Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - sumar

Pistill framkvæmdastjóra - sumar

Sumarið hefur sannarlega leikið við okkur fram að þessu á Norðurlandi eystra og hefur þetta yndislega sumarveður glatt okkur hjá SSNE eins og vonandi ykkur hin. Nú fer starfsfólk okkar að týnast í sumarfrí hvert á fætur öðru, enda mikilvægt að safna orku fyrir verkefni haustsins. Það er ótalmargt spennandi framundan hjá okkur að loknu sumarfríi, til að mynda spennandi áhersluverkefni Sóknaráætlunar Norðurlands eystra, má þar nefna verkefnið Auknar fjárfestingar á Norðurlandi eystra. Það verkefni styður vel við áherslur Sóknaráætlunar Norðurlands eystra sem byggir á þeirri framtíðarsýn að landshlutinn muni halda áfram að vaxa og dafna með tilliti til atvinnu- og nýsköpunar, menningar og umhverfis.

Eins og sjá má á fréttabréfi mánaðarins hefum við ekkert verið að slá slöku við þó sumarið sé komið. Kynntum t.a.m. tillögu um stofnun líforkuvers við Dysnes í Eyjafirði, áttum frábæran starfsdag á Húsavík, og héldum góðan fund með Samráðsvettvangi Sóknaráætlunar Norðurlands eystra svo lítið eitt sé nefnt. Að auki höfum bæði verið á faraldsfæti um landshlutann, heimsótt til að mynda Þórshöfn, Grímsey og Kópasker, og tekið á móti góðum gestum, m.a. sveitarstjórnarfólki frá Grænlandi og Lettlandi.

Sumarfrí gefur einstaklingum og fjölskyldum tækifæri til að slaka aðeins á og draga andann. Sumarfríið gefur okkur einnig dýrmæt tækifæri til að kanna og njóta þessa magnaða landshluta enn betur, taka þátt í menningunni sem sannarlega blómstrar á sumrin, og njóta stundanna við grillið í náttúrufegurð svæðisins. Það ætlar starfsfólk SSNE svo sannarlega að gera í júlí og verða skrifstofur SSNE því lokaðar síðustu tvær vikurnar fyrir Verslunarmannahelgi. Fréttabréfið fer sömuleiðis í sumarleyfi og kemur því ekki út um næstu mánaðarmót.

Við ætlum okkur að mæta endurnærð til starfa í ágúst, tilbúin til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem eru á borðinu hjá okkur þessa dagana, en öllum er þeim ætlað að stuðla að því að ná markmiðum Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Þessi verkefni ná yfir ólíkar atvinnugreinar, allt frá sorpmálum til endurnýjanlegra orkugafa, til lista og menningar. Við trúum því að við náum árangri til framtíðar með því að stuðla að fjölbreyttu vistkerfi atvinnuþróunar sem hvetur til sjálfbærni og samstarfs. Jafnframt er mikilvægt að vinna að valdefla samfélaga og einstaklinga til að raungera verkefni sín. Með því að styðja við nýsköpun og raunar skapandi hugsun almennt, getum við byggt framtíð Norðurlands eystra. Höfum það í huga í sumarfríinu!

Getum við bætt síðuna?