Fara í efni

Norðurland og norðurslóðir - Undirritun samnings í Hofi

Frá undirritun í Hofi. Mynd: Elva Gunnlaugsdóttir.
Frá undirritun í Hofi. Mynd: Elva Gunnlaugsdóttir.

Norðurland og norðurslóðir - Undirritun samnings í Hofi

Áhersluverkefni ársins 2021 voru samþykkt þann 5. febrúar sl. á 21. stjórnarfundi SSNE. Um er að ræða 11 mikilvæg og metnaðarfull verkefni sem meðal annars er ætlað er að fylgja eftir áherslum sem lagðar eru fram á þingum samtakanna. Verkefnunum er öllum ætlað að vera lokið í apríl 2022. Alls var 60,7 m.kr. úthlutað að þessu sinni, þar af var úthlutun til Norðurslóðamiðstöðvar Íslands 14 m.kr. Skilgreining verkefnisins er meðal annars sú að Akureyri verði formlega viðurkennd sem Norðurslóðamiðstöð Íslands, þannig verði vægi Akureyrar í málefnum norðurslóða aukið og staða starfseminnar á Akureyri tryggð. Auka skal samvinnu sveitarfélaga á Norðausturlandi með samtölum og einnig efla stuðning við rannsóknarsamvinnu á svæðinu.  

„Í sóknaráætlun landshlutans er lögð áhersla á að hvetja til nýsköpunar í norðurslóðamálum og að Akureyri verði miðstöð fyrir norðurslóðastarfsemi í landinu. Í samstarfi við Norðurslóðanet Íslands telur stjórn því mikilvægt að auka enn frekar vægi Akureyrar í málefnum norðurslóða á Íslandi, að auka samvinnu sveitarfélaga í landshlutanum í málefnum norðurslóða og auka stuðning við rannsóknarsamvinnu á Norð-Austurlandi” , segir Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE.


Norðurland og norðurslóðir

Í dag var formlega skrifað undir samning um áhersluverkefnið milli SSNE og Norðurslóðanets Íslands og í tilefni af því bauð Akureyrarbær og SSNE utanríkisráðaherra til fundar undir yfirskriftinni Norðurland og norðurslóðir.

Á myndinni frá vinstri: Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, Embla Eir Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins, Eyþór Björnsson, framkvstj. SSNE og Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE og bæjarfulltrúi.

Fundurinn fór fram í Hofi á Akureyri en vegna fjöldatakmarkana var honum einnig streymt í beinni á netinu. Fyrir fundinn undirrituðu Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE og Embla Eir Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins samning milli SSNE og Norðurslóðanetsins um að Norðurslóðamiðstöð Íslands verði eitt af áhersluverkefnum SSNE árið 2021.

Á fundinum voru til umræðu sérstök tækifæri Norðurlands á norðurslóðum, m.a. á grundvelli tillagna nýútkominnar skýrslu Össurs Skarphéðinssonar um aukið samstarf Íslands og Grænlands sem ber heitið Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum. En einnig endurskoðaða stefnu Íslands í Norðurslóðamálum og vinnu starfshóps um efnahagsþróun á norðurslóðum undir stjórn Árna Sigfússonar.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, opnaði fundinn og talaði um mikilvægi Akureyrar sem miðstöðvar norðurslóðarstarfs á Íslandi en Akureyrarbær hefur lengi vel tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum, til að mynda með þátttöku í Northern Forum og Artic mayors forum þar sem Akureyri fer með formennsku.

Guðlaugur Þór Þórðason, utanríkisráðherra, sérstakur boðsgestur sagði á fundinum styðja heilshugar hlutverk Akureyrar sem miðstöð eða höfuðstöð norðurslóða á Íslandi og talaði um bjarta tíma framundan í málefnum norðurslóða.

 

 

 

 

 

 

 

 

,,Málefni norðurslóða eru í forgangi í íslenskri utanríkisstefnu enda snerta þau hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti”,
segir Guðlaugur Þór. Enn fremur telur Guðlaugur að efla megi samskipti og samstarf Íslands og Grænlands enn frekar en í skýrslu grænlandsnefndar eru settar fram 99 tillögur um aukna samvinnu á fjölmörgum sviðum. ,,Í mörgum þeirra er talað sérstaklega um hlutverk Akureyrar og Norðurlands. Það er því augljóst að Akureyri og Norð-Austurland hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að raungera tillögurnar”, segir Guðlaugur Þór og telur mikilvægt að hefja sem fyrst samvinnu við útfærslur tillagna nefndarinnar með grænlenskum stjórnvöldum.

Jón Þór Kristjánsson, verkefnastjóri upplýsingamiðlunar hjá Akureyrarstofu leyddi pallborðsumræður eftir ávörp, þar sem Hilda Jana Gísladóttir, formaður stjórnar SSNE og bæjarfulltrúi á Akureyri, Embla Eir Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurslóðanetsins tóku þátt í ásamt bæjarstjóra og utanríkisráðherra.

Hér er hægt að horfa á upptöku ávarpa sem og pallborðsumræður sem byrja frá 00:17:35

Getum við bætt síðuna?