Fara í efni

Um 2,7 milljörðum úthlutað úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða

Um 2,7 milljörðum úthlutað úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði í gær grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Gert er ráð fyrir um 2,8 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára.

Kynningin fór fram í hátíðarsal Háskólans á Akureyri, en þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem slík kynning fer fram utan höfuðborgarsvæðisins. Auk ráðherra kynnti framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs uppbyggingu í Ásbyrgi og við Dettifoss.


Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnir úthlutun úr landsáætlun um uppbyggingu innviða. Mynd af vef Stjórnarráðsins.

Í ár verður úthlutað rúmlega 914 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða sem gerir kleift að halda áfram því mikilvæga verkefni að byggja upp efnislega innviði á ferðamannastöðum, s.s. göngustíga, útsýnispalla, bílastæði og salerni. Aukin áhersla er á langtímaáætlanir í uppbyggingu staða en einnig á aukna miðlun og merkingar, ekki síst á stöðum þar sem samspil er á milli náttúru og menningarsögulegra minja.

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir. Alþingi samþykkti áætlunina sem þingsályktun í júní 2018.

Verkefnaáætlanir eru gerðar til þriggja ára og eru uppfærðar á hverju ári. Ný verkefnaáætlun sem ráðherra kynnti í gær nær til áranna 2022-2024.

Alls eru nú 151 verkefni á áætlun næstu þriggja ára á rúmlega 90 ferðamannastöðum, þar af 65 ný verkefni sem bætast við að þessu sinni. Þar má nefna uppbyggingu á Geysissvæðinu og skála með góðri heilsárs salernisaðstöðu í Vaglaskógi.

Uppbygging innviða og náttúruvernd
Landsáætlun um uppbyggingu innviða 2022-2024

Getum við bætt síðuna?