Fara í efni

Tilraunaverkefni um orkusparnað

Tilraunaverkefni um orkusparnað

Langanesbyggð hefur í samstarfi við Orkusjóð og SSNE hafið tilraunaverkefni um orkusparnað á Bakkafirði. Bakkafjörður er staðsettur á skilgreindu köldu svæði, þ.e. þar sem íbúar og atvinnulíf hafa ekki aðgang að jarðhita og kynda því hús sín með raforku. Slík rafhitun á íbúðarhúsnæði er að hluta niðurgreidd af ríkinu þar sem hún er mun dýrari en húshitun með jarðhita.

Markmið verkefnisins er að útvega hitun fyrir Hafnartangann á Bakkafirði og aðliggjandi svæði. Þar er að finna alla helstu þjónustu Bakkafjarðar við heimamenn og gesti, s.s. tjaldsvæði, gistiheimili, veitingastað og pöntunarþjónustu. Verkefnið gengur út á að bora holur í jörð gagngert til að nýta með jarðvarmadælum, og virkja þannig orku í héraði. Ísland er enn talsvert á eftir nágrannaþjóðum okkar hvað almenna notkun á varmadælum varðar en áratuga reynsla annarra er á einn veg, varmadælur spara um 60-80% af orku við húshitun í samanburði við beina rafhitun. Ein tilraunahola hefur verið boruð við fiskvinnslustöð Bjargsins ehf. og þrjár holur verða boraðar við skólahúsið sem nú hýsir gistirekstur og skrifstofu sveitarfélagsins.

SSNE hlaut nýverið 10.000.000 kr. styrk úr C.01 - sérstök verkefni sóknaráætlanasvæða til að koma að verkefninu með Langanesbyggð.

Getum við bætt síðuna?