Fara í efni

Vel heppnaður og fjölmennur íbúafundur á Bakkafirði

Vel heppnaður og fjölmennur íbúafundur á Bakkafirði

Stjórn verkefnisins "Betri Bakkafjörður" efndi til íbúafundar 8. september s.l. Fundurinn var mjög vel heppnaður og fjölmennur. Kristján Þ. Halldórsson formaður verkefnistjórnar setti fundinn og bauð gesti velkomna. Jónas Egilsson sveitarstjóri flutti ávarp og rakti tilgang fundarins og bar fundarmönnum góðar kveðjur til oddvita Langanesbyggðar sem var forfallaður. Gunnar Már Gunnarsson verkefnisstjóri fór yfir fundarefni sem er staðan á verkefninu "Betri Bakkafjörður" og viðbrögð íbúa við samfélagssáttmála sem er á lokaspretti í vinnslu. Hann fór einnig yfir það sem gert hefur verið og þau verkefni sem komin eru í höfn til verkefnisstjórnar. Ýmis verkefni eru í vinnslu, s.s. Tanginn og önnur verkefni sem hafa fengið styrki í gegn um verkefnisstjórnina. Alls hafa 23 verkefni verið styrkt og eru þau mjög fjölbreytt. Þrír styrkþegar tóku til máls á fundinum og sögðu stuttlega frá þeim verkefnum sem þau hafa unnið að undanfarið.

Fundarmönnum var því næst skipt í tvo hópa þar sem farið var yfir meginmarkmið og undirmarkmið verkefnisins. Mikill árangur hefur náðst í flestum þeirra markmiða sem sett eru í verkefninu og fundarmenn komu með margar góðar tillögur um mál sem hægt er að setja inn í þau og vinna áfram. Gunnari Má var falið að vinna þær hugmyndir sem fram komu á fundinum frekar og sjá með hvaða hætti þær gætu nýst í áframhaldandi uppbyggingarvinnu á svæðinu.

Íbúafundur á Bakkafirði - Mynd: Kristján Þ. Halldórsson

Samfélagssáttmáli
Kristján Þ. Halldórsson kynnti tilurð samfélagssáttmála sem lagður hefur verið fram á milli íbúa við Bakkaflóa, Langanesbyggðar og ríkisins vegna byggðar við Bakkaflóa. Sáttmálinn er í samræmi við skýrslu nefndarfulltrúa fimm ráðherra um málefni Bakkaflóa, sveitarstjórnar Langanesbyggðar og ráðherra sveitarstjórnarmála.

Jónas Egilsson sveitarstjóri fór yfir sáttmálann og upphaf vinnu við hann. Tillagan um sáttmálann kom fram árið 2017 eftir gagnrýni íbúa sem komið var á framfæri við sveitarstjórn Langanesbyggðar. Sveitarstjórn Langanesbyggðar tók við verkefninu og tengdi saman þá sem á endanum komu að því. Jónas nefndi sérstaklega tvö mál í sáttmálanum en það eru fræðslumál og framtíð þeirra á Bakkafirði og umhverfismál. Gera má ráð fyrir að urðun á Bakkafirði verði ekki nema út þennan áratug og grípa þarf til úrræða í tíma. Ýmsar lausnir eru í skoðun m.a. meiri flokkun. Vinnu við sáttmálann er ekki lokið og eftir er að fara í frekari umræðu á meðal íbúa og þeirra stofnana sem komu að gerð hans.

Gunnar Már upplýsti fundargesti um að fyrirhugað er að auglýsa eftir styrkumsóknum í sjóði Brothættra byggða í nóvember og hvatti íbúa til að fara að huga að næstu verkefnum og hugmyndum. Hægt er að sækja aðstoð Gunnars við að útfæra hugmyndir og skrifa umsóknir. Rebekka Kristín Garðarsdóttir kynnti Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra fyrir fundargestum en opnað verður fyrir umsóknir í hann 4.október nk., og er hægt að sækja aðstoð til Gunnars sem og Rebekku við umsóknarskrif þar.

Gunnar hefur viðveru á skrifstofunni á Bakkafirði alla mánudaga til fimmtudaga 8.00 – 15.00 en einnig er hægt að senda tölvupóst á gunnar@ssne.is eða rebekka@ssne.is.

 

 

Getum við bætt síðuna?