Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki til staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og er umsóknarfrestur til miðnættis sunnudaginn 7. desember 2025.
Markmið með styrkveitingum til einkarekinna staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins er að efla starfsemi þeirra enda gegni þeir mikilvægu hlutverki við að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um menningar- og samfélagsmál og styðji með þeim hætti við lýðræðisþátttöku og menningarstarf. (3. gr. reglna nr. 1189/2025 um styrkveitingar til staðbundinna fjölmiðla).
Til úthlutunar árið 2025 eru 15 m.kr.: 12,5 m.kr. frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneyti og 2,5 m.kr. frá innviðaráðuneyti vegna aðgerðar C.07 í byggðaáætlun, Efling fjölmiðlunar í héraði.
Umsækjendum er bent á að kynna sér ákvæði reglna nr. 1189/2025 um styrkveitingar til staðbundinna fjölmiðla.
Til að sækja um þarf að fylla út umsóknareyðublað sem nálgast má hér og í hlekk neðst í fréttinni. Umsóknina þarf að prenta út til undirritunar, skanna og senda, ásamt umbeðnum fylgiskjölum á netfang menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis, mnh@mnh.is, fyrir miðnætti 7. desember 2025. Ef spurningar vakna um hvernig eigi að fylla umsóknina út er hægt að senda fyrirspurn á framangreint netfang.
Til glöggvunar má nefna að höfuðborgarsvæðið nær yfir sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ, Seltjarnarnesbæ og Mosfellsbæ.