, svæðisbundið hlutverk Akureyrar og Eim – þróunar og nýsköpunardeild á sviði sjálfbærni, grænnar orku og bættrar auðlindanýtingar.

Það er gleðilegt og eftirtektarvert að sjá að við gerð Hvítbókar um byggðamál var markvisst samráð haft við landshlutasamtökin og má þar nú sjá sérstaklega þrjú verkefni sem eiga skírskotun í sóknaráætlun og áhersluverkefni SSNE sem og áskorun ársþings SSNE. Er þar átt við miðstöð Norðurslóðamála, svæðisbundið hlutverk Akureyrarsvæðisins og áherslu á að skipan í stjórnir, ráð, nefndir og starfshópa á vegum ríkisins endurspegli búsetudreifingu í landinu.

Á árinu var skipað í fagráð umhverfismála, en ársþing samtakanna hafði lagt áherslu á að umhverfismálin myndu fá veigamikinn sess í starfi SSNE. Þá hefur ársþing SSNE einnig lagt áherslu á að sækja í auknu mæli skoðanir og hagsmuni ungs fólks, sem og fólks af erlendum uppruna og er nú unnið að stofnun bæði ungmennaráðs og fjölmenningarráðs samtakanna.

Fjölmargt annað var um að vera í starfi SSNE á árin 2021.  Má þar nefna að gerðir voru samningar um rekstur áfangastaðastofu við Markaðsstofu Norðurlands, tekin ákvörðun um að SSNE verði með starfsstöð í Hraðinu á Húsavík, starfsstöð á Tröllaskaga var opnuð, hagkvæmnimat á líforkuveri var sett af stað, siðareglur SSNE endurskoðaðar og samþykktar og unnið að samstarfi sveitarfélaga um svæðisáætlun um meðhöndlun sorps. Haldnar voru ýmsar ráðstefnur og hraðlar auk þess sem unnið var að umsögnum um mál í samráðsgátt stjórnvalda sem og fjárlög.Það er mikill kraftur sem býr í SSNE og skiptir sköpum sú mikla samstaða sem ríkir á milli kjörinna fulltrúa og starfsfólks samtakanna, sem og öflugt samstarf samtakanna við ríkisstofnanir, atvinnulíf og ríkisvaldið. Það er alveg ljóst að bestur árangur næst þegar sem flestir róa í sömu átt.

F.h. stjórnar SSNE

Hilda Jana Gísladóttir
Formaður

SÓKNARÁÆTLUN NORÐURLANDS EYSTRA 2021

Sóknaráætlun Norðurlands eystra var unnin 2019 og tók gildi árið 2020. Hún var gerð til 5 ára og gildir því til ársloka 2024. Hún byggist á stöðumati landshlutans en á því byggist framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum en áherslur hennar hafa áhrif á forgangsröðun verkefna og ráðstöfun fjármuna í landshlutanum. Hún skiptist í þrjá meginflokka; atvinnuþróun og nýsköpun, menningu og umhverfismál.

Endurskoðun
Á ársþingi SSNE í október 2020 var starfsmönnum SSNE falið að endurskoða gildandi sóknaráætlun með það fyrir augum að einfalda hana, fækka áhersluatriðum og gera hana gerlegri til eftirfylgni. Ekki var lagt upp með að safna nýjum hugmyndum eða breyta hugmyndafræðilegri nálgun. Í samráði við fagráð atvinnuþróunar og nýsköpunar, menningar og umhverfismála var endurskoðað skjal lagt fyrir þing SSNE í apríl 2021 og samþykkt. Aukin áhersla var lögð á stuðning við jaðarbyggðir, fjölmenningu og fjölbreytileika, sem og meiri samvinnu ólíkra aðila. Þá var markmiðinu um aukna hamingju landshlutans gert hærra undir höfði og gert að yfirmarkmiði allra málaflokka.

Núllpunktagreining
Þegar endurskoðuð markmið sóknaráætlunar lágu fyrir og voru samþykkt af þingi hófst vinna við núllpunktagreiningu mælanlegra markmiða. Í atvinnuþróunar og nýsköpunarkaflanum reyndist nokkuð auðvelt að greina núllpunkta mælanlegra markmiða og setja ný markmið í kjölfarið. 

Mælanleg markmið menningar þarfnast frekari rýni þar sem þau ganga að miklu leyti út á fjölda viðburða og verkefna sem erfitt er að henda reiður á og ekki ólíklegt að þessi hluti sóknaráætlunar verði endurskoðaður aftur. Í umhverfismálakaflanum sem er nýjasti hluti sóknaráætlunar, er ljóst að viðamikla vinnu þarf að leggjast í til að safna saman grunnupplýsingum og gera stöðumat þar sem núllpunktar liggja ekki fyrir í dag og munu ekki gera fyrr en að slíkri grunnvinnu lokinni.

 Aðgerðaáætlun
Í kjölfarið á endurskoðuninni var aðgerðaáætlun sóknaráætlunar kynnt í maí en þar eru tilteknar þær aðgerðir sem í verður ráðist til að færa okkur nær markmiðum sóknaráætlunar. Starfsáætlun samtakanna þar sem fram koma helstu verkefni starfsmanna SSNE hvert ár tekur mið af aðgerðaáætluninni og því mikilvægt að það sem í henni er sé í takt við óskir og væntingar hagaðila. Aðgerðaáætlunin er lifandi plagg sem tekur stöðugum breytingum út í gegnum líftíma sóknaráætlunarinna.

Þegar verkefnum lýkur er öðrum bætt við og eru allir hagaðilar hvattir til að koma með tillögur að aðgerðum sem miða í þá átt sem sóknaráætlunin segir til um.

Árangursmat
Vinna við árangursmat sóknaráætlunar hófst um miðbik ársins enda mikilvægt að meta reglulega hvernig miðar í átt að settum markmiðum. Hún byggist á greiningarvinnu allra þeirra verkefna sem hljóta styrki, bæði áhersluverkefni og styrki úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Kannanir eru sendar til styrkþega sem meta hvaða ávinning verkefnin þeirra eru að skila landshlutanum og að lokum eru starfsáætlanir og yfirlit yfir helstu störf starfsmanna rýnd svo tryggja megi að í gangi sé vinna sem færir okkur smátt og smátt að settu marki fyrir árslok 2024. Hluti af árangursmati sóknaráætlunar er einnig stöðumat á mælanlegum markmiðum sóknaráætlunar en það verður gert tvisvar á gildistímanum, við miðbik hans (mitt ár 2022) og lok hans (árslok 2024).

Helstu niðurstöður greiningar, þar á meðal skipting fjármagns eftir sveitarfélögum, voru kynntar á þingi SSNE í desember.

Kynningarátak

Kynningaráætlun sóknaráætlunar var búin til og eftir henni unnið en markmið hennar er að tryggja vitund og áhuga sem flestra í landshlutanum á þeim áherslum landshlutans sem sóknaráætlunin kveður á um. Sérstök áhersla var lögð á samtal um sóknaráætlun við sveitarfélögin, þingmenn og ráðuneyti, frumkvöðla, atvinnurekendur, aðila menningarlífs auk almennings þegar því var við komið. Miðlunarleiðir eru margvíslegar en SSNE eru nú með líflega heimasíðu, Facebook, Instagram, Youtube, póstlista og mánaðarlegt fréttabréf en allar þessar leiðir hafa verið nýttar til að vekja athygli og áhuga á efni sóknaráætlunar. Þá var sérstakt átak var gert í kynningarfundum til sveitarstjórna, kjörinna fulltrúa og þingmanna um endurskoðun og aðgerðaáætlun sóknaráætlunar á árinu.

Starfsmenn SSNE sem fara með umsýslu uppbyggingarsjóðsins héldu 12 staðarfundi víðsvegar um landshlutann til að hvetja til og aðstoða við styrkumsóknarskrif vegna uppbyggingarsjóðs og var ánægjulegt að geta gert það í eigin persónu á ný eftir rafræna ráðgjöf 2020 vegna Covid 19. Það má með fullvissu segja að sóknaráætlunin hafi nú verið rækilega kynnt á breiðum vettvangi með endurteknum hætti út í gegnum árið allt. 

Uppbyggingarsjóður
Úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra í byrjun febrúar en til úthlutunar voru 75 m.kr. sem var 1 m.kr. lækkun frá fyrra ári. Metfjöldi umsókna barst þetta árið, 201 umsókn í heildina sem var 27% aukning á milli ára. 85 verkefni hlutu styrk sem skiptist svona:

 

 • 34 verkefni hlutu styrk í flokki atvinnuþróunar og nýsköpunar
 • 38 verkefni hlutu styrk í flokki menningar
 • 13 stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningar voru veittir

Hægt er að nálgast upplýsingar um öll verkefnin sem hlutu styrk hér. Til að auka skilvirkni umsýslunnar og upplýsingagjöf til styrkþega var nú í fyrsta skipti boðið upp á rafrænar vinnustofu þar sem farið var rækilega yfir næstu skref ferlisins og var hún vel sótt. Þá var tekið skref í áttina að því að auka aðgengi innflytjenda að upplýsingum um uppbyggingarsjóðinn með því að hefja þýðingu á nauðsynlegu ítarefni sjóðsins yfir á ensku.

Nýr formaður úthlutunarnefndar, Katrín Sigurjónsdóttir, sat nú í nefndinni í fyrsta sinn í stað Evu Hrundar Einarsdóttur en aðrar breytingar voru ekki gerðar á nefndinni. Eftirfarandi aðilar sátu í úthlutunarnefnd vegna styrkveitinga fyrir árið 2021:

 • Katrín Sigurjónsdóttir, formaður úthlutunarnefndar
 • Hulda Sif Hermannsdóttir, formaður fagráðs menningar
 • Eiríkur Hauksson, formaður fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar
 • Guðni Bragason
 • Thomas Helmig

Umsýsluaðilar Uppbyggingarsjóðs eru þrír starfsmenn SSNE, Ari Páll Pálsson, Rebekka Kristín Garðarsdóttir og Vigdís Rún Jónsdóttir. Vigdís Rún lauk störfum fyrir SSNE í maí en 1. september tók nýr verkefnisstjóri menningar, Hildur Halldórsdóttir, við sem þriðji umsýsluaðili sjóðsins.

Reglulega eru tekin viðtöl við styrkþega og birt á miðlum SSNE. Þeim er ætlað að hvetja aðra til að sækja um styrki um leið og við aukum sýnileika þeirra verðugu verkefna sem unnið er að til uppbyggingar landshlutans alls.

Vert er að athuga þegar skoðuð eru gögn um skiptingu styrkja á milli sveitarfélaga að þrátt fyrir að styrkhafi sé búsettur á einum stað og flokkast staðsetning styrksins samkvæmt því, þá er fjöldi verkefna sem hafa bein áhrif á aðra staði innan landshlutans og því gefur ofangreind mynd ekki algerlega rétta mynd af skiptingu fjármuna um landshlutann.


Áhersluverkefni

Árið 2021 voru áhersluverkefnin 11 talsins. Sum þeirra voru framhald af fyrri verkefnum á meðan önnur ný bættust við. Hægt er að smella á hlekkina hér að neðan til að lesa meira um hvert og eitt verkefni auk þess sum um þau er fjallað víða í þessari ársskýrslu. Verkefnin eru samþykkt af stjórn SSNE og stýrihópi Stjórnarráðsins.

Nafn verkefnis og upphæð:

Undirbúningur að stofnun Velferðartæknimiðstöðvar (Veltek) 10.000.000 kr.
Samgöngustefna SSNE 7.500.000 kr.
Millilandaflug frá Akureyri 5.000.000 kr. 
Norðurslóðamiðstöð Íslands 14.000.000 kr. 
Nýsköpun á Norðurlandi eystra 3.000.000 kr. 
Upptakturinn - Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna á Norðurlandi eystra 1.500.000 kr. 
Listnám á háskólastigi - Fýsileikakönnun og málþing 3.700.000 kr.
Gerð kynningarefnis um atvinnu- og mannlíf á svæðinu 3.000.000 kr.
Umhverfismál á Norðurlandi eystra 6.000.000 kr. 
Safnastefna Norðurlands eystra 3.000.000 kr.
Ásgarður - Skóli í skýjunum 4.000.000 kr. 

 

ATVINNU- OG BYGGÐAÞRÓUN

SSNE starfar eftir samningi við Byggðastofnun um atvinnu- og byggðaþróun en markmið samningsins er m.a. að skapa grundvöll um samstarf um byggðaþróun í samræmi við stefnu Alþingis í byggðamálum með áherslu á búsetuskilyrði og samkeppnishæfni, nýsköpun- og atvinnuþróunarsamstarf.

Föstudagsfundir
SSNE leggur mikla áherslu á að auka samstarf við sveitarfélögin og efla samstarf þeirra á milli. Mikilvægur liður í því eru fundir SSNE með kjörnum fulltrúum sveitarfélaga og framkvæmdastjórum sveitarfélaga, svokallaðir föstudagsfundir. Þessir fundir eru orðnir fastir í sessi mánaðarlega með hléi yfir sumartímann. Viðfangsefni fundanna eru mjög fjölbreytt og yfirleitt höfum við fengið aðila inn á fundinn til að fara yfir málefni sem efst eru á baugi eða teljast mjög brýn.

22. janúar komu Eygerður Margrétardóttir, sérfræðingur í umhverfis- og úrgangsmálum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur, á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun á fund og kynntu vinnu sem er í gangi varðandi loftlagsstefnu sveitarfélaga og hvernig þau geta stutt við starfsemi sveitarfélaga á þessum vettvangi.
26. febrúar kynnti Vífill Karlsson niðurstöður þá nýgerðrar könnunar landshlutasamtaka sveitarfélaga á búsetuskilyrðum og hamingju landsmanna og tók þátt í umræðum um niðurstöðurnar.
12. mars kynnti umhverfisnefnd SSNE hlutverk sitt og þau viðfangsefni sem nefndin fékkst við. Einnig kynnti Guðmundur H. Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku hvað líforkuver er.

Ársþing SSNE var í lok apríl og ekki haldinn föstudagsfundur í apríl og maí.

11. júní var tekið fyrir viðfangsefnið Norðurslóðasamstarf á Norðausturlandi. Áhersluverkefni SSNE á þeim vettvangi var kynnt og rætt hvernig sveitarfélögin geta komið að samstarfinu.
17. september var kynnt skýrsla um möguleika í vegaframkvæmdum í landshlutanum í tengslum við undirbúning Samgöngustefnu. Jón Þorvaldur Heiðarsson og Hjalti Jóhannesson kynntu skýrsluna og svöruðu spurningum.
15. október var haldinn kynningarfundar þar sem farið var ítarlegra yfir fyrirkomulag stafrænna húsnæðisáætlana og tímalínu verkefnisins. Tilefnið var að húsnæðisáætlanir verða með breyttu sniði frá og með 2022 þar sem þeim verður skilað stafrænt og á stöðluðu formi.
5. nóvember var haldinn fundur um úrgangsmál á Norðurlandi. Markmið fundarins var að upplýsa um breyttar lagakröfur, áhrif þeirra á sveitarfélögin og ræða stöðu og hlutverk svæðisáætlana í því sambandi. Einnig var kynnt forrannsókn varðandi brennslu úrgangs á Íslandi og umræður.
26. nóvember kynnti starfsfólk SSNE framvindu og stöðu áhersluverkefna ársins fyrir sveitarstjórnarfólki og svaraði spurningum um þau.

Samtals voru því haldnir 8 föstudagsfundir á árinu 2021 og umræðuefnin mjög fjölbreytt og skemmtileg. Fundirnir eru alltaf mjög vel sóttir og þátttaka í umræðum oft góð og lífleg. Þessi vettvangur upplýsingamiðlunar og samráðs skiptir miklu máli og hefur stóraukið samtal og skilning og er verðmætur okkur hjá SSNE og ekki síður sveitarfélögunum. Einnig er það ljóst að þeir aðilar sem SSNE hefur fengið inn á fundina kunna mjög að meta upplýsingamiðlun, umræður og endurgjöf á fundunum.

Fjölmenningarráð
Á ársþingi SSNE í apríl 2021 var óskað eftir að stjórn SSNE skoði möguleika þess að sækja í auknum mæli skoðanir og hagsmuni ungs fólks og fólks af erlendum uppruna t.d. með stofnun ungmennaráðs og fjölmenningaráðs sem skipuð yrðu annars vegar ungu fólki og hins vegar fólki af erlendum uppruna.

Á Norðurlandi eystra eru nú 30.600 íbúar og 8,2% þeirra eru með erlend ríkisfang eða 2,516. Árið 2017 var hlutfallið 5,7% svo það er ljóst hver þróunin er. Norðurland eystra er samt sem áður með lægsta hlutfall erlendra ríkisborgara af öllum landshlutunum en hæst eru Suðurnes þar sem 23,6% íbúa er með erlent ríkisfang.


Fjölmenningarráð var stofnað í október 2021 en það er skipað 11 fulltrúum aðildarsveitarfélaga SSNE. Fyrsti fundur ráðsins var í nóvember þar sem staða og helstu áskoranir hvers sveitarfélags voru reifaðar þegar kemur að málefnum innflytjenda. Sveitarfélögin voru sammála um að setja gerð fjölmenningarstefnu og samsvarandi aðgerðaáætlun í forgang en næststærsta áskorun svæðisins er skortur á íslenskukunnáttu sem skapar gjá á milli innflytjenda og samfélagsins. Athygli vakti að aðgengi að vinnumarkaði, þ.e. möguleikinn á að finna vinnu, er var ekki talin áskorun á svæðinu en það er hins vegar áskorun að finna vinnu sem hæfir menntun og reynslu innflytjenda og mun ráðið leita leiða til að finna lausnir við því. Mismunandi er eftir sveitarfélögum hversu vel tekst að virkja innflytjendur til þátttöku í samfélaginu, þar á meðal börn og unglinga í frístund og íþróttir. Sumstaðar er fjöldi ólíkra þjóðerna sem eykur tungumálaerfiðleikana en á öðrum stöðum eru þetta einsleitari hópar. Stærsti hlutinn er eins og á landsvísu eru Pólverjar en athygli vekur að næststærsti hópurinn á Norðurlandi eystra eru Þjóðverjar sem eru 6. stærsti hópurinn á landsvísu.

Stefnumótunarvinna ráðsins og vinna við starfsáætlun hófst í kjölfarið og stóð enn yfir við árslok 2021.


Ungmennaþing SSNE
Árið 2019 veitti Eyþing styrk til að skapa vettvang ungs fólks á Norðurlandi eystra. Undir því verkefni var haldinn viðburðurinn Ungt fólk og Eyþing 2020. Á þeim viðburði kusu ungmennin um framhaldið og ákveðið var að halda Ungmennaþing SSNE sem fór svo fram í Mývatnssveit dagana 25. - 26. nóvember 2021. Þar voru saman komin um 30 ungmenni úr sveitarfélögum landshlutans og tókust á við áskoranir Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem var jafnframt þema þingsins. Ungmennin unnu t.d. með þróun á smáforritum inn á Ungmennaþorpinu og gafst fólki kostur á að taka þátt í því verkefni og leggja þeim lið, skoða verkefnin sem eru að mótast og koma með góðar og gagnlegar ábendingar eða hverkyns endurgjöf á verkefnin. Smáforritunum er ætlað að aðstoða við áskoranir Íslands þegar kemur að Heimsmarkmiðunum SÞ. Mikil ánægja var með ungmennaþingið og allir sammála um að hafa þetta árlegan viðburð.

Veltek
Heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands (Veltek) hóf starfsemi haustið 2021 en klasinn er samstarfsvettvangur um tækniþróun í þágu heilbrigðis og velferðar á Norðurlandi. Innan raða Veltek eru sveitarfélög á Norðurlandi, skólastofnanir og leiðandi heilbrigðisstofnanir sem hafa ákveðið að nýta sameiginlegan styrk til sóknar innan sem utan svæðisins. Veltek er öflugur vettvangur þar sem heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög og háskólasamfélagið sameinast um að kanna og veita mikilvægar þjónustulausnir. Veltek vinnur þannig markvisst að því að styðja við þróun, sækja sér og rækta þekkingu á nýrri tækni, kynna hana og koma henni kerfisbundið í notkun. Markmiðið er að styðja við starfsfólk í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og stuðla þannig að betri þjónustu við íbúa og sem bestu lífi og hagsæld Norðlendinga.

Veltek er ætlað að virkja þann kraft sem fyrirfinnst innan fyrirtækja og stofnana á Norðurlandi og magna hann upp með því að styðja við nýsköpun í heilbrigðis- og velferðartækni ásamt því að efla tengsl þátttakenda en mikilvægur þáttur í því starfi er að horfa út fyrir landsteina og tengjast hliðstæðum klösum erlendis. Það hefur sjaldan verið mikilvægara að veita heilbrigðis- velferðarþjónustu á hagkvæman hátt.


Frá því að klasinn hóf starfsemi haustið 2021, hefur verið unnið að því að efla tengslanet klasans en Veltek er nú aðili að danska velferðartækniklasanum CareNet og jafnframt aðili að evrópskum fókushópum sem fjalla um nýsköpun í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Ennfremur er hafin undirbúningsvinna að því að mynda norrænan hóp velferðarstofnana eða klasa sem eru starfandi í dreifðari byggðum og þar af leiðandi að takast á við sambærilegar áskoranir. Af einstökum verkefnum má nefna að Veltek er aðili að nýsköpunar- og þróunarverkefnum í öldrunarþjónustu sem eru í undirbúningi í Fjallabyggð.

www.veltek.is

 

Norðurslóðamiðstöð Íslands
Eitt af áhersluverkefnum SSNE 2021 var Norðurslóðamiðstöð Íslands en íslensk stjórnvöld hafa lagt skýra áherslu á að Norðurland eystra skuli vera miðstöð norðurslóða. Kemur það m.a. fram í nýlega endurskoðaðri stefnu Íslands um málefni norðurslóða en þetta markmið er einnig að finna í sóknaráætlun landshlutans, í hvítbók stjórnvalda um byggðastefnu sem og stefnu Akureyrarbæjar. Norðurslóðastofnanir hafa verið á Akureyri síðastliðna áratugi og undanfarin ár hefur norðurslóðaverkefnum á Akureyri fjölgað mjög og þar myndast öflugt þekkingarsamfélag á þessum málefnum með sterkar alþjóðlegar tengingar.

Meginmarkmið verkefnisins er að Akureyri verði formlega viðurkennd sem Norðurslóðamiðstöð Íslands og til þess þarf að leggja aukið vægi á málefni norðurslóða á Norðurlandi. Verkefnið snýr að auknu kynningarstarfi á tengdum stofnunum og verkefnum á svæðinu. Tækifæri sveitarfélaga eru skoðuð sérstaklega og hvernig megi nýta þau í samstarfi við aðra. Kynningarefni hefur verið dreift á samfélagsmiðlum, málstofur haldnar og viðburðir.

Sjálfbærni og nýsköpun hafa verið leiðarljós í gegnum allt verkefnið enda mjög áberandi í öllum samtölum um efnahagstækifæri á Norðurslóðum. Einnig má efna kynjamál, bláa hagkerfið, fjarvinnsla, heilsa og velferðartækni, betri nýting á auðlindum, endurnýjanlegir orkugjafar, matvælaframleiðsla, ferðaþjónusta svo eitthvað sem nefnt.

Brothættar byggðir
Tvö verkefni Brothættra byggða eru vistuð undir SSNE, en það eru Glæðum Grímsey (GLG) og Betri Bakkafjörður (BBa). Markmiðið með verkefnunum er að styðja við byggðarlög sem hafa átt undir högg að sækja með því að virkja íbúana í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, sveitarfélögin og fleiri. Skipuð er verkefnisstjórn fyrir hvert verkefni Brothættra byggða og í verkefnisstjórnum GLG og BBa situr m.a. einn fulltrúi frá SSNE. Þar að auki hafa verið ráðnir verkefnisstjórar fyrir verkefnin. SSNE kemur því með beinum hætti að stefnumótun og stöðugreiningu verkefnanna, í samstarfi við íbúa og aðra hagsmunaaðila eftir því sem við á. Þá fer SSNE með umsýslu verkefnatengdra fjármuna, þ.m.t. gerð samninga við styrkþega.

Í gegnum þátttöku SSNE gefst íbúum og sveitarfélögum að auki tækifæri til að kynnast betur þeirri þjónustu sem hægt er að sækja hjá samtökunum, s.s. aðstoð við þróun hugmynda, gerð verkefnis- og viðskiptaáætlana og styrkumsókna. Árangur þessarar aðkomu sést ekki síst í auknum fjölda umsókna frá viðkomandi svæðum, einkum í innlenda sjóði s.s. Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra og aðra opinbera sjóði.

Á árinu voru tveir nýir verkefnisstjórar ráðnir en bæði hófu þau störf 1. ágúst eftir að ákveðið var að framlengja bæði verkefnin. Arna Björg Bjarnadóttir mun sinna verkefnisstjórastöðu Glæðum Grímsey til ársloka 2022 en auk hennar er Anna Lind Björnsdóttir fulltrúi SSNE í verkefnisstjórn GLG. Gunnar Már Gunnarsson mun sinna verkefnisstjórn Betri Bakkafjarðar og Rebekka Kristín Garðarsdóttir er fulltrúi SSNE í verkefnisstjórn BBa. SSNE heldur úti starfsstöð á Bakkafirði og tryggir reglulega viðveru í Grímsey. 

Byggðaþróunarverkefni sem þessi auglýsa árlega eftir umsóknum í Frumkvæðissjóð Brothættra byggða. Í lok árs 2021 auglýstu bæði Glæðum Grímsey og Betri Bakkafjörður eftir umsóknum í Frumkvæðissjóðinn.

Í Frumkvæðissjóð Glæðum Grímsey bárust 12 umsóknir. Heildarkostnaður við verkefnin er alls um 55.5 m.kr. Sótt var um styrki að upphæð alls 23.3 m.kr. Samtals voru 16.430.000 kr. til úthlutunar. Um var að ræða tvöfalda fjárhæð til úthlutunar, þ.e. fyrir úthlutunarárin 2021 og 2022, auk fjármagns sem kom til endurúthlutunar. Þetta markast af því að árið 2021 var ekki úthlutað úr Frumkvæðissjóðunum í Grímsey. Þetta verður síðasta úthlutun úr sjóðnum í verkefninu GLG, en verkefninu lýkur í lok árs 2022.

Í Frumkvæðissjóð Betri Bakkafjarðar bárust 17 umsóknir og er þetta mesti fjöldi umsókna síðan verkefnið hófst. Umsóknirnar eru fjölbreyttar og hafa það allar að markmiði að styrkja innviði á svæðinu, skapa atvinnu og stuðla að sterkari stöðu byggðarlagsins í samræmi við stefnumótun fyrir hvort verkefni um sig. Úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar fengu alls 8 verkefni stuðning fyrir tæplega 14 m.kr.

Nafn verkefnis og upphæð:

Pizzagerð - Hafnartanga 4 750.000 kr.
Endurnýjun á Arnarbúð 2.000.000 kr. 
Fljótir flutningar 1.500.000 kr.
Bergholt 1.500.000 kr.
Tanginn - útsýnispallur - náttúrulaug 4.000.000 kr.
Ferðaþjónusta - Skólagötu 5 1.300.000 kr.
Frisbígolf 700.000 kr.
Ærslabelgur 2.143.680 kr.
Samtals 13.893.680 kr. 

 

Íbúafundur á Bakkafirði
Stjórn verkefnisins "Betri Bakkafjörður" efndi til opins íbúafundar á haustdögum. Fundurinn var mjög vel heppnaður og fjölmennur. Þar var m.a. farið yfir stöðuna á verkefninu, meginmarkmið þess og undirmarkmið. Mikill árangur hefur náðst í flestum þeirra markmiða sem sett eru í verkefninu og fundarmenn komu með margar góðar tillögur um mál sem hægt er að setja inn í þau og vinna áfram. Á fundinum var einnig kallað eftir viðbrögðum íbúa vegna samfélagssáttmála milli íbúa við Bakkaflóa, Langanesbyggðar og ríkisins vegna byggðar við Bakkaflóa. Ákveðið var að halda umræðunni áfram meðal íbúa og þeirra stofnana sem komu að gerð sáttmálans. 


Frá íbúafundi. Ljósmynd: Kristján Þ. Halldórsson

 

Kirkjubruninn í Grímsey
Sá atburður átti sér stað í Grímsey í lok september að Miðgarðakirkja í Grímsey brann til kaldra kola. Grímseyingar ákváðu strax að byggð yrði ný kirkja. Óhætt er að segja að sú ákvörðun endurspegli ásetning og hug eyjaskeggja um að reisa byggðina við eftir óföll síðustu ára.

Ljósmynd: Unnur Ingólfsdóttir


Í árslok var undirbúningur nýrrar kirkjubyggingar vel á veg kominn en áætlað er að hefja smíði kirkjunnar vorið 2022 og að hún verði fullbúin að utan þá um haustið. Sumarið 2023 er fyrirhugað að vígja nýja Miðgarðakirkju.

Sóknarnefnd Miðgarðakirkju samdi við verkefnisstjóra Glæðum Grímsey um að hafa yfirumsjón með byggingu hinnar nýju kirkju og Hjörleif Stefánsson arkitekt um hönnun.


Ný miðgarðskirkja. Teikning Hjörleifur Stefánsson
 Í lok árs höfðu þau staðið fyrir þremur íbúafundum en frá upphafi hafa eyjaskeggar verið hafðir með í ráðum með hönnun, sem og skipulagningu framkvæmda og peningasöfnunar. Bygging nýrrar kirkju er viðamikið samfélagslegt verkefni sem Grímseyingar leggja nú allt kapp á að verði að veruleika.

Auk fyrrnefndra verkefna unnu verkefnisstjórnar að ýmsum hagsmunamálum byggðalaganna, veittu atvinnuráðgjöf og stóðu fyrir íbúafundum.

Stefnumótandi byggðaáætlun
Reglulega er auglýst eftir umsóknum um styrki fyrir verkefni sem falla undir þær áherslur og aðgerðir sem tilteknar eru í stefnumótandi byggðaáætlun (2018-2024) en SSNE metur í hvert sinn hvort og þá hvaða verkefni gætu verið fjármögnuð á þann hátt. Vel gekk á árinu að sækja um í þá sjóði sem fylgja aðgerð A.10. og C.1. og fengu 5 verkefni styrki upp á 60.2 m.kr. í heild.

A.10. Almenningssamgöngur um land allt
Tvö verkefni á Norðurlandi eystra hlutu styrki árið 2021. Markmið aðgerðarinnar er að styðja við áframhaldandi þróun almenningssamgangna um land allt og leita leiða sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna út frá byggðalegum sjónarmiðum. Eftirfarandi verkefni fengu styrk:

 • Samfélagsleg nýsköpun. Samlegð farþega- og póstflutninga á Norðausturlandi. Styrkur til að vinna að frekari greiningu á hindrunum og umhverfi í farþega- og póstflutningum á Norðausturlandi. Þarfagreining hefur þegar verið gerð ásamt því að ræða við hagaðila. Stefnt að því að vinna frekari greiningu ásamt því leita hagkvæmari lausna og fyrirmyndir sóttar til annarra landa.Styrkurinn var 3.000.000 kr.
 • Heilsueflandi almenningssamgöngur í Langanesbyggð. Langanesbyggð hlaut styrk til að koma á almenningssamgöngum milli Bakkafjarðar og Þórshafnar og tvinna saman heildræna lýðheilsustefnu og notendamiðaðan frístunda- og tómstundaakstur. Byggð við Bakkaflóa hefur átt undir högg að sækja og verkefnið er liður í átaki gegn þeirri þróun. Styrkurinn var 1.200.000 kr.

Austurbrú fékk þar að auki 7 m.kr. styrk til að vinna verkefni í samstarfi við öll landshlutasamtökin utan höfuðborgarinnar. Verkefnið snýst um að vinna stöðumat og viðhorfskönnun íbúa landsbyggðarinnar á Loftbrúnni, úrræði stjórnvalda til að auka aðgengi allra að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

C. 1. Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða
Á árinu fékk SSNE þrjá styrki úr sjóðum C.1. en þeim styrkjum er ætlað að efla byggðir landsins með því að færa heimamönnum aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun. Sérstök áhersla er lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf með gerð viðaukasamninga við sóknaráætlanir viðkomandi landshluta um tiltekin verkefni eftir forgangsröðun heimamanna.

Eftirfarandi verkefni fengu styrk:

 • Friðlandsstofa – anddyri friðlands Svarfdæla í Dalvíkurbyggð.Stofnun og uppbygging friðlandsstofu hlaut styrk að upphæð 35.000.000 kr.
 • Hraðið. Uppbygging frumkvöðlaseturs á Húsavík og myndun klasa nokkurra stofnana hlaut styrk að upphæð 19.000.000 kr.
 • Gróðurhús í Öxarfirði. Stuðla að frekari nýtingu á auðlindum svæðisins með því að taka skref í átt til uppbyggingar gróðurhúsa í tengslum við jarðhita hlaut styrk að upphæð 2.000.000 kr.


  Frá undirritun samnings um Friðlandsstofu í Dalvíkurbyggð

 

ATVINNURÁÐGJÖF

Atvinnuráðgjöf er viðamikill hluti starfs SSNE og nær til ráðgjafar til einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga. Ráðgjöf SSNE er flokkuð í 7 flokka samkvæmt samningi við Byggðastofnun.

i.       Iðnaður
ii.      Ferðaþjónusta
iii.     Landbúnaður, þ.m.t. fiskeldi og þjónustugreinar fiskeldis
iv.     Sjávarútvegur
v.      Menning, listir og skapandi greinar
vi.     Ríki og sveitarfélög
vii.    Annað

Fjármögnun verkefna og fyrirtækja
Umfangsmest er ráðgjöfin vegna stofnunar og fjármögnunar fyrirtækja sem er veitt bæði í einkaráðgjöf og á námskeiðsformi, bæði íslensku og ensku. Þannig hafa ráðgjafar SSNE haldið námskeið í samstarfi við Símey um stofnun fyrirtækja og styrkjaumhverfið en slíkt námsefni er hluti af röð námskeiða sem boðið er upp á fyrir erlenda viðskiptavini þeirra.

SSNE hefur unnið yfirlit yfir helstu styrki í boði og hélt nokkra fyrirlestra um styrkjaumhverfið í samstarfi við ýmsa aðila, þ.m.t. sveitarfélög. Vinnustofur voru haldnar í umsóknaskrifum en einkum er litið til þess að fjölga umsóknum af svæðinu í opinbera sjóði sem og að hækka árangurshlutfallið.SSNE lagðist í ítarlega greiningarvinnu á árinu og lagði mikla áherslu á bætta upplýsingagjöf um landfræðilega skiptingu úthlutana úr opinberum sjóðum. Mikil umræða hefur átt sér stað um dreifingu opinberra styrkja yfir landið allt en þar hefur verulega hallað á landsbyggðina. Skortur var á gagnsæi upplýsinga um sóknarhlutfall og árangurshlutfall umsókna skipt eftir landshlutum en áfangasigur náðist þegar verklagi Rannís var breytt varðandi upplýsingagjöf við úthlutun styrkja hjá þeim.

Tækniþróunarsjóður er stærsti innlendi sjóðurinn en fjöldi annarra sjóða er í boði og þeim fer fjölgandi. Ráðgjöf vegna styrkumsókna í innlenda sjóði hefur því mikið verið að aukast og má þar nefna Atvinnumál kvenna, Lóuna, Matvælasjóð, Orkusjóð, Frumkvæðissjóði Brothættra byggða, Myndalistasjóð og Tækniþróunarsjóð. SSNE hefur tekið þátt í kynningastarfsemi á sjóðunum ásamt því að veita einstaklingsráðgjöf við umsóknaskrif. Gerður var samningur milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og landshlutasamtakanna allra um viðameiri aðkomu að Matvælasjóði þar sem ráðgjöf og markaðssetning sjóðsins var að miklu leyti í höndum landshlutasamtakanna og þar gegndi SSNE lykilhlutverki.

Aðsókn í erlenda styrki hefur verið lítil og ekki mikil áhersla lögð á slíka styrki innan SSNE enn sem komið er.

Fyrir sértækari ráðgjöf vegna stærri og flóknari umsóknaskrifa hefur SSNE boðið fólki að niðurgreiða (að hluta) þann kostnað sem aðkeypt sérfræðiþjónusta hefur í för með sér en það var úrræði sem var kynnt á þessu ári.

Önnur ráðgjöf
Fyrir utan ráðgjöf varðandi fjármögnun verkefna og fyrirtækja veita atvinnuráðgjafar SSNE víðtæka aðstoð þegar kemur að þróun hugmynda, fýsileikakannanir og hagkvæmnismat, skattaumhverfi fyrirtækja og ráðgjöf um nýsköpunarumhverfið. Þá sinnum við mikilvægu hlutverki við tengslamyndun hagaðila og þeirra sem til okkar leita.

Sýnileiki atvinnuráðgjafa
Mikið átak hefur verið gert í kynningarmálum SSNE og sýnileiki samtakanna aukinn á öllum miðlum. Nánar er fjallað um samskipta- og kynningarstefnu SSNE og áherslur hennar í kaflanum um miðlun upplýsinga en með sérstöku tilliti til aukinna kynninga á þjónustu atvinnuráðgjafa má helst nefna eftirfarandi atriði:

 • Ný starfstöð á Ólafsfirði var opnuð og sá starfsmaður er nú einnig með reglulega viðveru á Dalvík
 • Fyrirtækjaheimsóknir hófust aftur um leið og Covid 19 leyfði
 • Heimsóknir til sveitarfélaga í aðdraganda umsókna í uppbyggingarsjóðinn
 • Sérstök kynning á öllum starfsmönnum var birt á samfélagsmiðlum SSNE
 • Kynningar á starfsemi SSNE voru haldnar við ýmis tækifæri þar sem ráðgjafahlutverki SSNE var gert hátt undir höfði og fólk hvatt til að sækja sér hana
 • Fleiri námskeið og kynningar á styrkjaumhverfinu og styrkumsóknaraðstoð hafa verið haldin á árinu en síðastliðin ár.

Frá opnun starfsstöðvar SSNE á ÓIafsfirði

Önnur upplýsingagjöf til frumkvöðla
Aukin áhersla hefur verið lögð á nýsköpun innan SSNE og aðstoð við frumkvöðla. Í samstarfi við önnur landshlutasamtök voru fræðslumyndbönd sem nýtast þeim sem vilja stofna og reka fyrirtæki. Hægt er að nálgast þau hér. Myndböndunum er ætlað að veita svokallaða fyrstu aðstoð og svara sem flestum almennum spurningum. Atvinnuráðgjafar taka svo við keflinu í framhaldinu. Frekari upplýsingar er að finna í kafla um nýsköpun síðar í skýrslunni.

Gagnagrunnur sem heldur utanum upplýsingar yfir þá sem sækja ráðgjöf til SSNE var búinn til og hann nýttur til að deila frekari upplýsingum um viðeigandi verkefni auk þess sem allir sem á honum eru fá eintak af mánaðarlegu fréttabréfi SSNE.


Bizmentors
Áfram hélt vinnan við Bizmentors eins og síðustu ár en verkefnið felst í að para fólk úr atvinnulífinu (mentora) og saman við frumkvöðla eða aðra sem vilja þróa eitthvað innan fyrirtækis hjá sér á markvissan og skipulagðan hátt. Vefvangurinn er kominn í loftið og lokaprófanir og uppfærslur voru á lokametrunum í lok árs. Verkefninu verður áframhaldið sem brúarverkefni norðurslóðaáætlunarinnar sem heitir HubMent en það er samstarfsverkefni írskra og íslenskra aðila en ásamt SSNE er Matís aðili að verkefninu. Það felst í að þróa áfram netlægt samskiptatorg frumkvöðla og leiðbeinenda á sviði rekstrar, nýsköpunar og atvinnuþróunar en einnig sviði samfélagsþjónustu og þróunar.

 

MENNING

Á Norðurlandi eystra eru náttúruöflin sterk, landslag svipmikið og kröftugt fólk sem lætur norðanáttina veita sér byr í segl. Með samheldni og samhentu átaki kemur mannauðurinn hlutunum til leiðar. Menningarlegar hefðir eru margar og samfélagsleg þátttaka gjarnan mikil og óneitanlega mikilvæg og stór þáttur lýðheilsu samfélaga. Nýsköpun og atvinnuþróun innan menningar hefur jafnframt fengið stærra svið undanfarið ár, enda ljóst að hagræn áhrif skipta sköpum fyrir þjóðarbúið og því mikilvægt að hlúa að sprotum sköpunar og fóstra innan menningargeirans.

SSNE hefur ýmis tæki og tól til að styðja við menningarstarfsemi í landshlutanum, líkt og kemur fram í öðrum köflum ársskýrslunnar. Starfsfólk lagði upp með þrjú stór verkefni á sviði menningar og hagsmunagæslu í starfsáætlun ársins 2021. Tvö þeirra hlutu framgang og fjármögnun sem áhersluverkefni SSNE. Að auki barst stjórn tilnefning á metnaðarfullu barnamenningarverkefni sem áhersluverkefni 2021, Upptakturinn, og hlaut það framgang og fjármögnun.

Upptakturinn


Aðsend mynd

Upptakturinn er samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs og Hörpu í Reykjavík. Meginmarkmið Upptaktsins er að stuðla að frumsköpun ungs fólks á sviði tónlistar og veita þeim tækifæri og innsýn af ferlinu frá hugmynd að veruleika á tónlistarsviðinu. Hluti af verkefninu eru vinnusmiðjur þar sem ungmennin fengu aðstoð frá fagfólki við að fullvinna tónsköpun sína, skrásetja og útsetja hana fyrir fagfólk sem síðan flutti verkin við kjöraðstæður á tónleikum í Menningarhúsinu Hofi fyrir höfunda, gesti þeirra og aðra tónlistarunnendur. Verkefninu lauk með afhendingu á upptökum til ungmennanna en upptökurnar fóru fram í Hofi. Ungmennin kynnast sem sagt atvinnufólki á sínu áhugasviði og fá nasaþef af mögulegu starfsumhverfi, allt undir hatti þess að hvetja ungmennin til að prófa og reyna á eigin sköpunarvöðva. Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru auk Menningarfélags Akureyrar, Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Seltjarnarnesbær og Kópavogsbær.

 

Listnám á háskólastigi


Verkefnið var gert að áhersluverkefni SSNE 2021, SSNE tekur þátt í vinnu starfshóps um listnám á háskólastigi á Akureyri ásamt Akureyrarbæ, Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Verkmenntaskólanum og Listasafninu á Akureyri. Mikil og rótgróin hefð er fyrir listanámi á Akureyri og er nú kannaður möguleiki þess að koma á fót háskólanámi á þessu sviði í bænum. Mikið og gott samtal hefur átt sér stað innan hópsins, unnin hefur verið fýsileikakönnun á námsleiðum sem settar yrðu á fót o.fl. Í mars 2022 stendur til að halda málþing og kynna þar niðurstöður fýsileikakönnunar og aðrar hugmyndir þeirra sem að undirbúningi málsins hafa komið.

 

Safna- og kynningarstefna Norðurlands eystra
Verkefnið var gert að áhersluverkefni 2021 í takt við áherslur stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024 þar sem lagt er til að Landshlutasamtök sveitarfélaga verði falið að gera fýsileikakönnun um aukið samstarf eða sameiningu safna á sínu svæði í samstarfi og samráði við höfuðsafn og viðurkennt safn. Aðgerðin nefnist C.14. Samstarf safna – ábyrgðarsöfn og felst árangursmat í fjölda safna sem hefja samstarf eða sameinast. Meginmarkmið áhersluverkefnisins voru fimm og fólust í þvi að marka sameiginlega stefnu fyrir söfn, sýningar og aðrar menningarminjar á svæðinu, að efla samvinnu safna á milli með það að markmiði að auka fagmennsku í starfsemi safnanna, að vinna sameiginlega markaðsstefnu fyrir söfn og setur á svæðinu, að vinna sameiginlega fræðslustefnu fyrir söfn og setur á svæðinu og að lokum að innan tímabils núverandi sóknaráætlunar yrði í það minnsta eitt ábyrgðasafn í landshlutanum. Áætluð lok áhersluverkefnis eru í september 2022. 

Á vinnslutíma verkefnis hefur það tekið breytingum í takt við niðurstöður skýrslu RHA sem ber heitið Samstarf safna – Ábyrgðasöfn. Þar kom í ljós lítill áhugi á því að fá einhverju safni landshlutans hlutverk ábyrgðasafns á meðan lagaramminn og fjármagn til þess hlutverks væri enn í vinnslu. Þær niðurstöður eru í takt við niðurstöður fýsileikakannana annarra landshlutasamtaka. Jafnframt bentu niðurstöður sterklega til þess að mikill vilji væri til samstarfs, en þó ekki undir heitinu Safnastefna Norðurlands eystra.

Nýr verkefnastjóri í menningarmálum tók við verkefninu í september 2021 og vinnur að mótun þess í takt við niðurstöður skýrslu RHA og samtöl við forsvarsmenn safna og setra á svæðinu. 

Vinnuheiti verkefnis er nú Samstarf safna á Norðurlandi eystra og er markmið þess líkt og áður að efla samvinnu safna/setra/sýninga á milli og er í takt við C.14.

Verkefnalýsing og vörður verkefnisins felast í því að halda fjölbreyttar vinnustofur með það að markmiði að auka samstarf, njóta og nýta styrk ólíkra safna og þekkingu á svæðinu, efla faglegt starf og þannig búa til sameiginlega verkfærakistu. Með vinnustofunum má bæta við tólum og tækjum við verkfærakistuna sem hvert safn nýtir eftir sýnum áherslum.

Menning og heilsa - Þróunarverkefni á sviði menningarmála
Inntak verkefnisins snýr að vinnslu áætlunar um eflingu lýðheilsu íbúa svæðisins, með markvissari þátttöku þeirra í listum og menningu. Verkefnið hlaut ekki fjármagn sem áhersluverkefni og verkefnastjórar þess luku störfum hjá SSNE áður en verkefnið fór af stað.

Mennningarhöfuðborg Evrópu 2030
Akureyrarstofa og Menningarfélag Akureyrar óskuðu eftir samstarfi við SSNE vegna undirbúnings fyrir umsókn Akureyrar um að verða menningarhöfuðborg Evrópu. Nokkrir fundir voru haldnir og skýrsla unnin sem lögð var fyrir stjórn Akureyrarstofu sem taldi verkefnið ekki tímabært að svo stöddu.

UMHVERFISMÁL

Stigvaxandi áhersla er lögð á umhverfismál í landshlutanum en málaflokkurinn er viðamikill og upplýsingar ekki til á reiðum höndum. Lögð var sérstök áhersla verkefni sem lúta að umhverfismálum í auglýsingum eftir styrki í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra. Talsveðar kvaðir eru á sveitarfélögum varðandi stefnumótun og framfylgd áætlana en víða vantar stöðumat og sameiginlega sýn á hvert skal stefna. Í upphafi árs var lögð áhersla á að skapa samstarfsvettvang ásamt því að auka gagnvirka upplýsingaöflun og upplýsingagjöf hagaðila.

Umhverfismál voru gerð að áhersluverkefni hjá SSNE til að fjármagna þá vinnu sem fyrir lá. Markmið verkefnisins var að ná yfirsýn í umhverfismálum landshlutans, skapa ofangreindan samstarfsvettvang og móta aðgerðaáætlun í þessum málaflokki.

Samkvæmt sóknaráætlun landshlutans skal SSNE vinna að því að marka framtíðar- og heildarsýn landshlutans í umhverfismálum og þar á meðal skulu orkugjafar vera kortlagðir og stefna mótuð um nýtingu þeirra. Kortlagning orkugjafa var gerð af Eimi en stefna um nýtingu þeirra hefur ekki verið gerð. Þá var umræða tekin fyrir á ársþingi SSNE í apríl 2021 um heildrænt svæðisskipulag þar sem ákveðið var að leggjast ekki í slíka vinnu að svo stöddu.


Ný umhverfisnefnd / fagráð umhverfismála
Stofnuð var umhverfisnefnd sem í sátu Guðmundur H. Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku, Rut Jónsdóttir umhverfisstjóri Akureyrarbæjar, Salbjörg Matthíasdóttir verkefnastjóri hjá Landgræðslunni, Ottó Elíasson verkefnastjóri hjá Eim og Sveinn Margeirsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps. Guðmundur sinnti formennsku í nefndinni og var henni ætlað að styðja við starfsemi SSNE í verkefnum sem lúta að umhverfismálum. Umhverfisnefnd var breytt í fagráð í enda árs 2021 og er þar með komin með sama hlutverk og önnur fagráð innan SSNE. Við þá breytingu tók Ottó við formennsku fagráðsins.

Haldnar voru tvær vinnustofur tengdar loftlagsáætlunum sveitarfélaga og var starfsfólki sveitarfélaga boðið á þær. Þá var tækifærið nýtt á fundum sem haldnir voru reglulega þar sem öllum kjörnum fulltrúum boðið að kynna fyrir þeim helstu verkefni og breytingar hvað varðar umhverfismál.

Haldinn var einn opinn fundur um plast og framtíð þess og þá er SSNE samstarfsaðili að stórri umsókn í Life áætlunina fyrir verkefni sem hefur það að augnamiði að vinna saman að áætlanagerð varðandi orkuskipti á svæðinu. Eimur er umsóknaraðili og ef styrkur fæst mun Eimur leiða þá vinnu.

Aukin upplýsingagjöf um umhverfismál


Undirsíða umhverfismála á heimasíðu SSNE var gerð en hún er í stöðugri þróun og uppfærð eftir því sem við á. Þá var stefnt að því að vinna fræðsluáætlun fyrir umhverfis- og loftlagsmál sem sveitarfélög og aðrir hagaðilar gætu nýtt en sú vinna færist til ársins 2022.

Hagkvæmnimat líforkurvers

Vinna við hagkvæmnimat líforkuvers hófs á árinu og mun henni ljúka árið 2022. Verið er að skoða möguleika á á nýtingu lífræns úrgangs á svæðinu til framleiðslu vistvæns eldsneytis. Fjármagn kom úr styrkjasjóði umhverfisráðherra, áherslupeningum SSNE og sveitarfélögum.

Umræður og upplýsingagjöf til kjörinna fulltrúa um flokkun sorps og leiðir til að draga úr urðun voru tekin fyrir á fundum og verða áfram í forgangi á árinu 2022.

NÝSKÖPUN

Stuðningur við nýsköpun er samofin tilgangi og markmiðum samtakanna. Veittar voru 3 m.kr. í áhersluverkefni eyrnamerkt nýsköpun en markmið þess var að efla og styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarf á svæðinu. Fjármagnið var nýtt í þau verkefni sem útlistuð eru hér fyrir neðan.

Ratsjáin
Ratsjáin er samstarfsverkefni Íslenska ferðaklasans, Rata og landshlutasamtakanna um allt land. Verkefnið er ákveðið verkfæri ætlað stjórnendum í ferðaþjónustu og tengdum greinum sem vilja auka nýsköpunarhæfni sína, hraða mikilvægum breytingarferlum og öðlast aukna yfirsýn og getu til að þróa vörur og þjónustu. Verkefnið hófst 7. janúar 2021 og var keyrt áfram í 16 vikur með fræðslu, umræðum og verkefnum í fjarfundi. Í upphafi var þátttakendum gefin kostur á að hafa áhrif á umfjöllunarefnin svo verkefnið nýttist sem flestum. 13 þátttakendur voru af Norðurlandi eystra. Verkefnið mæltist vel fyrir og voru þátttakendur sammála um að það kæmi á góðum tíma fyrir ferðaþjónustuna yfir hávetur í miðjum heimsfaraldri og óvissu.

Hæfnihringir
SSNE tók aftur þátt í Hæfnihringjum sem er sérstakt stuðningsverkefni landshlutasamtakanna allra til handa konum í atvinnurekstri en alls voru 40 konur víðsvegar af landinu skráðar í þetta 6 vikna námskeið sem hófst í janúar, þar af 7 frá Norðurlandi eystra. Í Hæfnihringjunum fá konurnar tækifæri til að tengjast öðrum konum í svipuðum sporum víðs vegar um landið, mynda tengslanet, deila sín á milli og fá ráð hjá öðrum. Auk þess voru leiðbeinendur hringjanna með viðeigandi fræðslu sem miðuð er út frá þeim áskorunum sem hver hópur á sameiginlegt að standa frammi fyrir. Hæfnihringirnir eru fjármagnaðir af samstarfsaðilunum og standa því konunum til boða endurgjaldslaust.

Hacking Norðurland
Hacking Norðurland var lausnamót sem fór fram dagana 15.-18. apríl. Það gekk út á að leita lausna sem miða að sjálfbærri nýtingu auðlinda Norðurlands út frá orku, vatni og mat. Hacking Norðurland var samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri en um 100 manns komu að verkefninuá einn eða annan hátt.

Markmið lausnarmótsins var að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum viðskiptatækifærum og verkefnum, ásamt því að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi.

Áður en lausnamótið sjálft hófst var vefstofa til að veita innblástur, þar sem yfirskriftin var Matur – vatn – orka: Leiðin að sjálfbærni. Þar fluttu gestir erindi og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra fór með ávarp og talaði um að öflugt frumkvæði væri víða um land og að mikill sóknarhugur væri á öllum landshlutum í nýsköpun og umhverfismálum. Eimur skipulagði vefstofuna og voru um 80 manns sem sóttu hana.

Lausnamótið sjálft hófst svo síðdegis, föstdaginn 16.apríl og stóð í 48 tíma. Lausnamótið fór fram á netinu í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp sem þróuð er af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Þátttaka var því ekki háð staðsetningu.

Tæplega 70 þátttakendur skráðu sig til leiks og sjö þátttakendur kynntu verkefni sín fyrir dómnefnd. Alls komu um 50 manns að lausnarmótinu á einn eða annan hátt sem fyrirlesarar, mentorar eða dómarar.


Nýsköpunarvikan

Nýsköpunarvikan fór fram dagana 26. maí til 2. júní 2021. Þetta er í annað sinn sem hátíðin var haldin en í fyrsta sinn sem landshlutasamtökin SSNV og SSNE tóku þátt. Þetta er samansafn af ýmsum viðburðum og fræðslu.

SSNE og SSNV stóðu fyrir þremur viðburðum í Nýsköpunarvikunni undir heitinu “Nýsköpun á Norðurlandi” og var streymt á Facebook viðburðinum, síðum SSNE og SSNV og á síðu Nýsköpunvarvikunnar. 

 • Nýsköpunarhádegið voru sex viðburðir þar sem tekið var á móti góðum gestum úr mismunandi atvinnugreinum til að varpa ljósi á það frjóa og spennandi nýsköpunarstarf sem á sér stað á Norðurlandi. Fjallað var um nýsköpun í ferðaþjónustu, menntamálum, matvælaframleiðslu, hönnun og listum, menningarmálum og fleira.


 • Hugmyndaþorpið Norðurland  er hugmyndasamkeppni í tengslum við Nýsköpunarvikuna. Leitast var eftir hugmyndum um hvernig hægt sé að auka og hvetja til fullvinnslu afurða. Keppnin fór fram í gegnum Hugmyndaþorp sem er hannað af Austan mána til að koma með hagnýtar og frumlegar hugmyndir útaf frá viðfangsefninu. Fullvinnsla afurða er sameiginlegt markmið sóknaráætlanna landshlutasamtakanna á Norðurlandi, SSNE og SSNV. • Nýsköpunarferðalag um Norðurland eru rafræn opin hús í frumkvöðlasetrum á Norðurlandi. Kortið var sett upp í tengslum við Nýsköpunarvikuna þar sem einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum var boðið að kynna sér þá starfsemi sem er í stuðningsumhverfinu til framdráttar og beina ljósi á þá nýsköpun sem nú þegar er í gangi á Norðurlandi.

Norðanátt

Norðanátt eru fyrstu regnhlífasamtök nýsköpunar á Norðurlandi sem byggja á hringrás árlegra viðburða þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki, og samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum.
Að Norðanátt koma Eimur, landshlutasamtökin SSNE og SSNV, Nýsköpun í Norðri, Hraðið og RATA en verkefnið hlaut 7.000.000 kr. styrk úr Lóunni sem er nýr sjóður sem veitir styrki til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Hringrásin samanstendur af lausnamóti, vinnusmiðju, viðskiptahraðli og fjárfestamóti.

Vaxtarrými
Vaxtarrými var átta vikna viðskiptahraðall með áherslu á sjálfbærni, mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Viðskiptahraðallinn, sem var jafnframt fyrstur sinnar tegundar á Norðurlandi og fyrsta verkefni Norðanáttar og stóðu þau fyrir fræðslu, vinnustofum og tengja teymin við reynslumikla mentora víða úr atvinnulífinu.

Þátttakendur og aðstandendur Vaxtarrýmis 2021
Lokaviðburður Vaxtarrýmis var haldinn hátíðlega föstudaginn 26. nóvember á Akureyri. Átta nýsköpunarteymi kynntu stórglæsileg verkefni sín og var viðburðinum streymt á netinu en þeir sem mættu nutu veitinga í föstu og fljótandi formi. Fréttir um Vaxtarrými eru að finna hér.

 

 Nýsköpun innan starfandi fyrirtækja
Covid hafði töluverð áhrif á áætlanir um heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir en þessu markmiði var mætt með öðrum hætti í ljósi aðstæðna. Meðal annars með þátttöku SSNE og SSNV í Nýsköpunarvikunni með viðburðinum Nýsköpunarhádegi sem voru sex viðburðir þar sem tekið var á móti góðum gestum úr mismunandi atvinnugreinum til að varpa ljósi á það frjóa og spennandi nýsköpunarstarf sem á sér stað á Norðurlandi. Fjallað var um nýsköpun í ferðaþjónustu, menntamálum, matvælaframleiðslu, hönnun og listum, menningarmálum og fleira. Viðburðina má nálgast hér: https://www.ssne.is/is/malaflokkar/atvinnuradgjof-og-throun/frumkvodlar

Einnig var farið í Nýsköpunarferðalag um Norðurland í Nýsköpunarvikunni en þar var leitast við að varpa ljósi á stuðningsumhverfi frumkvöðla á svæðinu. Ferðalagið má sjá hér: https://www.ssne.is/is/malaflokkar/atvinnuradgjof-og-throun/frumkvodlar

 

BÚSETUÞÆTTIR

SSNE vinnur í samstarfi við sveitarfélög, aðra opinbera aðila og félagasamtök að greiningu og eflingu búsetuþátta samkvæmt samningi við Byggðastofnun. Á árinu fór töluverður tími ráðgjafa SSNE í vinnu við samkeppnisgreiningu Akureyrarbæjar sem tekin var fyrir á bæjarráðsfundi Akureyrar í lok árs við góðar viðtökur. Þá hófst vinna við innviðagreiningu Norðurþings og Dalvíkurbyggðar undir lok ársins að beiðni aðila í atvinnuuppbyggingu á svæðinu en slíkar beiðnum fer fjölgandi og verður starfsfólk og stjórn SSNE að meta samhljóm slíkra beiðna við hlutverk og stefnu samtakanna. Íbúaþing voru haldin á bæði Akureyri og í Dalvíkurbyggð en aðkoma SSNE að slíkum verkefnum byggist að miklu leyti á eftirspurn sveitarfélagana eftir aðstoð samtakanna. Hafa önnur aðildarsveitarfélög ítrekað verið hvött til að leita til okkar með slíkar óskir.

Eitt af þeim verkefnum sem alltaf er haldið á lofti hjá SSNE er hagsmunagæsla innviða á Norðurlandi eystra. Í kjölfar óveðursins á aðventunni 2019 var aðgerðaáætlun gefin út af stjórnvöldum og fylgdist SSNE náið með framgangi verkefna sem eru ófá á Norðurlandi eystra.

Raforka
Um langt skeið hefur verið unnið að uppbyggingu flutningskerfi raforku á Norðurlandi eystra og situr starfsfólk SSNE í verkefnaráðum um bæði Blöndulínu 3 og Hólasandslínu 3. Mikið samráð hefur verið haft bæði við Landsnet og RARIK meðal annars til að tryggja upplýsingaflæði til íbúa á svæðinu og sveitarfélaga. Í nóvember 2021 var haldinn mjög upplýsandi fundur um raforkumál í Eyjafirði í samstarfi við SATA (Samtök atvinnurekenda á Akureyri) og Akureyrarbæ. Fundurinn bar heitið „Aukin raforka í Eyjafirði – Tálsýn eða tækifæri?“  Annar svipaður fundur verður haldinn á fyrri hluta 2022 í samstarfi við SANA, austan Vaðlaheiðar.

Þá stóð SSNE fyrir samráðsfundi um stöðu fjarskipta á Norðurlandi eystra.

Samgöngustefna
Vinna við samgöngustefnu landshlutans hófst á árinu en það var eitt af áhersluverkefnum SSNE 2021. Stefnt er að útgáfu skýrslunnar síðla árs 2022. Þá tók SSNE þátt í samráðsfundi um grænbók í samgöngum og samráðsfundi um samgöngur á Norðurlandi eystra.


Samgöngur í lofti
Eitt af áhersluverkefnum 2021 var að vinna fýsileikakönnun með hagaðilum um stofnun flugfélags sem heldur utan um millilandaflug á Norðurlandi eystra en lengi hefur verið stefnt að því að tryggja reglubundið áætlunarflug erlendis og opna þannig fleiri gáttir inn í landið um leið og tryggja um leið jafnari dreifngu ferðamanna um Ísland. Verkefnið skilaði góðum niðurstöðum og lagði grunninn að stofnun flugfélags sem stefnt er að hefji millilandsflug um Akureyrarflugvöll um mitt ár 2022.

Loftbrú er úrræði stjórnvalda til að bæta aðgengi landsbyggðanna að þjónustu á höfuðborgarsvæðinu en það hóf göngu sína síðla árs 2020. Í október 2021 þegar ár var frá upphafi Loftbrúarinnar fékkst styrkur úr A.10. sjóði stefnumótandi byggðaáætlunar til að vinna mat á hvernig hún hefur reynst. Austurbrú var umsækjandi en SSNE ásamt hinum landshlutasamtökunum voru samstarfsaðilar og var unnið að undirbúningi þess verkefnis undir lok árs 2021. Könnunin verður gerð á fyrri hluta árs 2022.

Samgöngur á landi
Annað verkefni, samlegð farþega- og póstflutinga á Norðausturlandi, sem hlaut styrk upp á 3.800.000 kr. úr A.10. sjóði stefnumótandi byggðaáætlunar laut að greiningarvinnu og lausnaleit fyrir farþega- og póstflutninga á Norðausturlandi en almenningssamgöngur frá Húsavík til Þórshafnar hafa ekki verið til staðar frá því 2017. Markmiðið með verkefninu var að almenningssamgöngur á svæðinu frá Þórshöfn til Húsavíkur yrði aftur mikilvæg stoð byggðar á svæðinu með því að tengja þessa byggðarkjarna saman, auka aðgengi og jafnræði íbúa ásamt því að auka möguleika rekstraraðila í ferðaþjónustu á að beina ferðamönnum meira á svæðið. Norðausturhornið er það svæði á landinu þar sem skóinn kreppir hvað mest að, þegar litið er til almenningssamgangna. Þá má ekki líta framhjá því að fjölmargir íbúar þurfa að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu til Húsavíkur og Akureyrar, þannig að almenningssamgöngur gegna einnig öryggishlutverki.

Örráðstefna um almenningssamgöngur var haldin í maí í samstarfi við SSNV þar sem niðurstöður fýsileikakönnunar voru kynntar auk þess sem við kynntum nýjar leiðir í almenningssamgöngum og Vegagerðin kynnti breytingar á greiðslufyrirkomulagi og á nemakortum. 

UPPLÝSINGAÖFLUN

Til þess að hafa góða heildaryfirsýn yfir búsetuþætti á starfssvæðinu og meta hvar úrbóta er þörf er nauðsynlegt að afla upplýsinga og hafa sambærileg gögn við aðra landshluta og eru samtökin skuldbundin til þess að veita Byggðastofnun upplýsingar um ástand atvinnulífs og búsetuþætti eins og kostur er.

Gagnatorg Byggðastofnunar er virkt og talsvert notað af SSNE en þar er helst að finna upplýsingar um samsetningu atvinnulífs, mannlífs, búsetu lýðfræðilega þætti. Þá bættust við upplýsingar um sveitarfélagaskipan aftur til ársins 1875, yfirlit um íbúafjölda sveitarfélaga og byggðakjarna og upplýsingar um breytingar á íbúafjölda og sveitarfélaga. Mælaborðið hefur verið kynnt á miðlum SSNE og nýtist afar vel í ýmiskonar greiningavinnu sem unnin hefur verið á árinu.

Íbúakönnun landshlutanna
SSNE tók þátt í íbúakönnun landshlutanna í samstarfi við SSV & RHA. Vífill Karlsson, Ph.D. í hagfræði hjá SSV, hafði yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd könnunarinnar, ásamt því að vinna úr niðurstöðum með Helgu Maríu Pétursdóttur hjá SSNE. Könnunin var gerð á haustmánuðum 2020 en úrvinnsla og kynning á niðurstöðum 2021. Alls fengust 1.673 svör á Norðurlandi eystra, en þar sem landshlutinn tók nú þátt í fyrsta skipti er ekki um að ræða samanburð á svörun milli kannana.

Íbúasvæði Norðurlands eystra voru þrjú í könnuninni, þ.e. Akureyri, Eyjafjörður (öll sveitarfélög utan Akureyrar) og Þingeyjarsýsla. Heildarfjöldi svara á Norðurlandi eystra var 1.673. Meginmarkmið könnunarinnar var að draga fram afstöðu íbúa einstakra landshluta til ýmissa þátta sem telja má meðal mikilvægustu búsetuskilyrða heimilanna. Í samantekt helstu niðurstaðna kemur fram að Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um voru Akureyringarí 2. sæti, Eyfirðingar í 3. sæti og Þingeyingar í 13. sæti.

Samantekt á helstu niðurstöðum var birt í janúar 2021 og skýrsla um Íbúakönnun landshlutanna 2020 kom út í júní 2021. Niðurstöður íbúakönnunar voru einnig færðar inn í Mælaborð Byggðastofnunar síðla árs 2021.

Fyrirtækjakönnun
SSNE tók fyrst þátt í fyrirtækjakönnun landshlutanna 2019-2020. Það er Vífill Karlsson, Ph.D. í hagfræði hjá SSV, sem hefur yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd könnunarinnar, ásamt því að vinna úr niðurstöðum.

Meginmarkmið könnunarinnar er að draga fram afstöðu forsvarsmanna fyrirtækja einstakra landshluta til ýmissa þátta sem telja má meðal mikilvægustu rekstrarþátta fyrirtækja. Könnunin skiptist í fastan hluta sem spurt er um í hverri könnun og hlaupandi hluta sem tekur mið af demantslíkani Porters, sem greinir samkeppnisstöðu þjóðar en nýtist einnig vel til að greina samkeppnisstöðu landhluta og svæða.

Árið 2021 hélt áfram vinna fulltrúa frá SSV, SSNE, SSNV og SASS við endurskoðun á spurningalista könnunarinnar og lauk þeirri yfirferð um miðjan desember. Samið var við RHA um framkvæmd könnunarinnar sem fór í loftið í janúar 2022.

ENDURMENNTUN OG SAMSTARF

Samtökin leitast við að efla þekkingu og fagmennsku sína á sviði atvinnu- og byggðaþróunar með endurmenntun. Hluti atvinnurágjafa sat námáskeið í stjórnendamarkþjálfun ásamt fleiri starfsmönnum annarra landshlutasamtaka. Teams og Zoom þekking er orðin nokkuð góð og starfsfólki stendur til boða að sækja námskeið ef þarf. Símenntunarþörf er metin reglulega í starfsmannasamtölum og starfsmenn hvattir til að leita eftir tækifærum til að efla þekkingu sína en stéttarfélög taka einnig þátt í kostnaði við ýmis konar nám og námskeið.

Samstarf
Samvinna við önnur atvinnuþróunarfélög og Byggðastofnun er mikilvægur þáttur í starfsemi SSNE sem einnig tekur þátttöku í stefnumótun og samræmingu á starfsemi félaganna. Mikilvægt er að starfsmenn SSNE kynni sér hlutverk og verkefni stoðstofnana sem vinna að sameiginlegum hagsmunum þvert á landið í þeim málaflokkum sem tengjast SSNE. Samstarf við þessar stofnanir eru landshlutanum til framdráttar og nýtast við vinnu og stefnumótun SSNE til framtíðar.

Starfsemi stoðstofnana
SSNE fundar reglulega með Samtökum iðnaðarins varðandi menntamál og innviði. Fundirnir eru upplýsandi á báða bóga og á þeim skapast umræður um möguleg samstarfsverkefni. Þá átti starfsfólk SSNE á árinu með Íslandsstofu þar sem góðar kynningar að hálfu beggja aðila fórum fram. Upp frá þeim fundi hefur náðst samstarf um RecordInIceland og FilmInIceland sem bæði eru stór og efnileg verkefni.

Samstarf landshlutasamtakanna
Mikil áhersla var lögð á samstarf landshlutasamtakanna sem mörg hver eru að fást við sömu, eða svipuð, verkefni. Samstarfsvettvangur þeirra færðist af Workplace yfir á Facebook hóp landshlutasamtakanna og Byggðastofnunar sem bætti til muna alla upplýsingamiðlun og samráð. Árlegur haustfundur landshlutasamtakanna var haldinn á Stykkishólmi 3.-4. nóvember þar sem fyrirtæki á Snæfellsnesi voru heimsótt og kynnt en auk þess voru fyrirlestrar og fundir haldnir um nýsköpun, byggðaþróun, alþjóðlegt samstarf í byggðamálum, nýjustu niðurstöður úr könnunum Vífils Karlssonar og sitthvað fleira.

Auka tækniþekkingu starfsmanna
Hluti atvinnurágjafa sat námáskeið í stjórnendamarkþjálfun ásamt fleiri starfsmönnum annarra landshlutasamtaka. Teams og Zoom þekking er orðin nokkuð góð og starfsfólki stendur til boða að sækja námskeið ef þarf. Símenntunarþörf er metin reglulega í starfsmannasamtölum og starfsmenn hvattir til að leita eftir tækifærum til að efla þekkingu sína en stéttarfélög taka einnig þátt í kostnaði við ýmis konar nám og námskeið.

INNRA STARF SSNE

Mannauðsmál
Starfsmannahandbók var unnin á árinu þar sem tekið er á helstu þáttum sem mikilvægt er að halda til haga fyrir starfsfólk s.s. upplýsingar um jafnlaunastefnu SSNE, siðareglur, vinnutíma og vinnuskyldu, orlofs- og veikindarétt o.fl. Einnig var unnin og innleidd móttökuáætlun fyrir nýja starfsmenn.

Siðareglur sem gilda um alla starfsmenn SSNE voru lagðar fyrir stjórn 11. ágúst 2021 og samþykktar. Siðareglunum er ætlað að leggja skýrar línur hvað varðar vinnubrögð og viðbót starfsfólks, trúnað og hagsmunatengsl. Siðareglurnar eru birtar á heimasíðu SSNE og í starfsmannahandbók.

Á árinu 2021 var innleidd viðbragðsáætlun við einelti og kynferðislegu áreiti og ferli fyrir tilkynningar af þeim toga gert skýrt og einfalt. Áætlunin var kynnt fyrir starfsfólki og er hluti af nýliðafræðslu fyrir nýtt starfsfólk og er vísað í hana í starfsmannahandbók okkar.

Starfsmannasamtöl eru tekin einu sinni á ári og er samtölunum fylgt eftir m.a. með stuttum eftirfylgnifundum. Samtölin eru mjög góður vettvangur fyrir framkvæmdastjóra og starfsmenn til að líta yfir sviðið og ræða saman um atriði sem snúa að starfsfólkinu, vinnuumhverfi, verkefnum o.fl.

Starfsdagar
Á árinu voru haldnir voru fjórir starfsdagar starfsfólks. Fjölmörg viðfangsefni voru tekin fyrir á starfsdögum en sem dæmi má nefna undirbúning og skipulagningu fyrir endurskoðun Sóknaráætlunar, verkskráningarkerfi SSNE, samskiptaáætlun, áhersluverkefni, árangursmat Sóknaráætlunar, starfsáætlun, siðareglur og persónuverndarstefnu. Einnig var stofnað starfsmannafélag og ýmis fyrirtæki heimsótt.

Skipulag og stjórnun
SSNE hefur sett sér persónuverndar- og upplýsingaöryggisstefnu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018. Gildir stefnan um sérhverja meðferð persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og á við alla starfsemi á vegum SSNE. Með því að skjalfesta persónuverndar- og upplýsingaöryggisstefnu vill SSNE leggja áherslu á mikilvægi persónuverndar við alla vinnslu þess á persónuupplýsingum eins og þær eru skilgreindar í lögum um persónuvernd. Persónuverndarstefna SSNE var samþykkt á stjórnarfundi 11. ágúst 2021 og er birt á heimasíðu SSNE og í hana vísað í starfsmannahandbók.

Starfsreglur fagráða og úthlutunarnefndar voru unnar í samstarfi starfsfólks SSNE og formanna fagráðanna og úthlutunarnefndar. Starfsreglurnar voru kynntar fyrir stjórn SSNE og síðan kynntar og samþykktar á ársþingi SSNE í apríl. Smávægilegar formbreytingar voru gerðar á starfsreglunum til að samræma þær persónuverndarstefnu SSNE og voru þær breytingar kynntar og samþykktar á 31. fundi stjórnar í nóvember.

SSNE tók grænt skref í febrúar við innleiðingu á rafrænum undirskriftum með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á skilvirkni og skipulag skjala sem nú eru nær alfarið í rafrænu formi.

Stjórnarfundir og þing
Alls voru haldnir 13 stjórnarfundir á árinu 2021. Einn fundanna var aukafundur þar sem áhersluverkefni ársins voru rædd og ákveðin. Stjórn hefur það að markmiði að halda fjórða hvern stjórnarfund sem staðarfund en árið 2021 voru allir stjórnarfundir rafrænir vegna Covid-19.

Það sama á við um þing SSNE, þau voru öll rafræn af sömu ástæðu. Ársþingið var haldið 16. og 17. apríl, fyrra aukaþing var haldið 1. október og síðara ársþingið 10. desember.

Fundargerðir stjórnarfunda og þinga SSNE má sjá á heimasíðu SSNE: Fundargerðir | SSNE.is

FJÁRMÁL OG REKSTUR

Ársreikningur 2020
Níels Guðmundsson löggiltur endurskoðandi hjá Enor ehf kynnti endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn á fundi þann 19. mars og var ársreikningurinn staðfestur af stjórn sama dag. Ársþing samþykkti reikninginn á ársþingi SSNE 16.-17. apríl.

Helstu niðurstöður rekstrar SSNE fyrir árið 2020 voru sem hér segir:

Rekstrartekjur voru samtals liðlega 366 m.kr. en gjöld, að teknu tilliti til vaxta, námu tæpum 358 m.kr. Afgangur af rekstri samtakanna var því um 5,8 m.kr., ívið betra en áætlun hafði gert ráð fyrir (2,4 m.kr.) sem skýrist fyrst og fremst af minni vegna ferðalaga vegna covid faraldursins.

Lausafjárstaða SSNE hélt áfram að batna á árinu og var í árslok réttar 85 m.kr., en stærsti hluti lauss fjár eru úthlutaðir, ógreiddir styrkir fyrri ára. Eiginfjárstaða samtakanna var í árslok 2020 neikvætt um 34 m.kr. “sem skýrist af stöðu lífeyrisskuldbindinga og uppsafnaðs taps af rekstri samgöngumála”, eins og kemur fram í áritun endurskoðanda.

Ársreikningur 2021
Afkoma ársins 2021 var mun betri en áætlað var. Heildartekjur voru 388,2 m.kr. og heildargjöld fyrir fjármagnsliði námu 367,7 m.kr. Hagnaður ársins nam tæplega 20,7 m.kr., 16 m.kr. umfram áætlun. Skýringar betri afkomu en áætlað var, eru þær að framlög vegna sóknaráætlunar voru 8,6 m.kr. umfram áætlun og kostnaður vegna launa var 8,9 m.kr. undir áætlun. Ofnáætlun launaliðar er vegna þess að töluverðar breytingar urðu á starfsliði samtakanna og liðu nokkrir mánuðir frá starfslokum þar til fyllt var í lausa stöðu.

Endurskoðuð fjárhagsáætlun 2021
Fjárhagsáætlun komandi árs er kynnt á ársþingi í apríl á hverju ári og var áætlun fyrir 2021 því kynnt á þinginu 16.-17. apríl 2020. Endurskoðuð áætlun var síðan lögð fram á aukaþingi 1. október og greinargerð um fjárhag kynnt á öðru aukaþingi þann 10. desember. Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir að afkoma ársins 2021 verði ívið lakari en raunin varð fyrir árið 2020.

Fjárhagsáætlun 2022
Fyrstu drög að fjárhagsáætlun ársins 2022 voru lögð fram á ársþingi í apríl og endurskoðuð áætlun kynnt á aukaþingi í október. Áætlunin verður endurskoðuð og kynnt á ársþingi í apríl 2022 ásamt fyrstu drögum af fjárhagsáætlun ársins 2023. Ljóst er að rekstur SSNE næstu ár verður í járnum. Allir kjarasamningar starfsmanna verða lausir 2022 og óvissa um launaþróun er helsti óvissuþáttur í rekstrinum enda stærsti einstaki kostnaðarliður samtakanna.

AÐRIR FUNDIR / MÁLÞING / RÁÐSTEFNUR

Sá fjöldi funda sem SSNE ýmist stendur fyrir eða er boðið á er langur og nær yfir vítt svið. Starfsfólk leggur sig fram við að vera vel upplýst um þau málefni sem standa okkur nærri og snúa að hagsmunum landshlutans og þannig höfum við tekið þátt í umræðum um viðspyrnu í ferðaþjónustu, framtíð flugmála, samstarf menntastofnana, málefni innflytjenda og lengi mætti áfram telja.

Reglulega tökum við á móti góðum gestum sem til okkar leita eftir kynningu á SSNE eða Norðurlandi eystra. Má þar t.d. nefna heimsóknir nema frá HA og fyrir alþingiskosningar í haust heimsóttu fulltrúar velflestra framboðanna okkur þar sem okkur gafst færi á að ræða Sóknaráætlun Norðurlands eystra, aðgerðaáætlunina og leita þar eftir samhljómi við þeirra áherslur og stefnuskrá. Fulltrúar sendiráða Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Bretlands, Kanada og Danmerkur komu einnig í heimsókn og fengu kynningu á starfsemi okkar.

Þá situr starfsfólk SSNE einnig í fjölda stjórna, ráða og vinnuhópa sem snerta verkefni SSNE með ýmsum hætti. Nefna má fulltrúa SSNE í Samstarfi framhaldsskóla á Norðaustursvæðinu (SAMNOR), setu í stjórn Vistorku, setu í stjórn Menningarfélagsins Hofs, fulltrúa í verkefnaráði bæði Hólasandslínu og Blöndulínu 3 og fleira mætti nefna. Hér er hægt að finna lista yfir allar nefndir og ráð á vegum SSNE eða með þátttöku SSNE.

ArticCircle
Áætlanir gerðu ráð fyrir að farið yrði á Arctic Circle ráðstefnuna í október en vegna Covid var ákveðið að slá því á frest. Kynna átti invest.northeast.is síðuna, þ.e. kynna svæðið sem álitlegan kost til að setja niður starfsemi af ýmsum toga. Lagt er til að SSNE verði með kynningu á Arctic Circle 2022.

Fyrirtækjaþing Akureyrarbæjar
Rafrænt fyrirtækjaþing Akureyrar var haldið 14. janúar 2021 í samstarfi Akureyrarstofu og SSNE. Símey kom að framkvæmd þingsins. 

Markmið með þinginu var að eiga samtal við fulltrúa atvinnulífsins á Akureyri, draga fram styrkleika og veikleika í fyrirtækjarekstri á Akureyri og greina hvar helstu sóknarfæri til framtíðar liggja. Prýðileg þátttaka var á þinginu en það sóttu 34 fulltrúar ólíkra fyrirtækja og stofnana á Akureyri.

Þingið var ekki hugsað til heildarniðurstöðu í einstaka málum, heldur miklu fremur til þess að fá fram sjónarmið þátttakenda. Sú fróðlega umræða sem varð á þinginu nýtist vel til greiningar á samkeppnishæfni sveitarfélagsins og við undirbúning nýrrar atvinnustefnu og markaðssetningar Akureyrarbæjar.

„Fólk færir störf“
Kraftur og bjartsýni einkenndu „Fólk færir störf“ - málþing SSNE og Akureyrarstofu um ört vaxandi möguleika á störfum óháð staðsetningu sem haldið var 28.janúar 2021. Á annað hundrað manns fylgdust með og tóku þátt í umræðum en málþingið var rafrænt eins og svo margt annað á tímum Covid 19. Hér er hægt að hlusta á upptöku af málþinginu. Störf án staðsetningar voru mikið í þjóðfélagsumræðunni á árinu og var sérstök samantekt birt á vef Byggðastofnunar um húsnæði fyrir störf án staðsetningar.

Samráðsvettvangur
Óskað var eftir tilnefningum í samráðsvettvang SSNE á árinu. Verið er að leggja lokahönd á hópinn og stefnt að því að halda fund í honum á fyrri hluta ársins 2022. Samráðsvettvangnum er ætlað að hafa beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar landshlutans og vera upplýstur um framgang hennar a.m.k. árlega. Enn er hægt að skrá sig í samráðsvettvanginn á heimasíðu SSNE.

SAMSKIPTA- OG KYNNINGARMÁL

Framtíðarsýn samskiptamála SSNE er sú að ,,Tilurð og tilgangur SSNE er vel þekktur meðal okkar markhóps og til okkar er leitað sem ráðgefandi aðila með sterk tengsl. Við nýtum tækni og ólíka miðla til að koma upplýsingum á framfæri í fjölbreyttu formi sem er sniðið að einstökum markhópum.”

Á árinu var áfram lögð aukin áhersla á að kynna samtökin og veita framúrskarandi upplýsingamiðlun og annarskonar stuðning með rafrænum hætti. SSNE hefur leitast við að blanda vel saman boðleiðum í kynningarstarfi sínu og er óhætt að segja að sýnileiki samtakanna hefur aukist til muna. Kynningarefni SSNE samanstendur af fréttum, viðtölum, tölulegum gögnum og öðrum gagnlegum upplýsingum í bland við skemmtilegt myndefni og léttara árstíðarbundið efni.

Eigin miðlar
Heimasíða SSNE, www.ssne.is er mikilvægasta gáttin í miðlun upplýsinga og gegnir lykilhlutverki í öllu okkar kynningarstarfi. Á vefnum er til gott safn gagnlegra upplýsinga m.a. um starfsemina, stefnumál stjórnvalda, fundargerðir, reglur og samþykktir, styrkjaumhverfið og fréttum af innra starfi. Þar er einnig hægt að panta viðtal við atvinnuráðgjafa og skrá sig á póstlista fréttabréfs SSNE. Alls voru birtar 256 fréttir á heimasíðu SSNE árið 2021 og var fjöldi einstakra lesenda 14.790 og heildarfjöldi flettinga 83.269.

Samfélagsmiðlarnir (Facebook, Instagram, YouTube) hafa reynst vel til að miðla fréttum og upplýsingum af heimasíðu samtakanna í því skyni að auka dreifingu og sýnileika. Samfélagsmiðlar samtakanna eru því ekki síður mikilvæg miðlunarleið og fer fylgjendafjölda á Facebook og Instagram síðum SSNE ört vaxandi en í lok árs 2021 voru fylgjendur SSNE á Facebook rúmlega 1.100 og á Instagram yfir 400. Þá heldur SSNE út Youtube síðu, þar sem finna má m.a. upptökur af fundum með sveitarstjórnarfólki, ráðstefnum, fræðslumyndböndum, viðtölum og fleira. SSNE hélt áfram að gefa út mánaðarlegt fréttabréf samtakanna á árinu með góðum viðtökum og fer skráningum á póstlista stigvaxandi. Í fréttabréfinu er farið í stuttu máli yfir þau helstu mál og verkefni sem fengist er við í hverjum mánuði.

Samskipta- og kynningaráætlun samtakanna sem gerð var í árslok 2020 var yfirfarin og henni framfylgt út í gegnum árið. Í henni eru árangursmælikvarðar tilteknir og tvisvar á ári er farið yfir þann árangur sem náðst hefur.

Sýnileiki í fjölmiðlum
Starfsmenn SSNE eru á tánum hvað varðar birtingar og umfjöllun um störf samtakanna bæði í landsmiðlum og svæðisbundnum fjölmiðlum. Starfsfólk SSNE komu við í þónokkrum sjónvarps-, og útvarpsinnslögum á árinu og margskonar umfjallanir um eða varðandi starf og starfsemi samtakanna rötuðu í fjölmiðla. Þá hafa fréttir af heimasíðu SSNE ratað bæði í svæðis- og landsmiðla og er þar með ekki einungis verið að vekja athygli á starfi samtakanna heldur jafnframt landshlutanum í heild. Ekki er haldið nákvæmt bókhald yfir fjölda viðtala eða umfjallana í fjölmiðlum þar sem SSNE ber á góma en gróft talið eru allavega 55 skipti sem við höfum haldið utan um og ekki var greitt fyrir sérstaklega (e. earned media).

SSNE skrifaði undir samning um áhersluverkefni við fjölmiðilinn N4 á árinu um vinnslu efnis af Norðurlandi eystra undir yfirskriftinni Gerð kynningarefnis um atvinnu- og mannlíf á svæðinu. Mikilvægt er að raddir landsbyggðanna heyrist og sjáist og með þessum samningi var verið að stíga ákveðið skref í þeirri viðleitni. Meginmarkmið er að auka umfjöllun um atvinnu- og mannlíf á svæðinu, auka upplýsingagjöf, búa til markaðsefni, kynna fjölbreytt tækifæri og áhugaverða nýsköpun, styrkja ímyndarsköpun og sjálfsmynd íbúa gagnvart landshlutanum og síðast en ekki síst að kynna svæðið sem ákjósanlegan kost til búsetu og atvinnureksturs. Vel yfir 60 fjölbreytt innslög og/eða viðtöl birtust í línulegri dagskrá N4 víðsvegar af svæðinu í þáttaröðinni Að Norðan, auk þess sem þau hafa öll birst á samfélagsmiðlum eins og Facebook síðu N4, Youtube og heimasíðu. Skrifaðar hafa verið fréttir upp úr mörgum þessara innslaga og oftar en ekki hefur birst umfjöllun um tökurnar á Instagram.

ÁLYKTANIR, UMSAGNIR OG BÓKANIR STJÓRNAR 

Mikilvægur þáttur í hagsmunagæslu SSNE felst í því að setja sjónarmið, viðbrögð og áskoranir fram með formlegum hætti. Á fundum stjórnar eru slík mál tekin til umræðu og stjórn bókar um málin. Framkvæmdastjóri kemur bókunum stjórnar á framfæri við viðeigandi aðila, stofnanir og ráðuneyti.

20. fundur, 13. janúar 2021

Vegna útboðs á akstri almenningssamgangna hóf SBA akstur á leiðinni Húsavík – Akureyri 1. janúar 2021:

Þrátt fyrir að útboð Vegagerðarinnar hafi gengið út frá óbreyttum leiðum ekur strætó nú um Kinn í stað Fljótsheiðar með þeim afleiðingum að tvær stoppistöðvar í Þingeyjarsveit detta út, þ.e. Laugar og Fosshóll.

Stjórn harmar að Vegagerðin hafi tekið ákvörðun um að afnema tvær stoppistöðvar landsbyggðarstrætó í Þingeyjarsveit, ekki síst stoppistöð við framhaldsskólann á Laugum. Framhaldsskólinn á Laugum verður með breytingunni eini framhaldskóli landsins sem ekki er tengdur við almenningssamgöngur og telur stjórn það óásættanlegt. Þá telur stjórn óeðlilegt að ekkert samráð sé haft við sveitarfélagið um jafn viðamikla breytingu og raun ber vitni og að breytingar séu gerðar eftir að útboð hefur verið samþykkt. Stjórn SSNE hvetur Vegagerðina til þess að endurskoða ákvörðun sína.

22. fundur, 10. febrúar 2021

Stjórn samþykkir eftirfarandi tillögu að aðgerð í stefnumótandi byggðaáætlun:

Almennt verði gert ráð fyrir því að, að minnsta kosti, þriðjungur einstaklinga sem tilnefndir eru í stjórnir, ráð og starfshópa á vegum ríkisins séu búsettir utan höfuðborgarsvæðisins.

23. fundur, 24. febrúar 2021

Vegna samgangna til og frá Fjallabyggð, brú yfir Jökulsá á Fjöllum, snjómokstur og fleira:

Stjórn SSNE leggur áherslu á að auk fyrri áhersluþátta verði vetrarsamgöngur skoðaðar sérstaklega við gerð nýrrar samgöngustefnu Norðurlands eystra.

26. fundur, 5. maí 2021

Arnheiður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, fór yfir ályktun Markaðsstofunnar um verkefnið „Vörður fyrirmyndar áfangastaðir“.

Stjórn SSNE tekur undir sjónarmið sem koma fram í bókun Markaðsstofu Norðurlands vegna verkefnisins „Vörður fyrirmyndar áfangastaðir“ og telur að dreifing fjármagns í verkefninu samrýmist illa opinberri stefnu um dreifingu ferðamanna um landið.

Stjórn fór yfir erindi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um drög að reglugerð um fráveitur og skólp sem birt var í samráðsgátt 4. apríl 2018.

Stjórn SSNE harmar að dregist hafi að gefa út endurnýjun á reglugerð um fráveitur og skólp sem hefur í för með sér óvissu er varðar hönnunarforsendur í afar mikilvægum og kostnaðarsömum málaflokki. Slíkt kemur sér afar illa fyrir sveitarfélög sem og tæknilega ráðgjafa sveitarfélaga. Stjórn SSNE leggur áherslu á að endurskoðun reglugerðarinnar verði lokið sem fyrst.

27. fundur, 9. júní 2021

Framkvæmdastjóri fór yfir bréf Framsýnar um stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur frá 11. maí 2021.

Stjórn SSNE lýsir áhyggjum af rekstrarskilyrðum innanlandsflugs og leggur áherslu á að jafnræðis sé gætt milli flugrekstraraðila varðandi opinberan stuðning.

Stjórn ræddi aðgengi að upplýsingum um veitingu opinberra styrkja.

Stjórn SSNE skorar á ábyrgðaraðila opinberra styrkveitinga að veita tölfræðilegar upplýsingar um búsetu styrkþega og umsóknaraðila við úthlutanir. Fram þarf að koma fjöldi umsókna, sem og fjöldi veittra styrkja, skipt eftir landshlutum. Slík gögn auka gagnsæi og myndu veita m.a. landshlutasamtökunum, sveitarfélögum og atvinnulífi mikilvæga innsýn.

28. fundur, 11. ágúst 2021

Rætt um stöðu RÚV og hlutverk. Stjórn SSNE samþykkti eftirfarandi bókun:

Stjórn SSNE skorar á stjórn og stjórnendur RÚV að bæta við svohljóðandi byggðaaðgerð í jafnréttisáætlun stofnunarinnar:

  • Markmið: Auka meðvitund frétta- og dagskrárgerðarmanna um búsetu viðmælenda
  • Aðgerð: Skráning viðmælenda eftir búsetu í föstum þáttum og fréttum
  • Ábyrgð: Dagskrárstjóri
  • Tímarammi: Tölur fyrir hvern miðil birtar opinberlega á þriggja mánaða fresti

Drög að grænbók um samgöngumál í Samráðsgátt var lögð fram til kynningar.

“ SSNE óskar eftir því að umsagnartími Grænbókar um samgöngumál verði framlengdur í ljósi þess að málið var í umsagnarferli á hásumarleyfistíma.“

Umsögn Fjallabyggðar um drög að reglugerð um öryggiskröfur fyrir jarðgöng var lögð fram til kynningar. Bókun stjórnar SSNE um málið:

„Stjórn SSNE fagnar því að fyrirhugað sé að bæta til muna það regluverk sem gildir um öryggiskröfur fyrir jarðgöng á Íslandi. Hins vegar tekur stjórn undir þau sjónarmið Fjallabyggðar og rök Vegagerðarinnar um að það sé með öllu óásættanlegt að ekki sé í reglugerðinni gerð skýlaus krafa um farsímasamband í veggöngum sem eru yfir 500 m að lengd. Þá tekur stjórn SSNE undir það mat Fjallabyggðar að engin ástæða sé til að gera minni kröfur til eldri jarðganga, styttri eða þar sem umferðarþungi nær ekki 2.000 ökutækjum á akrein að meðaltali á dag, svo lengi sem tæknilega er mögulegt að koma viðeigandi öryggisbúnaði fyrir í göngunum.“

29. fundur, 8. september 2021

Í sumar lagði Vegagerðin fram hugmyndir að breytingu á flugsamgöngum og boðaði útboð á þeim grunni. Nú hefur verið horfið frá þeim hugmyndum og rætt um að bjóða út á óbreyttum forsendum til þriggja ára.

Stjórn SSNE leggur áherslu á að stjórnvöld eigi samtal og samráð við heimafólk þegar endurskoða á þjónustu á viðkomandi svæðum og þarf slíkt að eiga sér stað áður en útboð fer fram.

Rætt um efni umræðuskjals Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins „Ræktum Ísland“ og mögulegt hlutverk SSNE á þeim vettvangi. Stjórn bókaði eftirfarandi:

Í tilefni af útgáfu sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra á umræðuskjali til undirbúnings á Landbúnaðarstefnu Íslands hvetur stjórn SSNE Alþingi sem og ríkistjórn að huga sérstaklega að eftirfarandi þáttum sem koma fram í skalinu:

 • tryggja fræðslu og þekkingarstarf.
 • koma á alþjóðlegri vottun kolefnisbindingar lands.
 • tryggja rannsóknar og þróunarstarf í miðstöð landbúnaðarins og þá í hverjum landshluta.

SSNE styður það að stofnuð verði rannsókna- og þróunarmiðstöð landbúnaðarins og verði hún staðsett á Norðurlandi eystra.

30. fundur, 13. október 2021

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu mála varðandi mat á hagkvæmni líforkuvers.

Stjórn felur framkvæmdastjóra að koma á fót stýrihópi sem rýna mun forsendur hagkvæmnimats og þá þætti sem meta á, stýrihópurinn fær stöðuskýrslu frá matsaðilum og rýnir lokaafurð matsins fyrir lokaskil.

31. fundur, 10. nóvember 2021

Framkvæmdastjóri kynnti drög að erindi til Vegagerðarinnar, sjá: Vegagerðin vegna uppgjörs almenningssamgangna

Stjórn SSNE felur framkvæmdastjóra að knýja á um að loforð Vegagerðarinnar um niðurfellingu skuldar vegna almenningssamgangna verði efnd.

Framkvæmdastjóri lagði fram til kynningar áætlun um kostnað við að leigja húsnæði að Hafnarstétt 3 á Húsavík og samanburð við núverandi kostnað sem og áætlun um upphafskostnað vegna endurnýjunar á húsgögnum og kaupa á öðrum búnaði.

Stjórn felur framkvæmdastjóra að segja upp núverandi húsnæði að Garðarsbraut 5 á Húsavík og ganga til samninga um leigu á húsnæði í Hafnarstétt 3. Með því verður öll vinnuaðstaða starfsfólks bætt til muna en einnig er það mjög til hagsbóta fyrir starfsemi SSNE að vera í rými þekkingarsamfélags og frumkvöðla þar sem nýsköpun og atvinnuþróun er í forgrunni. Stjórn gerir þá kröfu að aðgengi fyrir alla í hinu nýja húsnæði SSNE verði tryggt.

32. fundur, 8. desember 2021

Rannsókna- og þróunarstjóri Eims kynnti fyrir stjórn umsókn í Life, styrktaráætlun Evrópusambandsins og óskaði eftir samstarfi við SSNE á þeim vettvangi.

Stjórn telur brýnt að huga sérstaklega að sanngjörnum orkuskiptum sem taka sérstaklega mið af þörfum hinna dreifðari byggða landsins. Stjórn fagnar því umræddri umsókn og samþykkir samstarf vegna verkefnisins.

TILLAGA TIL AÐ RÉTTA HLUT LANDSBYGGÐARINNAR Í STJÓRNUM OG RÁÐUM HINS OPINBERA Stjórn SSNE samþykkti á fundi sínum 10. febrúar eftirfarandi tillögu að aðgerð í Byggðaáætlun. „Almennt verði gert ráð fyrir því að, að minnsta kosti, þriðjungur einstaklinga sem tilnefndir eru í stjórnir, ráð og starfshópa á vegum ríkisins séu búsettir utan höfuðborgarsvæðisins“. Nauðsyn þessarar bókunar kom berlega í ljós þegar skipað var nýverið í stjórn Fiskeldissjóðs sem mun úthluta 113 m.kr. á árinu en í þeirri stjórn eru 3 aðalmenn og 3 varamenn sem allir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu (þar sem ekkert sjókvíaeldi er).