Stórt framfaraskref í orkumálum landshlutans
Stórt framfaraskref í orkumálum landshlutans
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis- og orkuráðherra heimsótti Þórshöfn í dag og kynnti mikilvægar aðgerðir í orkumálum landshlutans. Um er að ræða bæði bráðaaðgerðir og áætlun til langs tíma.
Ályktun stjórnar SSNE:
,,Stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) fagnar því sérstaklega að í dag hafi verið undirrituð viljayfirlýsing milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Landsnets og Rarik um eflingu raforkukerfis á svæðinu.
Viljayfirlýsingin, sem kveður á um lagningu 33 kV strengs frá Vopnafirði til Þórshafnar og áform um 132 kV flutningslínu frá Kópaskeri til Þórshafnar, markar stórt framfaraskref fyrir orkuöryggi, atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á Norðausturlandi.
Jafnframt er það sérstakt fagnaðarefni að einnig verði farið í að byggja nýtt 132 kV tengivirki á Bakka við Húsavík, sem auðveldar tengingu nýrra stórnotenda og styður við þróun atvinnulífs og orkutengds iðnaðar á svæðinu.
Stjórn SSNE bendir á að þessar aðgerðir eru í fullu samræmi við áherslur Samgöngu- og innviðastefnu SSNE 2023–2033, þar sem lögð er megináhersla á að tryggja tengingu Þórshafnar og Langaness við flutningskerfi landsins og að bæta orkuöryggi og flutningsgetu raforku á Norðurlandi eystra.
Viljayfirlýsingin er áþreifanlegt viðbragð stjórnvalda gagnvart stefnumótun og sameiginlegri hagsmunagæslu landshlutans. Ljóst er að um milljarða fjárfestingu er að ræða, sem á eftir að skila miklum samfélagslegum og efnahagslegum ávinningi bæði til landshlutans og þjóðarbúsins í heild.
Stjórn SSNE lýsir yfir vilja sínum til að vinna áfram með Landsneti, Rarik og stjórnvöldum að framgangi verkefnanna og heildstæðri þróun orkuinnviða á svæðinu.
Þetta er stór áfangasigur fyrir íbúa, atvinnulíf og samfélög á Norðurlandi eystra – og mikilvægt skref í átt að jafnvægi, öryggi og tækifærum um allt land."