Samgönguvika og Bíllausi dagurinn
Samgönguvika og Bíllausi dagurinn
Núna er evrópska Samgönguvikan í gangi og endar hún á mánudaginn næstkomandi með Bíllausa deginum.
Sveitarfélög innan SSNE hafa verið virkir þátttakendur undanfarin ár en Akureyrarbær er þó eina sveitarfélagið sem er þátttakandi þetta árið.
Á Akureyri verður hægt að taka þátt í fjölbreyttum viðburðum. Aðalviðburðurinn svokallað Aðgengistroll er í dag 17. september kl 16:30, sem haldið er í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár. Farið verður frá Lystigarðinum að Íþróttahöllinni, um 400 metra leið. Á bílaplaninu við Íþróttahöllina verður boðið upp á grillaðar pylsur og samtal um upplifun þátttakenda. Öll eru velkomin til að taka þátt og ræða saman um aðgengi og hindranir í nærumhverfinu.
Alla vikuna er hægt að taka þátt í fjölskylduleik, þar sem hægt er að leysa ýmis verkefni sem tengjast hreyfingu og útivist.
Við hvetjum öll til að skilja bílinn eftir heima og nota sér virka ferðamáta á Bíllausa daginn!