Fara í efni

Rusl á nýju ári

Rusl á nýju ári

Á nýliðnu ári voru úrgangsmál meira í umræðunni en oft áður. Búið er að breyta löggjöf úrgangsmála og mikið verið að nota ný hugtök eins og borgað þegar hent er (BÞHE) í bland við eldri eins og Mengunarbótareglu, hringrásarhagkerfi og svæðisáætlun og auðvitað stóru dagsetninguna 1. janúar 2023. Það er því ekki að undra að fólk sem ekki er dags daglega að velta þessu fyrir sér verði ringlað og hugsi hvað gerist í raun um áramótin hjá mér? Í flestum tilvikum þá er einfaldasta svarið, ekki mikið.

Í raun er þetta nokkuð einfalt. Allt sem þú sem íbúi þarft að vita er að sveitarfélagið mun breyta gjaldskránni þannig að raunkostnaður við þína þjónustu verður greinilegri og þú munt geta breytt þjónustunni í takt við þarfir þíns heimilis og þannig dregið úr kostnaði. Íbúar munu einnig nú fá fjögur ílát, eða hólf, þar sem flokka skal í minnst fjóra flokka við húsvegg. Grenndarsöfnunarkerfi verður í mörgum tilvikum eflt og tekið við minnst sex endurvinnsluflokkum. Þá verða merkingar samræmdar um allt land. Þessar breytingar verða kynntar vel og vandlega þegar þar að kemur í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Á næsta ári mun innleiðing nýs kerfis kalla á miklar breytingar í innra starfi sveitarfélaganna á Norðurlandi eystra. Verið er að leggja lokahönd á drög að svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi fyrir almenna kynningu. Einnig þurfa sveitarfélögin að taka upp samþykktir og gjaldskrár um meðhöndlun úrgangs. Þá eru þjónustusamningar að renna út í mörgum tilvikum, eða í einhverjum tilvikum runnir út, og þarf því að endurskoða verksamninga. Öll sveitarfélögin eru að nýta þetta tækifæri og skoða hvað þau geta gert betur þannig að sem bestur árangur náist með sem minnstum kostnaði.

Sveitarfélögin á Norðurlandi eystra hafa öll sýnt því áhuga að vera samferða í þessari vegferð en mikil vinna er fyrir höndum að ákveða hvernig því samstarfi verður háttað og hversu samræmd þjónustan verður. Það er sameiginlegt markmið sveitarfélaganna að draga úr myndun úrgangs og að sá úrgangur sem myndast verði nýttur sem hráefni til endurnotkunar, endurvinnslu eða endurnýtingar og fari ekki í urðun ef því er við komið.

En við verðum að muna að hvert sveitarfélag er samfélagsverkefni og það er ekkert samfélag án einstaklinga. Það hvílir því sú ábyrgð á okkur öllum að hugsa „hvað ég get gert“ og í mörgum tilvikum er svarið það sem amma þín og afi gerðu. Farðu vel með og ekki nota meira en þú þarft, notum fjölnota vöru í stað einnota og gerum við í stað þess að kaupa nýtt. Það eru líka nýjar kröfur sem gott er að hafa í huga; kaupum ekki vöru í plastumbúðum ef hjá því komist, ef vara er í plastumbúðum göngum úr skugga um að þær séu ekki úr mörgum óaðskiljanlegum gerðum af efnum og síðast en ekki síst flokkum og flokkum rétt. Samfélagið er að vinna í því að gera þetta einfaldara og auðveldara. Það sem við þurfum að gera er að taka þátt.

Getum við bætt síðuna?