Tólf nýsköpunarverkefni klára Startup Landið 2025
Tólf nýsköpunarverkefni klára Startup Landið 2025
Tólf nýsköpunarteymi luku nýverið viðskiptahraðlinum Startup Landið 2025, sem er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna utan höfuðborgarsvæðisins. Markmið hraðalsins er að styðja frumkvöðla víðs vegar af landinu í að þróa hugmyndir sínar, efla viðskiptahæfni og byggja upp tengslanet.
Startup Landið er sjö vikna viðskiptahraðall þar sem þátttakendur fá fræðslu, sækja vinnustofur og taka þátt í mentorafundum með reynslumiklum aðilum úr atvinnulífinu. Hraðallinn hefur þannig reynst mikilvægur vettvangur fyrir verkefni til að þroskast og vaxa – með vindinn í bakið.
Lokaviðburður í Hofi á Akureyri
Lokaviðburður Startup Landsins fór fram með pompi og prakt fimmtudaginn 30. október síðastliðinn í Hofi á Akureyri. Þar stigu tólf nýsköpunarteymin á svið og kynntu verkefni sín fyrir boðsgestum. Um 70 manns sóttu viðburðinn og hlýddu á kraftmiklar kynningar teymanna.
Þátttakendur í Startup Landinu 2025
• Mundialis – Malað frostþurrkað grænmeti beint í hollustudrykkinn. (Vesturland)
• Festivus – Hornfirskt gæðasúkkulaði og ævintýralegur áfangastaður. (Suðurland)
• Snældur – Íslensk hönnunar- og gjafavara úr íslenskum við fyrir börn á aldrinum 0–4 ára. (Norðurland eystra)
• Ahsig ehf. – Dagsferðir fyrir ferðamenn í Skagafirði. (Norðurland vestra)
• Fast and Affordable – Ný byggingartækni sem lækkar kostnað og styttir byggingartíma steinsteyptra húsa. (Suðurnes)
• Cannarctica – Orkusparandi heildarlausn fyrir gróðurhús í köldu loftslagi. (Vestfirðir)
• Lífrænt vottaðar íslenskar lækningajurtir – Framleiðsla og sala lífrænna lækningajurta. (Vesturland)
• Hunda Veisla – Lífrænt heilfóður fyrir hraustari hunda, unnið úr úrgangi sláturhúsa. (Suðurland)
• Böggvisbrauð – Lífrænt súrdeigsbrauð; næringarríkt og umhverfisvænt. (Norðurland eystra)
• Brekka Ferðaþjónusta – Ómönnuð verslun á Þingeyri með veitingasölu. (Vestfirðir)
• Sólbrekka Mjóafirði – Ævintýraleg vetrarferð með áherslu á friðsæld og náttúrufegurð. (Austurland)
• Litli Gúri ehf. – Upplifðu náttúruna og undur hafsins á RIB Safari á Skagaströnd. (Norðurland vestra)
Samstarfsverkefni landshlutasamtaka
Startup Landið er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna SSNV, SSNE, Vestfjarðastofu, Austurbrúar, SASS, SSS og SSV, sem saman vinna að því að efla nýsköpun og byggðafestu á landsbyggðinni.
Að verkefninu loknu óska landshlutasamtökin öllum teymunum innilega til hamingju og áframhaldandi góðs gengis með verkefni sín.