Sinfó í sundi - Söngur lífsins!
Sinfó í sundi - Söngur lífsins!
Viðburðurinn er hluti af 75 ára afmælishátíð Sinfóníuhljómsveitar Íslands og felur í sér beina útsendingu frá stórtónleikunum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Klassíkin okkar. Áherslan í efnisskrá tónleikanna að þessu sinni verður á fjölbreyttan söng:
Við syngjum okkur í gegnum lífið; í leikskóla og jarðar förum, í bílnum og í sturtu, þegar við svæfum og þegar við elskum, þegar við hvetjum eða viljum upplifa samstöðu. Stundum syngjum við ein, stundum í hóp, stundum fallega en svo er auðvitað hægt að öskursyngja ef svo ber undir.
Hér flytja margir af okkar fremstu söngvurum tónlist sem tengist hinum ýmsu athöfnum okkar og viðburðum á lífsleiðinni; frá tregafullum kvöldsöngvum til glaðværra gamansöngva, sjá nánar hér.
Einsöngvarar
Dísella Lárusdóttir
Eggert Reginn Kjartansson
GDRN
Ólafur Kjartan Sigurðarson
Pálmi Gunnarsson
Rebekka Blöndal
Valdimar Guðmundsson
Þetta er gullið tækifæri til að njóta stórtónleika í heita pottinum eða láta tónanna hvetja sig áfram á brautinni.
Sundlaugar sem taka þátt á Norðurlandi eystra eru:
- Sundlaug Akureyrar
- Sundlaugin á Dalvík
- Sundlaugin Grenivík
- Sundlaugin á Húsavík
- Sundlaugin Ólafsfirði
- Sundlaugin á Raufarhöfn
Sjá allar þátttökulaugar á eftirfarandi viðburði á facebook: Sinfó í sundi um allt land
,,Sinfóníuhljómsveit Íslands er þjóðareign og það er okkur annt um; hún skipar lykilhlutverk í íslensku tónlistarlífi. Listræn framþróun er ávallt í fyrirrúmi en metnaðarfull, vönduð og skemmtileg fræðsludagskrá er okkur einnig afar dýrmæt. Hljómsveitin vill fylgja tónlistarunnendum í gegnum lífið." - Guðni Tómasson framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í takt við þessi orð hafði Guðni samband við menningarfulltrúa landshlutasamtaka allan hringinn sem og sveitarfélögin sjálf, til að efla og þróa aðgengi íbúa Íslands að Sinfó um allt land. Sundlaugarmenning á Íslandi hefur verið tilnefnd sem hluti af óáþreifanlegum menningararfi mannkyns hjá UNESCO, en sundlaugarmenningin á Íslandi er dæmi um útbreidda hversdagsmenningu sem flestir íbúar stunda með einhverjum hætti í gegnum lífið. Það er því sérstaklega viðeigandi að fyrsta samstarfsverkefni sinfó um allt land í tíð Guðna, fari fram í sundlaugum landsins. Lykilstef sem koma fram aftur og aftur þegar rætt er um óáþreifanlega menningararfinn eru t.d. samfélag, almannagæði, lýðheilsa, slökun, félagsleg heilsa, vellíðan og leikur, sem tónar vel við markmið hljómsveitarinnar.
Sjáumst í sundi!