Stjórn SSNE hvetur stjórnvöld til stuðnings við Háskólann á Akureyri
Stjórn SSNE hvetur stjórnvöld til stuðnings við Háskólann á Akureyri
Á 78. fundi stjórnar SSNE mætti Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, og kynnti stöðu skólans, þróun hans og framtíðarsýn. Í kynningunni var fjallað um hlutverk skólans í íslensku háskólasamfélagi, víðtækt þjónustusvæði hans um allt land, þróun námsframboðs í takt við þarfir nærsamfélags og atvinnulífs, auk uppbyggingar öflugs fræðasamfélags á landsbyggðinni, meðal annars með auknu doktorsnámi og vaxandi árangri í erlendum rannsóknar- og styrkjasjóðum.
Í bókun stjórnar SSNE er rektor þakkað fyrir greinargóða kynningu og tekið undir að Háskólinn á Akureyri gegni mikilvægu hlutverki í að tryggja jafnt aðgengi að háskólamenntun um land allt. Stjórnin leggur áherslu á að skólinn starfi áfram sem sjálfstæður háskóli með sterka stöðu á landsvísu.
Jafnframt tekur stjórnin undir þau sjónarmið sem fram koma í nýlegri bókun háskólaráðs Háskólans á Akureyri, þar sem lýst er áhyggjum af því að núverandi fjármögnun háskólastigsins dugi ekki til að skólarnir geti sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað.
Í bókun háskólaráðs kemur jafnframt fram að það fjármögnunarlíkan sem stjórnvöld styðjast við hamli vexti háskóla og geti, haldi óbreytt áfram, leitt til stöðnunar í stað þess að styðja við þróun, nýsköpun og eflingu námsframboðs. Háskólaráð leggur ríka áherslu á að stjórnvöld bregðist við þessari stöðu svo Háskólinn á Akureyri geti áfram vaxið og sinnt hlutverki sínu sem mikilvæg mennta- og rannsóknastofnun á landsbyggðinni.
Stjórn SSNE tekur undir þessi sjónarmið og hvetur stjórnvöld til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu Háskólans á Akureyri og fjárfesta í þróun hans til framtíðar.