Fara í efni

Þróunarverkefni um innleiðingu á STEM fræðsluneti á Húsavík

Huld Hafliðadóttir, forsvarsmaður verkefnisins
Huld Hafliðadóttir, forsvarsmaður verkefnisins

Þróunarverkefni um innleiðingu á STEM fræðsluneti á Húsavík

Eitt þeirra verkefna sem hlaut styrk úr uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra 2022 er STEM Húsavík, þróunarverkefni um innleiðingu á svæðisbundnu og samfélagsmiðuðu STEM fræðsluneti.

STEM er þekkt ensk skammstöfun sem stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði (e. science, technology, engineering and mathematics), en töluverður skortur er á útskrifuðum nemendum úr STEM-tengdum greinum í heiminum og ekki síst á Íslandi.

Verkefninu var formlega hleypt af stokkunum á stofnfundi í húsnæði Þekkingarnets Þingeyinga 17. maí sl. en markmið verkefnisins er að koma á fót samfélagsmiðuðu STEM fræðsluneti á Húsavík, fyrsta slíku á Íslandi. Markmið netisins er að efla íbúa og byggja upp færni með því að tengja fjölbreyttar auðlindir, náttúru og samfélag. Netinu er m.a. ætlað að hvetja til samstarfs ólíkra aðila í tengslum við STEM greinar; allt frá einstaklingum til menningarstofnana og fyrirtækja.

Forsvarsmaður verkefnisins er Huld Hafliðadóttir, verkefnisstjóri hjá Þekkinganeti Þingeyinga, sem hefur víðtæka reynslu af verkefnastjórnun og samfélagslegri nálgun. Árið 2014 tók Huld á vegum Hvalasafnsins á Húsavík þátt í Inernational Visitor Leadership Program um hvalaskoðun og náttúruvernd. Hún heimsótti þá m.a. Cape Cod í Massachusetts þar sem hún kom auga á ýmsar hliðstæður og samsvörun við Húsavík.

Veturinn 2015-2016 stýrði hún svo ásamt Hvalveiðsafninu í New Bedford í Massachusettes samstarfsverkefni sem bar yfirskriftina Connecting Coastal Communities og sneri að því að efla ungmenni og tengja saman Cape Cod og Húsavík í gegnum safnastarf og umhverfisfræðslu ungmenna.

STEM Húsavík er hýst hjá Þekkingarneti Þingeyinga, miðstöð símenntunar, háskólanámsþjónustu og rannsókna, sem lengi hefur starfað samhliða Náttúrustofu Norðausturlands og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík sem sérhæfir sig í rannsóknum á sjávarspendýrum.  Ráðgjafi í verkefninu er Bridget Burger, forstöðumaður Cape Cod Regional STEM Network og STEM Starter Academy við Cape Cod Community College. Leiðir þeirra Huldar lágu saman hér á Húsavík á liðnu ári og þá var grunnur lagður að verkefninu.

Verkefninu er skipti í þrjá áfanga og lauk áfanga I nú í byrjun júní eftir heimsókn Bridgetar Burger. En í áfanga II og III mun STEM Húsavík einnig tengjast STEM svæðisnetinu á Cape Cod sem Bridget veitir forstöðu og byggir þegar á traustum grunni.  Bridget hlaut styrk frá Fullbright stofnuninni til þess að koma til Húsavíkur og veita ráðgjöf í verkefninu.

Mér er heiður að fá þennan Fulbright stuðning til að hefja STEM Húsavík“ sagði hún við það tækifæri. „Þetta Fulbright verkefni mun tengja kennara, nemendur, vísindamenn, fyrirtæki og stofnanir á Húsavík og veita þeim úrræði og tækifæri í STEM samfélagsmenntun. Þetta verkefni mun byggja brú á milli stofnana og samfélaga okkar, og getur hvatt til nýrra lausna á flóknum vandamálum sem við stöndum frammi fyrir. Það er von mín að viðleitni mín muni styrkja meðlimi beggja fræðsluneta til að skapa bjarta framtíð í gegnum STEM“.

Getum við bætt síðuna?