Fara í efni

Skýrsla um þróun og eflingu þekkingarsamfélagsins á Húsavík

Skýrsla um þróun og eflingu þekkingarsamfélagsins á Húsavík

Í nokkurn tíma hefur verið unnið með markvissum hætti að þróun og eflingu þekkingarsamfélagsins á Húsavík. Meginverkefnin hafa verið af tvennum toga. Annars vegar hefur farið fram undirbúningur flutnings starfseminnar í rýmra húsnæði og aðstöðu sem sérsniðin er að starfseminni til frambúðar. Hins vegar hefur verið unnið að þróun starfseminnar í átt að auknum tengslum við atvinnulífið með stuðningi við nýsköpun og frumkvöðlastarf. Þróunarverkefnið var áhersluverkefni SSNE árið 2020 og byggir m.a. á greiningu á þekkingarstarfsemi og nýsköpunarstarfi í nágrannalöndum okkar og samanburði við stöðuna hérlendis. Eitt af því sem skoðað var sérstaklega voru áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á dreifðar byggðir þar sem áskoranir og tækifæri byggðanna voru helsta viðfangsefnið. Hlutverk þekkingarstofnana var auk þess metið með tilliti til breyttra atvinnuhátta og tækniframfara. Samkvæmt niðurstöðum verkefnisins eru þekking og nýsköpun sá lykill sem flestir líta til varðandi möguleika dreifbýlla svæða til að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Þar er stöðugt samstarf og samtal þekkingarsamfélagsins, íbúa svæðisins og atvinnulífsins mikilvægt til að tryggja skilvirkni nýsköpunarstarfs og flæði þekkingar. Það á ekki síst við á dreifbýlum svæðum þar sem virk þátttaka allra í tækniþróun og framförum fjórðu iðnbyltingarinnar er nauðsynleg til að vinna að framþróun svæða. Á grunni þeirrar vinnu sem fór fram í verkefninu er stefnt að því að koma á laggirnar húsnæði á Húsavík á vormánuðum 2022 þar sem öfl vísinda, nýsköpunar og atvinnulífs sameinast á einum stað og mynda líflegan suðupott hugmynda.

Skýrsluna má nálgast hér

Getum við bætt síðuna?