Fara í efni

Vel heppnuð og fjölmenn byggðaráðstefna

Mynd af vef Byggðastofnunar.
Mynd af vef Byggðastofnunar.

Vel heppnuð og fjölmenn byggðaráðstefna

Dagana 25. - 26. október sl. var haldin tveggja daga ráðstefna í Mýrdal með yfirskriftina „Menntun án staðsetningar?“ og var hún ein af byggðaráðstefnum sem Byggðastofnun stendur að annað hvert ár í samstarfi við Samband sveitarfélaga og landshlutasamtökin, ásamt því sveitarfélagi þar sem ráðstefnan er haldin hverju sinni. Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri mætti á ráðstefnuna fyrir hönd SSNE.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar voru margvísleg, meðal annars hvernig sveitarfélagið Hornafjörður í samstarfi við Háskóla Íslands hefur nálgast viðfangsefnið starfsþróun kennara og starfsfólks í grunnskólum, um skólaþjónustu sveitarfélaga, leiðir til að bæta þjónustu við skólana út um landið, nýtingu tækni til að auka tækifæri nemenda og jafna aðbúnað, fjarkennslu raungreina, áhrif aukinnar menntunar á búsetu, stöðu og hlutverk þekkingarsetra, hvernig Fab Lab smiðjur geta eflt áhuga og færni í raun-, verk- og tæknigreinum og menntun án staðsetningar með skóla í skýjum.

Flutt voru fimmtán erindi og fyrirlesarar komu flestir frá háskólum, stofnunum eða sveitarfélögum. Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, ávarpaði ráðstefnugesti. Einnig ávarpaði fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, Guðrún Hafsteinsdóttir, ráðstefnugesti. Auk þess tóku til máls Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri Mýrdalshrepps og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fundarstjórar voru Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra og Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.

Um 70 manns mættu á staðinn en um 30 hlustuðu gegnum streymi, svo segja má að um hundrað manns hafi sótt ráðstefnuna.

Finna má upptöku af ráðstefnunni og glærur fyrirlesaranna hér.

 

 

Getum við bætt síðuna?