Fara í efni

STEM Húsavík býður upp á jarðfræðigleraugu fyrir fjölskyldur í dag

STEM Húsavík býður upp á jarðfræðigleraugu fyrir fjölskyldur í dag

Í dag hófst 4. alþjóðlega NorthQuake ráðstefnan á Húsavík og af því tilefni býður STEM Húsavík fjölskyldum upp á að smella vísindagleraugum á nefið, undir klukkustundar leiðsögn jarðvísindafólks. Boðið verður upp á rútuferð um bæinn og nágrenni kl. 17:00 og tekur vísindaferðalagið tæpa klukkustund. Viðburðurinn er ókeypis en skráning nauðsynleg.

Viðburðurinn er liður í starfi STEM Húsavík við að hvetja til og auka STEM-vitund í samfélaginu. Sætafjöldi er takmarkaður og nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðinn og þurfa börn, 15 ára og yngri, að vera í fylgd með fullorðnum. Hægt er að skrá sig með því að fylgja hlekknum hér: https://forms.gle/HWbcPz9JeQfXNmLe8 og nánari upplýsingar má finna með því að smella hér. 

STEM Húsavík er nýlega stofnað þverfaglegt STEM (Science, Technology, Engineering, Math) fræðslunet með áherslu á samfélagsþátttöku. Netið er að bandarískri fyrirmynd og notar gagnreynt líkan STEM Learning Ecosystems við innleiðingu verkefna, samstarfs og samfélagstenginga. Markmið STEM Húsavík er að efla íbúa og byggja upp færni með því að tengja saman fjölbreyttar auðlindir, náttúru og samfélag. Samfélagsleg nálgun á STEM fræðslu eykur áhuga ungra sem aldinna á umhverfi sínu og opnar fyrir möguleika í grunnmenntun, símenntun og endurmenntun, auk þess að ýta undir áhuga á raungreinum strax á grunnskólaaldri. Nálgunin getur eflt vísinda-, umhverfis og haflæsi allra þátttakenda, auk þess að hvetja til nýskapandi nálgana aðsteðjandi vanda. 

STEM Húsavík hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra 2022, Fulbright Iceland 2022 sem og Lóu nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina.

Getum við bætt síðuna?