Fara í efni

Loftslagsstefna fyrir Norðurland eystra

Loftslagsstefna fyrir Norðurland eystra

Fimmtudaginn 8.janúar samþykkti stjórn SSNE að vísa nýrri Loftslagsstefnu Norðurlands eystra til afgreiðslu í öllum sveitarstjórnum innan SSNE.

Loftslagsstefnan markar tímamót fyrir landshlutann, hún er metnaðarfullt skjal sem unnið var í góðri samvinnu og markar landshlutanum sérstöðu í loftslagsmálum. Með loftslagsstefnunni setja sveitarfélögin á Norðurlandi eystra sér sameiginleg markmið og aðgerðir í loftslagsmálum.

Stefnan er aðgerðamiðuð og stefnt er að því að aðgerðir verði uppfærðar á tveggja ára fresti frá samþykkt stefnunnar. Aðgerðirnar eru fáar, skýrar og markvissar til að tryggja að þær verði unnar hratt og öruggglega svo að nýjar aðgerðir geti tekið við að tveimur árum liðnum. Þannig er verið að tryggja kraftmikla samfellu aðgerða í loftslagsmálum.

Verkefnið er hluti af gildandi Sóknaráætlun landshlutans og RECET-verkefninu um orkuskipti í dreifðum byggðum. Stefnan er unnin af SSNE og Eim en vinnunni var stýrt af samráðshópi sem var skipuður fulltrúum frá öllum sveitarfélögum innan SSNE.

Áhrifa loftslagsbreytinga gætir víða á Norðurlandi eystra og fyrirsjáanlegt er að þau muni einungis koma til með að aukast á næstu árum. Norðurland eystra er sá landshluti þar sem hæstu meðalhitaaukningu er spáð og áhrif loftslagsbreytinga hafa þegar birst í breytingum á veðurfari og dýralífi. Samkvæmt skýrslu Environice um Kolefnisspor Norðurlands eystra er losun CO2 mest frá framræstu votlendi eða um 60% af heildarlosun. Í landshlutanum er heildarlosun hlutfallslega svipuð og hún er á landsvísu, að undanskilinni losun frá vegasamgöngum og fiskiskipum þar sem hún er hærri en landsmeðaltalið.

Aðgerðir stefnunnar ná allt frá orkuskiptum í bifreiðaflota sveitarfélaga til endurheimt votlendis í landi sveitarfélaga. Áhersla er lögð á loftslagsvænar samgöngur enda liggja tækifæri sveitarfélaga til að hafa áhrif á losun að miklu leyti í þeim málaflokki. Einnig eru aðgerðir um orkusparnað opinberra bygginga, LED-væðingu götulýsingar, innleiðingu á rafrænu losunarbókhaldskerfi fyrir sveitarfélög og margt fleira.

Lagt er til að stefnunni verði framfylgt með formlegum samvinnuvettvangi milli sveitarfélaganna ásamt því að öll gögn um árangur og losunartölur verði birt opinberlega og með reglulegum hætti.

Eftir að stefnan hefur verið afgreidd í viðkomandi sveitarstjórnum er gert ráð fyrir að stefnan verði endanlega samþykkt á ársþingi SSNE 2026 þann 26.mars næstkomandi.

Getum við bætt síðuna?