Fara í efni

Vá hvað ég hata þriðjudaga! - Ungskáld 2021

Þorsteinn Jakob Klemenzson. (Aðsend mynd)
Þorsteinn Jakob Klemenzson. (Aðsend mynd)

Vá hvað ég hata þriðjudaga! - Ungskáld 2021

Úrslit í ritlistakeppni Ungskálda 2021 voru kynnt í Amtsbókasafninu á Akureyri 9.desember sl. Fyrstu verðlaun hlaut Þorsteinn Jakob Klemenzson fyrir „Vá hvað ég hata þriðjudaga!" Í öðru sæti var Halldór Birgir Eydal með „Ég vil ekki kaupa ný jakkaföt" og Þorbjörg Þóroddsdóttir hreppti þriðja sætið fyrir verk sitt „Mandarínur". Alls bárust 52 verk frá 29 þátttakendum í keppnina að þessu sinni. Að Ungskáldum standa Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmennahúsið í Rósenborg, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Akureyri. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ. Þorsteinn gaf SSNE leyfi til að birta þetta skemmtilega verk eftir hann. Njótið vel!

Blóm
Stundum líður mér eins og blómi
og þegar ég segi blóm
þá meina ég lítið viðkvæmt blóm sem hatar sig
en það er bara á þriðjudögum

Ég sef þegar ég er dauður
Ég sef þegar ég er dauður
ég segi þetta í einhverjum hálfkæringi
sem einhverja aumingjalega afsökun
og auðvelda undankomuleið frá svefni
en í rauninni er þetta ámátleg bæn
um hvíld
og lokafrið,
um endalok

Stjörnuljós
Og ég flýg upp
ég flýg svo hátt og svo lengi
ég snerti stjörnurnar
og þær umvefja mig
þeytast í kringum mig
ég er konungur á meðal stjarna
ég er einn á meðal stjarna

Stjörnur og kastalar
Háleit markmið og lágleit endalok
teygði mig í stjörnurnar en greip í sandkorn
dreymdi kastala en vaknaði í torfkofa
sandkorn og torfkofar
það eru mínar stjörnur og kastalar

Yfirgefning
Og þá yfirgaf ég líkamann
hvarf inn í andlegt fangelsi
festist í köldum hlekkjum samtímans
breytti rútínu í vítahring
og sást aldrei framar

Ótti
Vissuð þið að algengasti ótti í hinum vestræna heimi
er að flytja ræður fyrir framan annað fólk
næst algengast er dauði,
það þýðir að þegar þú ert í jarðarför
vilt þú líklegast frekar vera ofan í kistunni
í staðinn fyrir að flytja ræðu í athöfninni

Einmanaleiki
Ég æfi mig oft í að vera einn
staðreyndin er sú að því lengur sem ég lifi
því líklegra er að ég eyði síðustu árunum
aleinn og einmana
fastur á endalausum þriðjudegi
þess vegna finnst mér gott að hafa smá æfingu

Ranka við
Ég ranka við mér
svalahandriðið teygir sig í átt að mér
ég get ekki sloppið
ég þeytist fram af svölunum
en í stað þess að skella á jörðinni þá hangi ég í lausu lofti
aleinn og eirðarlaus
því svalahandriðið var ekki að kasta mér fram af brúninni
það var að bjarga mér frá ótímabærum endalokum
og einmitt þegar ég hvíli mig í kyrrðinni
og fæ loksins að slaka á
þá ranka ég við mér
við sírenur og blá ljós

Getum við bætt síðuna?