Fara í efni

Velheppnuðu ársþing SSNE í Þingeyjarsveit lokið

Úr Mývatnssveit.
Úr Mývatnssveit.

Velheppnuðu ársþing SSNE í Þingeyjarsveit lokið

Það bar loks á vorveðri þegar þinggestir yfirgáfu félagsheimilið Skjólbrekku í Þingeyjarsveit eftir afar vel heppnað ársþing SSNE.

Ársþingið, sem var afar vel sótt af sveitarstjórnarfólki landshlutans og öðrum góðum gestum, markaði upphafið að vinnu við nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra, auk þess sem umfangsmikil umræða fór fram um stöðu nærþjónustu ríkisins í landshlutanum.

Þingið hófst á hefðbundnum aðalfundarstörfum og fór formaður stjórnar SSNE, Lára Halldóra Eiríksdóttir, yfir skýrslu stjórnar, auk þess sem fram fór afgreiðsla ársreiknings 2023 og endurskoðuð fjárhagsáætlun samþykkt. Þá ávarpaði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, þingið og kynnti það sem efst hefur verið á baugi í starfsemi Sambandsins.

Eftir hádegi á fimmtudaginn voru haldnar þrjár kynningar. Sigurborg Ósk Hannesdóttir verkefnastjóri SSNE kynnti möguleika svæðisskipulags, Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands kynnti áfangastaðaáætlun Norðurlands og Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu kynnti sögu Sóknaráætlanna landshlutanna. Í framhaldi af kynningunum var haldin vel heppnuð vinnustofa um nýja Sóknaráætlun Norðurlands eystra sem leidd var af starfsfólki SSNE. Fjölmargar vinnustofur til viðbótar verða haldnar víðsvegar um landshlutann í haust og mun öllum þeim sem áhuga hafa gefast tækifæri til að taka þátt í samtalinu.

Í lok dags bauð sveitarfélagið Þingeyjarsveit þinggestum í móttöku í Gíg, þar sem fulltrúar sveitarfélagsins, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs kynntu aðstöðuna í húsinu og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu hússins. Kunnum við þeim góðar þakkir fyrir móttökunar.

Seinni dagurinn hófst venju samkvæmt með áhugaverðri kynningu á starfsemi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Í framhaldinu mættu til þingsins fulltrúar frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands og ræddu stöðu nærþjónustu ríkisins í landshlutanum. Í framhaldi af umræðunni var samþykkt ályktun þingsins um stöðu nærþjónustunnar, en hún hefur verið verulega vanfjármögnuð undanfarin ár. Ályktun þingsins má nálgast hér.

Starfsfólk SSNE þakkar þinggestum fyrir ánægjulega samveru og gagnlegt samtal í Mývatnssveitinni og þakkar sveitarfélaginu Þingeyjarsveit fyrir móttökurnar. Þinggerð þingsins verður gerð aðgengileg á heimasíðu SSNE um leið og hún liggur fyrir.

Getum við bætt síðuna?