Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr Talsetningar- og textunarsjóði fjölmiðlaveitna. Umsóknum skal skilað til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis fyrir miðnætti sunnudaginn 14. desember nk. á netfangið mnh@mnh.is.
Í reglum nr. 1231/2025 um úthlutun styrkja úr Talsetningar- og textunarsjóði fjölmiðlaveitna kemur fram að sjóðnum sé ætlað að styrkja innlenda einkarekna fjölmiðla sem talsetja og texta barnaefni á íslensku með það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum fjölmiðlaveitum og stuðla að vernd íslenskrar tungu. Sjóðurinn er starfræktur tímabundið til þriggja ára en fyrst var úthlutað úr sjóðnum árið 2024. Styrkir eru veittir til talsetningar og/eða textunar á barnaefni á íslensku sem er til sýningar á innlendum áskriftarfjölmiðli. Miðað er við að efnið hafi verið frumsýnt síðastliðna 12 mánuði og er þar miðað við dagsetningu fyrrgreinds umsóknarfrests.
Í 5. gr. reglnanna eru tilgreind skilyrði fyrir styrkveitingu og í 6. gr. er getið sérstakra atriða sem þurfa að koma fram í umsókn. Er umsækjendum bent á að kynna sér reglurnar í heild sinni og hvaða kröfur eru gerðar um gögn sem eiga að fylgja umsókn. Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið sér um umsýslu umsókna. Til úthlutunar árið 2025 verða 60 milljónir kr. Menningar- og viðskiptaráðherra úthlutar fé úr sjóðnum.
Umsóknir um styrk skulu sendar til á netfangið mnh@mnh.is. Ekki þarf að fylla út sérstakt eyðublað en í erindi umsækjanda til ráðuneytisins skal koma fram heiti fjölmiðlaveitu, titill verks eða verka, kostnaðaruppgjör vegna talsetningar og/eða textunar verks eða verka, upplýsingar um bankareikning vegna greiðslu styrks, upplýsingar um tengilið vegna umsóknar ásamt fylgigögnum sem umsækjandi telur nauðsynlegt að fylgi með umsókn.Njóti umsækjandi annarra styrkja fyrir verkefnið skal það koma fram í umsókn.
Umsóknum skal skilað á netfangið mnh@mnh.is fyrir miðnætti sunnudaginn 14. desember nk. Ef spurningar vakna um umsóknarferlið má senda fyrirspurn á sama netfang.