Menningarauðlind ferðaþjónustunnar í Hofi

Menningarauðlind ferðaþjónustunnar í Hofi
SSNE tók þátt í ráðstefnunni Menningarauðlind ferðaþjónustunnar sem haldin var á Akureyri þann 14. maí sl. þar sem fjallað var um menningarferðaþjónustu og nýja ferðamálastefnu til 2030.
Menningarferðaþjónusta er nú í fyrsta sinn formlega skilgreind sem hluti af ferðamálastefnu stjórnvalda enda er menning talin afar mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu og ferðamenn sem hingað koma njóta íslenskrar menningar með ýmsum hætti um allt land.
Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) stóð að ráðstefnunni í samstarfi við Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) og hlaut verkefnið styrk úr Hvata, sjóði menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Einnig komu að ráðstefnunni fjöldi aðila úr menningargeiranum og ferðaþjónustunni, m.a. SSNE.
Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var samspil og hlutverk menningar í ferðaþjónustu. Auk þess að skoða hvernig efla megi gagnasöfnun og rannsóknavirkni sem stuðlað getur að þróun og framförum á sviði menningarferðaþjónustu.
Á dagskrá voru dæmisögur af hindrunum, lærdómsvegferð og vel heppnaðri menningarferðaþjónustu, fræðileg erindi og hópavinna. Meðal erinda sem gestir ráðstefnunnar fengu að hlýða á voru fyrirlestrar um Galdrasýningu á Ströndum sem byrjaði sem samfélagslegt nýsköpunarverkefni sem stuðlaði að því að Hólmavík er í dag áfangastaður en ekki stoppistaður, Landnámssetrið í Borgarnesi sem m.a. undirstrikaði hversu mikinn atvinnuveg menningin getur skapað en þar vinnur fleira fólk en í Arion banka Borgarnesi, 1238 á Sauðárkróki sem leggur upp með að miðla sögunni í gegnum leik og vera áhugaverður afþreyingarkostur fyrir fjölskyldur, rekstur Hörpu og tónlistarhátíðina Bræðsluna sem hefur orðið mikið hreyfiafl ímyndar, samgöngubóta og efnahags í Borgarfirði, auk fræðilegra erinda tengd málefnum ráðstefnunnar. Öll erindin sem flutt voru á ráðstefnunni áttu það sammerkt að vera bæði áhugaverð og upplýsandi, sjá nánar hér. Hægt er að hafa samband við menningarfulltrúa SSNE sé áhugi á að ræða ákveðna dagskrárliði.
Eitt erindanna fjallað um svokölluð ,,Hörpu áhrif“ en Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu fjallaði um þau hagrænu áhrif sem niðurstöður nýútkominnar skýrslu sýna fram á. Undirstrikaði hún mikilvægi hússins og lagði Svanhildur áherslu á mikilvægi þess að stjórnendur landsins og þjóðin geri sér grein fyrir þeim áhrifum sem slík menningarhús geta haft í hverju samfélagi.
Það gæti verið fróðlegt að gera sambærilega úttekt fyrir menningarhúsið Hof.
Ákveðin samhljómur var milli erinda á hversu mikilvæg menning og skapandi greinar eru í hverjum byggðarkjarna; hvað varðar byggðaþróun, atvinnumöguleika og ímyndar/staðarstolts, sem og hve enn hallar á þau svið þegar kemur að fjárfestingum og sjálfboðaliðavinnu.
Ráðstefnugestir í Hofi unnu hópavinnu tengda fjórum lykilþáttum:
- Samstarf og klasahugsun
- Markaðs og kynningarmál
- Vöruþróun og fjárfestingar
- Gagnasöfn og rannsóknaráætlun
Vinna hópanna var að henni lokinni kynnt og urðu líflegar umræður um margt af því sem þar kom fram. Afurð hópavinnunnar mun nýtast við mótun rannsóknastefnu á sviðinu og upptaktur að frekari samtali og samstarfi.
Fulltrúi fréttaskýringarþáttarins Spegilsins á RÚV mætti á ráðstefnuna og tók viðtal við bæði Önnu Hildi Hildibrandsdóttur, fagstjóra skapandi greina við Háskólann á Bifröst og stjórnarformann Rannsóknaseturs skapandi greina, sem og Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, um mikilvægi þess að horfa til Menningar sem lykilþáttar í upplifun ferðamanna – og hvernig betri gögn og rannsóknir geta stutt við þróun menningarferðaþjónustu á Íslandi. Hér má hlusta á umfjöllun Spegilsins.
Hér má finna upptökur af erindum og pallborðsumræðum:
- Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, var formaður starfshóps um menningartengda ferðaþjónustu í mótun ferðamálastefnu til 2030. Hér fjallar hún um vinnu starfshópsins, verklag, lykilspurningar og þær aðgerðir og markmið sem greint er frá í stefnunni.
- Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, forstöðumaður Landnámssetursins í Borgarnesi, sagði frá setrinu, uppbyggingu þess og starfsemi og áhrif þess á nærumhverfi sitt.
- Jón Jónsson, þjóðfræðingur, sagði gestum frá Galdrasýningu á Ströndum sem er 25 ára á þessu ári. Hann hóf kynningu sína af krafti og sýndi gestum í verki hvernig galdramenn á Ströndum kveða niður drauga.
- Freyja Rut Emilsdóttir, framkvæmdastjóri sögusetursins 1238 Baráttan um Ísland, fjallaði um fyrirtækið og hvernig þau hafa fléttað saman tækni og menningararfi. Hér er dæmisaga af því hvernig segja megi sögu fortíðarinnar, í nútíðinni, með tækni framtíðarinnar, og gera þannig söguna áhugaverða, t.d. fyrir ungt fólk.
- Áskell Heiðar Ásgeirsson, lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum og sérfræðingur deildarinanr í viðburðarstjórnun, fjallaði um Bræðsluna á Borgarfirði eystra en hann er jafnframt upphafsmaður og annar eigandi hátíðarinnar. Með erindinu var leitast við að svara því hvort viðburðir geti styrkt brothættar byggðir.
- Guðrún Dröfn Whitehead, lektor í safnafræði við Háskóla Íslands, veltir fyrir sér hlutverki safna innan ferðaþjónustunnar og sameiginlegum hagsmunum þeirra. Hún ræðir þetta út frá verkefni sem hún vinnur að í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Félag íslenskra safna og safnafólks.
- Ingibjörg Benediktsdóttir, verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga, talar hér um óáþreifanlegan menningararf, þróun hans og sjálfbærni innan ferðaþjónustunnar.
- Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands, ræðir hér um túrisma, áföll og nýjar miðlunarleiðir í samhengi við Eldheima, sýningar í Vestmannaeyjum sem gerð var um gosið í Heimaey 1973. Hann nefnir m.a. þau læknandi áhrif sem heimsókn í safnið hefur gjarnan á þau sem upplifðu gosið.
- Hér má sjá myndband eftir Örlyg Hnefil Örlygsson, framleiðanda og kvikmyndagerðarmann, sem hann gerði fyrir kvikmyndaráðstefnu í Hörpu árið 2024. Þar fjallar hann um Eurovisionmynd Netflix sem gerð var á Húsavík og aðdragandann að Óskarstilnefningu fyrir lag myndarinnar, My Home Town.
- Yfirlit allra erinda og pallborðsumræður
- Ljósmyndir frá ráðstefnunni, teknar af Sindra Swan.