Fara í efni

Pistill framkvæmdastjóra - September

Pistill framkvæmdastjóra - September

Septembermánuði allt í einu lokið og vægt sagt að haustið sé að læðast upp að okkur. Mánuðurinn hefur verið viðburðaríkur hjá SSNE og margt sem er þess vert að nefna í þessum stutta pistli septembermánaðar.

Opnað var fyrir umsóknir í Uppbyggingarsjóð Sóknaráætlunar Norðurlands eystra fyrr í mánuðinum, en umsóknarfrestur í ár er fyrr en áður hjá okkur og er það von okkar að það verði til þess að verkefnin sem hljóta styrk geti hafist með krafti strax í upphafi árs. Ég hvet auðvitað öll til að kynna sér málið og sækja um ef þið eruð að vinna að góðum verkefnum sem falla undir áherslur sjóðsins.

Við fengum þær góðu fréttir einnig í september að stjórn Byggðastofnun samþykkti ársframlengingu á Brothættra byggða verkefninu Betri Bakkafjörður, en haldinn var velheppnaður íbúafundur á Bakkafirði í byrjun mánaðarins. Það er ágætt að nefna það að nú er verið að auglýsa eftir nýjum verkefnastjóra verkefnisins – en allar upplýsingar um starfið má finna hér. Í því samhengi má svo nefna að afmælismálþing Brothættra byggða verður haldið á Raufarhöfn 5. október næstkomandi og eru öll áhugasöm velkomin þangað sömuleiðis.

Við fengum fjölmarga góða gesti í mánuðinum, en einnig mættu formaður og framkvæmdastjóri SSNE til fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku, en við það tækifæri funduðu formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna um sameiginleg málefni. Það var gagnlegur og góður fundur, en það má segja að það sé nú sem áður góður samhljómur um að aukin samvinna sé lykillinn að því að ná árangri í málefnum landshlutanna.

Annars er fjölmargt spennandi framundan í október. Sveitarstjórnarfólk á Norðurlandi eystra mun koma saman til Haustþings SSNE föstudaginn 6. október næstkomandi, en þar verður meðal annars fjallað um tillögu að Samgöngustefnu SSNE 2023-2033. Þar verður einnig farið yfir framvindu starfsáætlunar þessa árs og ýmislegt fleira áhugavert. Þingið er opið öllum, en það fer fram rafrænt á Teams. Þá verða þingmenn kjördæmisins á ferð og flugi um kjördæmið í næstu viku en þá er kjördæmavika þessa þings.

Í október fer einnig af stað vöruþróunarverkefnið Straumhvörf, sem er vöruþróunarverkefni í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Að verkefninu standa Austurbrú/SSA, Markaðsstofa Norðurlands, SSNV og SSNE með stuðningi frá Byggðastofnun. Markmið verkefnisins er að nýta þau tækifæri sem felast í auknu millilandaflugi til Norður- og Austurlands með samstarfi um þróun á nýjum vörupökkum sem auknar komur farþega beint inn á svæðið bjóða upp á. Fyrsti fundur verkefnisins verður haldinn á Teams 12. október n.k. kl. 10 og er opinn öllum áhugasömum. Ég hvet ykkur sem starfið í ferðaþjónustu til að taka þátt og nýta tækifærið til að efla ferðaþjónustu í ykkar nærumhverfi.

Annað samstarfsverkefni, Startup Stormur – Vaxtarrými fyrir frumkvöðla á Norðurlandi, fer á fullt í október en það er nýsköpunarhraðall sem er hluti af hringrás Norðanáttarinnar, en Norðanáttin er samstarfsverkefni SSNE, SSNV og EIMS með dyggum stuðningi Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins.

Við hjá SSNE fögnum sannarlega haustinu með öllum sínum fallegu litum og hlökkum til að fylgjast með öllum haustlaukunum vaxa og dafna með ykkur.

Gleðilegan október!

Getum við bætt síðuna?