Fara í efni

Menningarfulltrúi SSNE tekur sæti í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík fyrir hönd Byggðastofnunar

Dansarar úr Íslenska dansflokknum á opnun Listahátíðar 2024. 
Ljósmyndari: Juliette Rowland
Dansarar úr Íslenska dansflokknum á opnun Listahátíðar 2024.
Ljósmyndari: Juliette Rowland

Menningarfulltrúi SSNE tekur sæti í fulltrúaráði Listahátíðar í Reykjavík fyrir hönd Byggðastofnunar

Stjórn Listahátíðar í Reykjavík samþykkti þann 21. október að menningarfulltrúi úr landsbyggðunum tæki sæti í fulltrúaráði Listahátíðar fyrir hönd Byggðastofnunar. Fulltrúaráðið mynda samtök, fyrirtæki og stofnanir sem sjá má hér og er markmið þess að vera samráðsvettvangur um hvað eina er lýtur að Listahátíð. Grunnmarkmið þess er að vera ráðgefandi fyrir stjórn og stjórnendur hátíðarinnar, einkum um langtímamarkmið og stefnu hennar. Með orðum Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur listræns stjórnanda hátíðarinnar: ,,Fulltrúaráðið er hreyfiafl hátíðarinnar og mikilvægur samráðsvettvangur um hvað eina sem snertir stefnumótun hennar“. Með þessu mikilvæga skrefi verður rödd listafólks og njótenda utan höfuðborgarsvæðisins hluti af stefnumótandi umræðu Listahátíðar og virkur partur af tengslaneti íslensks menningarlífs.

Í kjölfar samþykktarinnar hefur Byggðastofnun skipað Hildi Halldórsdóttur, menningarfulltrúa SSNE, sem fulltrúa sinn í ráðinu til tveggja ára. Menningarfulltrúar landshlutasamtaka starfa saman að eflingu menningar og skapandi greina um allt land og verður Hildur fyrsti fulltrúi þessa hóps í ráðinu. Heba Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Byggðastofnunar, verður varafulltrúi. Með þessari skipan sameinar Byggðastofnun krafta landshlutasamtaka og ýtir undir að sjónarmið og hagsmunir skapandi greina á landsbyggðinni fái vægi í stefnumótun hátíðarinnar.

„Það skiptir miklu máli að rödd listafólks og menningarstarfsfólks um allt land heyrist í samtíma umræðu og stefnu íslensks menningarlífs. Með þessari aðild getum við verið enn virkari bakhjarl fólks í skapandi greinum, óháð búsetu. Þarna skapast líka tækifæri á að vekja athygli á spennandi aðstöðu í öllum landshlutum og vonandi unnið að auknum möguleikum fólks um allt land að njóta viðburða hátíðarinnar“, segir Hildur Halldórsdóttir, fyrir hönd menningarfulltrúa landshlutasamaka. 

Sterkari tengsl og sameiginleg sýn

Aðild menningarfulltrúa fyrir hönd Byggðastofnunar að fulltrúaráðinu er liður í markvissri hagsmunagæslu fyrir skapandi greinar og listafólk í landsbyggðunum. Með setu í ráðinu verður unnt að stuðla að auknum sýnileika listafólks sem starfar að metnaðarfullum verkefnum víða um landið. Þá er einnig lögð áhersla á að efla aðgengi íbúa utan höfuðborgarsvæðisins að viðburðum Listahátíðar.

„Við viljum ýta undir að Listahátíð í Reykjavík endurspegli fjölbreytileika íslensks menningarlífs og nái til allra landsmanna, óháð búsetu,“ segir Heba Björk Jóhannesdóttir, varafulltrúi í ráðinu. ,,Menningarfulltrúar landshlutasamtaka búa yfir dýrmætum upplýsingum um aðstöðu og tækifæri til viðburðahalds um allt land. Þeir geta þannig verið lykilaðilar í að tengja Listahátíð við fjölbreytt menningarlíf landsbyggðanna og skapa nýjar tengingar milli listafólks, stofnana og áhorfenda.“

Með þessari aðild verða nú þrír fulltrúar frá landsbyggðunum í fulltrúaráðinu – fulltrúi Listasafnsins á Akureyri, fulltrúi Menningarfélags Akureyrar og fulltrúi Byggðastofnunar. Þessi skref undirstrika þá sýn Listahátíðar að menning og listir séu ekki forréttindi fárra heldur réttur allra.

„Við fögnum því að fá Byggðastofnun til liðs við okkur í fulltrúaráðinu. Það er mikilvægt að hátíðin endurspegli allt landið og að við höfum aðgang að innsýn og tengslaneti sem nær út fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir Tinna Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík.




Hafnarsvæðið á Húsavík iðaði af lífi þegar sæskrímslin stigu þar á land sem hluti af aðaldagskrá Listahátíðar 2024.

,,Menning og listir eru ekki forréttindi fárra heldur réttur allra“ er sýn Listahátíðar og er hlutverk hennar að vera aflvaki nýsköpunar og samstarfs í íslensku listalífi í síkviku menningarlandslagi. ,,Hún á í kröftugu og lifandi sambandi við almenning í landinu og leitast við að tendra áhuga sem flestra til að taka þátt og njóta lista á eigin forsendum.“ Sjá nánar hér.

Listahátíð í Reykjavík leggur áherslu á frumsköpun og viðburði sem höfða til fjölbreyttra áhorfendahópa. Hún er sjálfseignarstofnun og starfar samkvæmt þríhliða samningi við Reykjavíkurborg og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti sem eru stofnaðilar hátíðarinnar. Listahátíðin er ekki bundin við höfuðborgarsvæðið og geta viðburðir farið fram um allt land.

Eyrarrósin er einn af föstum liðum Listahátíðar. Í Eyrarrósinni kristallast sú staðreynd að Listahátíð í Reykjavík er Listahátíð alls landsins. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði lista og menningar í byggðum landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Sjálf Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni sem hlýtur peningaverðlaun en er jafnframt gefið kostur á því að standa að viðburði á aðaldagskrá Listahátíðar. Viðburðurinn getur annað hvort farið fram í heimabyggð eða öðru byggðarlagi. Á árinu 2024 hélt þáverandi Eyrarrósarhafi, Alþýðuhúsið, viðburði á Siglufirði sem hluta af aðaldagskrá Listahátíðar. Það verður spennandi að fylgjast með því hvar handhafi Eyrarrósarinnar 2025, Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, mun halda sinn viðburð á Listhátíð 2026.

Getum við bætt síðuna?