Fara í efni

Þrjú verkefni hljóta styrk úr Lóunni

Þrjú verkefni hljóta styrk úr Lóunni

Í síðustu viku var tilkynnt hvaða 21 verkefni fengu úthlutað úr Lóunni – nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina. Hlutverk styrkjanna er styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni, á forsendum svæða á landsbyggðinni. Alls var úthlutað tæpu­­­m 100 m.kr.

Þrjú verkefni frá Norðurlandi Eystra hlutu styrki að samtals upphæð 12.600.000 kr.

Bjargið ehf. fékk styrk upp á 4.500.00 kr. fyrir verkefnið Grásleppugæði - sælgæti sjávar en verkefnið hefur það að markmiði að skapa nýjar afurðir úr grásleppu og auka þannig verðmætasköpun, skapa atvinnu í sjávarbyggðum og vinna nýja markaði erlendis.

Eimur fékk 3.900.000 kr. styrk fyrir Norðanátt í víking til Noregs. Verkefnið, sem er samstarfsverkefni Norðanáttar og Innovasjon Norge, er tvíþætt. Í fyrsta lagi er frumkvöðlum af landsbyggðinni veitt tækifæri til að vinna í norsku frumkvöðlaumhverfi og tengslanet þannig eflt til muna. Í öðru lagi mun Norðanátt samhliða þessu eflast með auknum tengslum við norska nýsköpunargeirann með uppbyggingu grænnar atvinnustarfsemi í dreifðum byggðum að markmiði.

Þá fékk nýtt þversamfélagslegt nýsköpunar- og fræðslunet styrk upp á 4.200.000 kr. fyrir þróunarverkefnið STEM Húsavík. Fræðslunetið leggur áherslu á áherslu á STEM greinar (e. Science, Technology, Engineering, Math) og hefur það markmið að styðja samfélög til sjálfbærni.

SSNE óskar þessum verkefnum innilega til hamingju með styrkinn.

Allar nánari upplýsingar má sjá hér.

Getum við bætt síðuna?