Fara í efni

Samráðsfundur með ferðaþjónustu á Tröllaskaga

Samráðsfundur með ferðaþjónustu á Tröllaskaga

Þann 1. mars sl. héldu Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð og SSNE opinn samráðsfund með ferðaþjónustuaðilum á Tröllaskaga. Fundurinn var haldinn í Tjarnarborg í Ólafsfirði. Mjög góð mæting var á fundinn en um 40 manns mættu og tóku þátt í umræðum um ferðaþjónustu á svæðinu.

Fundurinn hófst á erindi Sigríðar Ingvarsdóttur, bæjarstjóra Fjallabyggðar, erindi sínu fór Sigríður yfir stöðu ferðaþjónustunnar, mikilvægi samvinnu og nýsköpun. Freyr Antonsson forseti sveitastjórnar Dalvíkurbyggðar og eigandi Arctic Sea Tours á Dalvík flutti erindi um tækifæri í ferðaþjónustu allt árið, Freyr lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að miðla upplýsingum milli ferðaþjóna. Síðasta erindið var frá Rögnvaldi Má Helgasyni frá Markaðsstofu Norðurlands (MN), erindið fjallaði um samstöðu og slagkraft og þann árangur sem hlýst af. Rögnvaldur fór einnig yfir þau tæki og tól sem aðildarfyrirtæki MN geta nýtt sér í sínu markaðsstarfi.

Í lok fundar voru umræður um hvernig sé hægt að þétta samstarf ferðaþjóna á svæðinu og einnig var rædd framtíð vefsvæðisins Visit Tröllaskagi. Ljóst er að margir möguleikar leynast í ferðaþjónustu á Tröllaskaga. Lögð var fram sú hugmynd að skapa ferðaþjónustuaðilum sameiginlegan vettvang í gegnum Facebook hóp. Þar verði til vettvangur til samráðs um ýmis sameiginleg mál og til að auglýsa viðburði, opnunartíma, fundi og þjónustu sem í boði er. Í dag er lítt virkur hópur á Facebook fyrir ferðaþjónustuaðila í Dalvíkurbyggð og því tekin ákvörðun um að breyta þeim hóp og stækka.

Fleira var ekki til umfjöllunar á fundinum en ljóst er að mikill kraftur er í ferðaþjónum á svæðinu og horft er til aukins samstarfs aðila á Tröllaskaga.

Getum við bætt síðuna?