Fara í efni

Nýsköpun

Nýsköpun er málaflokkur sem þarf sífellt að vera að hlúa að og er það eitt af hlutverkum SSNE.

Starfsfólk SSNE sinnir mörgum verkefnum sem ætlað er að styðja við nýsköpun og frumkvöðla. Nýsköpun var valið eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlun SSNE 2021.

SSNE hefur tekið þátt nokkrum samstarfsverkefnum sem snúa að nýsköpun og má þar nefna Hæfnihringi, Hacking Norðurland, Ratsjáin og Nýsköpunarvikan en það nýjasta er samstarfsverkefnið Norðanátt sem er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Lesa má um ýmis nýsköpunarverkefni SSNE hér að neðan.

SSNE hefur þá einnig verið með vinnustofu í umsóknaskrifum fyrir þá sem eru að skrifa umsóknir í sjóði Tækniþróunarsjóðs.

Starfsfólk SSNE er alltaf til taks og ráðgjafar varðandi verkefni. Hægt er að hafa samband beint við starfsfólk eða senda póst á ssne@ssne.is.

Norðanátt

 

Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Norðanátt samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum. Fyrsti viðburðurinn er Vaxtarrými sem fer fram í haust og miðar að því að efla þau fyrirtæki sem eru nú þegar komin af stað. Í byrjun næsta árs fer fram vinnusmiðja sem styður við bakið á frumkvöðlum á fyrstu stigum og verður hún auglýst í nóvember. Í framhaldinu verður haldið Stefnumót fjárfesta á Norðurlandi þar sem fjárfestar og frumkvöðlar koma saman og kynnast öflugri nýsköpun og fjárfestatækifærum á svæðinu.

Norðanáttarverkefnið fékk styrk frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu en að verkefninu koma Eimur, SSNV, SSNE, Nýsköpun í norðri og RATA. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun.

Heimasíða verkefnisins er www.nordanatt.is

 

Vaxtarrými er fyrsti viðburður Norðanáttar. Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall með áherslu á sjálfbærni, mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Vaxtarrými er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðla en þó sérhannað með þarfir þátttakanda í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli.

Hraðallinn fer fram að mestu leyti á netinu en jafnframt hittast teymin fjórum sinnum á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi.

Skráning fer fram á www.nordanatt.is. Umsóknarfrestur er til 20. september 2021.

 

 

 

 

Hacking Norðurland

Lausnamótið Hacking Norðurland fór fram dagana 15.-18. apríl þar sem unnið var með sjálfbæra nýtingu auðlinda Norðurlands út frá orku, vatni og mat. Hacking Norðurland var samstarfsverkefni Hacking Hekla, Eims, Nordic Food in Tourism, SSNE, SSNV og Nýsköpun í norðri en um 100 manns komu að verkefninu á einn eða annan hátt.

Markmið lausnarmótsins var að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum viðskiptatækifærum og verkefnum, ásamt því að vekja athygli á því öfluga frumkvöðlasamfélagi sem er á Norðurlandi.

Áður en lausnamótið sjálft hófst var vefstofa til að veita innblástur, þar sem yfirskriftin var Matur – vatn – orka: Leiðin að sjálfbærni. Þar fluttu gestir erindi og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra fór með ávarp og talaði um að öflugt frumkvæði væri víða um land og að mikill sóknarhugur væri á öllum landshlutum í nýsköpun og umhverfismálum. Eimur skipulagði vefstofuna og voru um 80 manns sem sóttu hana.

Lausnamótið sjálft hófst svo síðdegis, föstdaginn 16.apríl og stóð í 48 tíma. Lausnamótið fór fram á netinu í gegnum samsköpunarlausnina Hugmyndaþorp sem þróuð er af sprotafyrirtækinu Austan mána í samstarfi við Hacking Hekla. Þátttaka var því ekki háð staðsetningu.

Tæplega 70 þátttakendur skráðu sig til leiks og sjö þátttakendur kynntu verkefni sín fyrir dómnefnd. Um helmingur þátttakenda voru af Norðurlandi og þarf af átta búsettir á Norðurlandi vestra. Alls komu um 50 manns að lausnarmótinu á einn eða annan hátt sem fyrirlesarar, mentorar eða dómarar.

Sigurvegari Hacking Norðurland var verkefnið Grænlamb - Keldhverfskt kjöt af algrónu landi, en verkefnið felur í sér að búa til vörumerki fyrir keldhverfska sauðfjárbændur sem er vottun um að féð gangi á velgrónu og sjálfbæru landi. Samhliða því er ætlunin að auka verðmæti sauðfjárafurða Kelduhverfis og um leið gefa neytendum tækifæri til þess að kaupa kolefnislausan íslenskan próteingjafa. Að baki hugmyndarinnar standa frumkvöðlarnir Berglind Ýr Ingvarsdóttir, Guðríður Baldvinsdóttir og Salbjörg Matthíasdóttir sem eiga það allt sameiginlegt að vera sauðfjárbændur í Kelduhverfi.

Auk þess að veita viðurkenningu fyrir besta verkefnið var einnig veitt verðlaun fyrir Frumlegasta verkefnið, Vinsælasta verkefnið og Virkasta þátttakandan.

  • Frumlegasta verkefnið: Geothermal Ginger. Markmið verkefnisins er að rækta engifer og vinna úr því vörur sem og opna augu fleiri fyrir ræktun áður innfluttum vörum.
  • Vinsælasta verkefnið: Automated container farms for fresh and healthy vegetables. Verkefnið byggist á því að þróa fullkomlega sjálfvirkar ræktunareiningar í flutningagáma.
  • Virkasti þátttakandinn: Amber Monroe hlaut viðurkenningu fyrir Virkasta þátttakanda lausnamótsins en Amber var í forsvari fyrir verkefnið Ísponica. Áherslur verkefnisins er að samtvinna fiskeldi og ræktun á matjurtum í vatni (e. aquaponics).

Önnur verkefni sem tóku þátt í lausnamótinu má finna hér.