Fara í efni

Fjölmennt og skapandi málþing um listnám á háskólastigi á Akureyri - Myndaveisla

Anna Richardsdóttir, gjörningalistakona, dansari og kvikmyndagerðakona.
Anna Richardsdóttir, gjörningalistakona, dansari og kvikmyndagerðakona.

Fjölmennt og skapandi málþing um listnám á háskólastigi á Akureyri - Myndaveisla

Afar fjölsótt málþing um listnám á háskólastigi á Akureyri var haldið í Listasafni Akureyrar í síðustu viku. (Sjáðu myndaalbúm neðst í frétt)

Með framsögur fóru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og Anna Richards, dansari, gjörningalista- og kvikmyndagerðakona, en nýlega var stuttmynd Önnu, sem hlaut styrk úr uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra, VAR, valin til að keppa í Sprettfisk á Stockfish film festival! 



„Ef að viljinn er fyrir hendi og fjármagnið er til staðar þá er algjörlega hægt að búa til alls konar vísa að háskólanámi sem annað hvort er hægt að vinna í staðarnámi hér eða með fjarnámi og staðarnámi í Reykjavík eða hvoru tveggja. Þetta er útfærsluatriði. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og fjármagnið fæst”, sagði ráðherra meðal annars.

Að loknum framsögum kynnti Arnar Jóhannesson frá RHA fýsileikakönnun sem gerð var á hug framhaldsskólanema á landinu til að stunda listnám á háskólastigi á Akureyri.



Þá fóru fram lifandi og málefnalegar pallborðsumræður með þátttöku framsögumanna auk Örnu Valsdóttir, listamanns og Benedikts Barðasonar, aðstoðarskólastjóra VMA og skrifað var undir áframhaldandi samstarfssamning háskólanna til þriggja ára. 
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri flutti lokaerindi og færði ráðherra og rektor Listaháskóla Íslands skemmtilega boli sem þær munu án vafa nota mikið.

Vilhjálmur Bergmann Bragason, leikari og vandræðaskáld skemmti gestum með frumsaminni tónlist eins og honum einum er lagið við góðar undirtektir. Lagið átti sannarlega vel við tilefni dagsins og sagði hann léttur í bragði að Akureyri án listnáms væri eins og steikhús án Béarnise. Flutning hans má sjá hér fyrir neðan.

Verkefnið er styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra og er eitt af áhersluverkefnum SSNE þar sem meginmarkmið þess er að jafna tækifæri til náms, hækka menntunarstig í landshlutanum, auka framboð listnáms í landshlutanum, fjölga störfum tengdum listgreinum og að Akureyri verði eftirsóttur staður til að sækja menntun á sviði lista.

Flettu myndaalbúmi hér fyrir neðan til að skoða fleiri myndir frá málþinginu.

Getum við bætt síðuna?