Fara í efni

Starfshópur um póstþjónustu

Starfshópur um póstþjónustu

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að meta hvernig best megi ná markmiðum 1. gr. laga um póstþjónustu nr. 98/2019 um alþjónustu, m.a. með hliðsjón af tækninýjungum, samkeppnissjónarmiðum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Markmið með vinnu starfshópsins er að:

  • greina tækifæri til að lækka kostnað ríkissjóðs af póstþjónustu, þ.e. svokölluðum alþjónustukostnaði
  • útfæra tillögur sem tryggja að allir landsmenn fái notið póstþjónustu og greiði fyrir hana viðunandi verð, þ.m.t. mögulega flutningsjöfnun
  • tryggja heilbrigða samkeppni á svæðum þar sem ekki er markaðsbrestur
  • greina og bregðast við mögulegri skörun milli laga um póstþjónustu og laga um farþegaflutninga og farmflutninga á Íslandi.

Auk fulltrúa samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis sitja í nefndinni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðherra, fulltrúi forsætisráðherra, Byggðastofnunar, Samkeppniseftirlitsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins og Neytendasamtakanna. Landshlutasamtök eiga tvo fulltrúa í starfshópnum en það eru þau Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV.

Starfshópurinn hefur fundað tvisvar en hópnum er ætlað að setja tillögur fram í skýrslu ásamt kostnaðarmati og gera grein fyrir áhrifum þeirra á póstmarkaðinn í heild og hagrænum áhrifum í samkeppnislegu og byggðalegu sjónarmiði. Skipað er í hópinn til 15. desember næstkomandi.

 

Getum við bætt síðuna?