Stjórn SSNE bókar um stöðu Flugþróunarsjóðs
Stjórn SSNE bókar um stöðu Flugþróunarsjóðs
Eftirfarandi bókun var samþykkt á 73. fundi stjórnar SSNE vegna stöðu Flugþróunarsjóðs:
Stjórn SSNE skorar á stjórnvöld að tryggja fullnægjandi fjármögnun Flugþróunarsjóðs og að þróa reglur hans þannig að hann sé betur samkeppnishæfur til að sinna hlutverki sínu varðandi uppbyggingu flugs til lengri tíma. Reynslan nú af flugi EasyJet um Akureyrarflugvöll hefur verið ákaflega góð og hefur haft umtalsverð jákvæð samfélagsleg áhrif.
Til að tryggja áframhaldandi eftirspurn og viðveru á markaði þarf að tryggja markaðs- og leiðaþróunarstuðning. Keflavíkurflugvöllur býður upp á hvatakerfi sem taka mið af lengri tíma og vaxtarmöguleikum. Brýnt er að Flugþróunarsjóði sé gert kleift að veita sambærilegan stuðning til lengri tíma og með meiri sveigjanleika en nú er.
Þá er jafnframt vakin athygli á umsögn stjórnar SSNE um Fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 þar sem eftirfarandi kemur fram um sama málefni:
Stjórn SSNE telur ákaflega mikilvægt að fjárlaganefnd horfi til þess að styðja með myndarlegum hætti við rekstur, uppbyggingu og markaðssetningu Akureyrarflugvallar og feli sérstakri stjórn eða félagi rekstur flugvallarins sem hefur það að markmiði að flugvöllurinn verði byggður upp til að sinna hlutverki sínu sem ein af gáttum Íslands. Þá er ákaflega mikilvægt að fullnægjandi fjármögnun Flugþróunarsjóðs verði tryggð og reglur hans þróaðar þannig að hann sé betur samkeppnishæfur til að sinna hlutverki sínu varðandi uppbyggingu flugs til lengri tíma. Undanfarin ár hafa sveitarfélög á Norðurlandi fjármagnað markaðssetningu flugvallarins, ásamt því að knýja á um nauðsynlega uppbyggingu hans. Þetta fyrirkomulag getur ekki talist réttlátt til framtíðar og ætti ríkið að koma enn sterkar að verkefninu. Flug EasyJet um Akureyrarflugvöll hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustu langt út fyrir Akureyri og hefur lyft vetrarferðaþjónustu upp svo um munar. Það væri ákaflega sorglegt að glopra niður þeirri stöðu sem þó hefur náðst og halda ekki áfram uppbyggingunni sem er landinu öllu ákaflega mikilvæg.
Nánari upplýsingar veitir formaður stjórnar, Lára Halldóra Eiríksdóttir eða framkvæmdastjóri SSNE, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.