Fara í efni

Vel heppnaðir súpufundir í Öxarfirði og á Raufarhöfn

Vel heppnaðir súpufundir í Öxarfirði og á Raufarhöfn

Íbúafundir sem haldnir voru dagana 26. og 27. janúar í Lundi og á Raufarhöfn í tengslum við tilraunaverkefnið Brothættar byggðir II (BbII) heppnuðust afar vel. Fundirnir, sem báru yfirskriftina „Hvað er að malla í pottunum?“, voru haldnir í samstarfi Norðurþings, SSNE og Byggðastofnunar.

Boðið var upp á notalegt og óformlegt spjall yfir heitri súpu að lokinni kynningu á Frumkvæðissjóðunum. Mæting var mjög góð á báðum stöðum og skapaðist hlý og jákvæð stemning. Þátttakendur sýndu mikinn áhuga á styrkjum og tækifærum sem felast í verkefninu, og er mat verkefnisstjóra að búast megi við fleiri umsóknum en á árinu 2025.

Á fundunum urðu jafnframt líflegar og uppbyggilegar umræður um framtíð samfélaganna, ný tækifæri og sameiginlegar áskoranir. Margir íbúar deildu hugmyndum og sýn á næstu skref, til að efla samstarf og þróa ný verkefni á svæðunum.

Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóði Raufarhafnar og framtíðarinnar II og Frumkvæðissjóð Öxarfjarðar í sókn II. Umsóknarfrestur er til kl. 13:00, mánudaginn 16. febrúar 2026.

Veittir verða verkefnastyrkir fyrir hugmyndir sem samræmast markmiðum verkefnisins og styðja við áframhaldandi uppbyggingu samfélaganna. Ekki er gerð krafa um mótframlag, en það styrkir umsókn ef verkefnið skapar samstarf, virkjar aðila eða leiðir til nýsköpunar á svæðinu.

Verkefnisstjórar svæðanna eru:

- Nanna Steina Höskuldsdóttir, SSNE og Norðurþingi – nanna@ssne.is

- Einar Ingi Einarsson, atvinnu- og samfélagsfulltrúi Norðurþings – einar@nordurthing.is

Þau bjóða bæði upp á viðtalstíma og ráðgjöf vegna hugmyndavinnu og umsóknarskrifa, og eru íbúar hvattir til að nýta sér þá þjónustu.

Getum við bætt síðuna?