Tengslanet menningar og lista eflt – fundað með ráðherra
Tengslanet menningar og lista eflt – fundað með ráðherra
Á dögunum komu saman verkefnastjórar á sviði menningar og skapandi greina hjá Byggðastofnun og landshlutasamtökum utan höfuðborgarsvæðisins. Hópurinn hefur unnið þétt saman síðustu ár og nýtt fagreynslu hvers annars þvert yfir landið. Saman vinnur hann að auknum slagkrafti og sýnileika listafólks og skapandi verkefna um allt land. Vinnudagurinn var haldinn í Reykjavík og markmið ferðarinnar að ræða stöðu menningarmála, efla tengslanet og auka sýnileika menningar og listafólks um allt land.
Staða menningarhúsa rædd við ráðherra
Dagurinn hófst á fundi með Loga Einarssyni, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Til umræðu voru meðal annars gögn skýrslunnar sem er í vinnslu vegna aðgerðar B.9 í Byggðaáætlun (Stefnumótun og hlutverk menningarstofnana). Skýrslan tekur saman upplýsingar um menningarhús um allt land og er markmið skýrslunnar að skapa sameiginlegan ramma um starfsemi þeirra og styrkja rekstrargrundvöll þeirra til framtíðar. Þá voru menningarverkefni og fjárframlög til Sóknaráætlunar rædd, aðgengi allra að starfsemi þjóðarstofnana óháð búsetu, möguleg tækifæri til eflingar atvinnulífs skapandi greina um allt land og fleira.
Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að efla samstarfið, nýta tengslanet landshlutasamtaka og funda oftar með fagfólki sem starfar að menningarmálum í landsbyggðunum.
Tengslanet eflt og sýnileiki aukinn
Hópurinn tók þátt í hraðstefnumóti með Menningarklasanum í Austurstræti til að efla tengslanet og samstarf á sviði menningar og skapandi greina, þvert yfir landið. Þar eru til húsa meðal annars Listahátíð í Reykjavík, List fyrir alla og fag- og kynningarmiðstöðvarnar; Tónlistarmiðstöð, Miðstöð íslenskra bókmennta, Myndlistarmiðstöð, Sviðslistamiðstöð og Safnaráð. Miðstöðvarnar sjá meðal annars um ýmis kynningarmál og styrkjasjóði listfaggreina.
Þá tók Kristjana Rós Guðjohnsen, fagstjóri útflutningsgreina - listir og skapandi greinar, hjá Íslandsstofu, á móti hópnum. Rætt var hvernig styrkja mætti böndin milli landshlutanna og Íslandsstofu til að auka sýnileika lista og skapandi greina um allt land í kynningarefni út fyrir landssteinanna. Kristjana kynnti jafnframt ýmsar tölfræði niðurstöður kannanna er við koma útflutningsverðmæti og aðdráttarafli, t.d. á ástæðum heimsókna gesta til Íslands og þekkingu á íslenskum vörum erlendis. Samkvæmt niðurstöðum er menning afar mikilvægur liður í ákvörðun gesta að velja Ísland sem áfangastað. Jafnframt var ljóst að þarna er gott tækifæri til eflingar á kynningu menningar- og listaverkefna í landshlutunum.
Hagræn áhrif menningar og skapandi greina
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, tók á móti hópnum og kynnti nýja skýrslu um Hagræn áhrif Hörpu. Kynningin varpaði skýru ljósi á það hversu mikilvæg menningarstarfsemi og öflugir menningarinnviðir eru fyrir efnahagslífið.
Verkefnastjórar á sviði menningar og skapandi greina sinna hagsmunagæslu en veita jafnframt hugmynda- og styrkjaráðgjöf til einstaklinga, samtaka og fyrirtækja. SSNE hvetur áhugasama um að nýta sér þjónustuna.
