Fara í efni

Úthlutun úr Framkvæmdarsjóðir ferðamannastaða og Landsáætlun: Norðurland eystra

Úthlutun úr Framkvæmdarsjóðir ferðamannastaða og Landsáætlun: Norðurland eystra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu í gær grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2021.

Samtals er nú úthlutað 764 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og 807 milljónum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp innviði á ferðamannastöðum.

HÉR er hægt að sjá lista yfir öll verkefnin sem hlutu styrki. 

Framkvæmdarsjóður ferðamannastaða
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitir að þessu sinni styrki til 54 verkefna um allt land og nemur styrkupphæðin samtals 807 milljónum króna. 11 af þeim verkefnum eru á Norðurlandi eystra.

Heildarupphæð allra umsóttra styrkja að þessu sinni var 2,5 milljarðar króna og voru 21% af því vegna verkefna á Norðausturlandi. Til úthlutunar voru 807 m.kr. og hlutu verkefni í okkar landshluta 17% af heildarupphæðinni eða rúmlega 131 m.kr. sem munu aldeilis koma sér vel.

Meðal verkefna sem hlutu styrk úr FF að þessu sinni eru:

  • 10,33 m.kr. til gerð deiliskipulags og göngustíga á Þeistareykjum
  • 23,10 m.kr. til hönnun áfangastaðanna austan Tjörness (Naustárfoss, Hólaheiði, Snartastaðir, Höskuldarnes ofl.)
  • 2,38 m.kr. vegna undirbúnings og hönnunar hjóla- og gönguleiða ásamt áningarstöðum í Eyjafjarðarsveit
  • 23,80 m.kr. fyrir stígagerð og brúun í Glerárdal

Landsáætlun: 85 ný verkefni
Gert er ráð fyrir rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til þriggja ára, sem rennur til verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2021-2023. 85 ný verkefni bætast við að þessu sinni og sem fyrr er áhersla lögð á að um sé að ræða heildstæða nálgun í gegnum svæðisheildir. Áhersla er þó einnig lögð á annars konar óstaðbundin verkefni s.s. til að auka fagþekkingu, bæta hönnun og samræmingu. Verkefni eru nú á áætlun á rúmlega 100 ferðamannastöðum, -svæðum og -leiðum og ber helst að nefna fyrirhugaða uppbyggingu ofan við Öxarárfoss með stórbættu aðgengi í þinghelgina, auk þess sem lokið verður við göngupalla við Dettifoss sem auka öryggi og aðgengi til muna.

Meðal verkefna á okkar landssvæði sem hlutu styrk úr Landsáætlun að þessu sinni eru:

  • Friðland Svarfdæla - 2,74 m.kr.
  • Gásir - 3,50 m.kr.
  • Vaglaskógur - 18,00 m.kr.
  • Dimmuborgir – 21,40 m.kr.
  • Dettifoss (austan og vestan) – 36 m.kr.
  • Ásbyrgi – 25,50 m.kr.
  • Sauðanes – 2,00 m.kr.
  • Drekagil – 5,00 m.kr.

Hægt er að finna frekari upplýsingar um verkefnin á vefsjá Ferðamálastofu.

Nánari upplýsingar:

 

Getum við bætt síðuna?