Fara í efni

Samfélagsleg áhrif af beinu millilandaflugi á Norðurlandi

Samfélagsleg áhrif af beinu millilandaflugi á Norðurlandi

Ný rannsókn sem styrkt var af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands sýnir veruleg jákvæð áhrif af beinu millilandaflugi frá Akureyri. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að gott aðgengi að ódýrum og þægilegum flugsamgöngum hefur jákvæð áhrif á framleiðni, viðskipti, tekjur, neyslu og einkafjárfestingu á áhrifasvæði viðkomandi flugvalla.

Betri flugsamgöngur auka jafnframt lífsgæði íbúanna með margvíslegum hætti, svo sem með betra aðgengi að sérhæfðari þjónustu, fleiri möguleikum á orlofs- og skemmtiferðum og auknum samskiptum við fjarlæga vini og fjölskyldu og stuðla að fólksfjölgun á viðkomandi svæðum. Um þriðjungur Akureyringa ferðaðist milli landa með Niceair á tíu mánaða tímabili 2022–23 og flugið jók einnig lífsgæði þeirra sem ekki nýttu sér það. Annars staðar á Norðurlandi eystra stuðlaði flug Niceair einnig að auknum utanlandsferðum og hafði nokkur áhrif á lífsgæði en áhrifin voru lítil á Norðurlandi vestra og Austurlandi.

Flug Niceair til Kaupmannahafnar og Tenerife sýndi að heimamarkaðurinn á Norðurlandi eystra getur staðið undir reglubundnu millilandaflugi allan ársins hring en ferðir erlendra ferðamanna eru nauðsynlegar til að tryggja ásættanlega sætanýtingu á öllum leggjum. Þessar niðurstöður geta nýst til frekari uppbyggingar millilandaflugs um Akureyrarflugvöll.

Nánar má lesa um rannsóknina hér

Getum við bætt síðuna?