Fara í efni
Styrkir til markvissari og loftslagsvænni áburðarnotkunar

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hafa ákveðið að ráðstafa 80 milljónum króna í Loftslags- og orkusjóð til fjárfestinga í tækjakaupum sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar í landbúnaði. Ráðstöfunin er í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um eflingu nýsköpunar í landbúnaði og markvissari stuðning við bændur.

Nákvæmari og markvissari áburðardreifing skilar sér í bættri nýtingu næringarefna, minni losun gróðurhúsalofttegunda og bættum búrekstri. Áhersla er lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins. Forgangur er veittur þeim verkefnum sem eru talin skila mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda (koldíoxíð-ígilda) í hlutfalli við upphæð styrks. Heimilt er að veita styrki til kaupa á búnaði sem keyptur er í samstarfi aðila, svo sem í gegnum búnaðarfélag eða verktaka sem annast áburðardreifingu fyrir bændur. Dæmi um styrkhæf tækjakaup eru:

  • GPS tækni fyrir bætta nákvæmni við áburðardreifingu
  • Tækni til niðurfellingar/-lagningar á áburði
  • Önnur tæki sem bætt geta nýtingu áburðar og minnkað áburðarnotkun í landbúnaði

Hámarks styrkhlutfall skal vera 40% af heildarkostnaði fjárfestingar án virðisauka. Styrkfjárhæð í hverri úthlutun skal nema að hámarki tíu milljónum króna fyrir hvern umsækjanda.

Auk framangreindra sjónarmiða er heimilt við mat á umsóknum og ákvörðun úthlutunar að taka tillit til sjónarmiða er fram koma í 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um Loftslags- og orkusjóð eftir því sem við á.

Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:

Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila.

  • Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
  • Lýsing á verkefninu og því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga.
  • Tíma- og verkáætlun.
  • Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.

Styrkur greiðist samkvæmt samningi og framlagningu staðfestingar á kaupum búnaðar.

Umsóknir þurfa að uppfylla skilyrði 4. mgr. 30. gr. búvörulaga vegna fjárfestingar í tækjakaupum sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna áburðarnotkunar í landbúnaði.

Styrkumsóknir eru afgreiddar samkvæmt reglugerð nr. 1566/2024 um Loftslags- og orkusjóð.
Umsóknarfrestur er til 22. desember 2025.

Hægt er að sækja um á síðu Loftslags- og orkusjóðs.

Styrkir til markvissari og loftslagsvænni áburðarnotkunar